Kynning á matarsóun í Reykjavík

KjötsúpaForrannsókn á matarsóun heimila í Reykjavík var kynnt á Hallveigarstöðum í dag.  Á kynningunni í dag var m.a. boðið uppá tvennskonar Diskósúpur, súpur eldaðar úr hráhefni sem var að komast á síðasta söludag eða hafði útlitsgalla og hefði annars verið hent. Það var verslunin Nettó á Granda sem gaf Kvenfélagasambandinu hráefnið sem það eldaði súpurnar úr. Nettó ásamt Samkaupum hafa sýnt gott fordæmi í að minnka matarsóun með því að bjóða viðskiptavinum uppá stigvaxandi afslátt afslátt af matvörum sem nálgast síðasta söludag. Forransóknin bendir til að a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega. Þetta samsvarar a.m.k. 4,5 milljörðum króna. Samkvæmt mælingum inn á sautján heimilum hendir hver einstaklingur um 48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

Sú upphæð dugar fyrir einu kílói af lambakótilettum og léttu meðlæti í hverri viku. Ef dregið yrði úr matarsóun um 20% væri 1.150 tonnum minna hent af mat sem þýddi um 900 milljóna sparnað fyrir íbúa Reykjavíkur í heild sinni. Tæplega 18,5 milljóna króna sparnaður yrði vegna gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. „Slíkri upphæð væri vel varið í átak gegn matarsóun,“ segir Rannveig Magnúsdóttir verkefnastjóri á Landvernd. Rannsakendur telja matið varfærið og að matarsóun kunni að vera enn meiri, en frekari rannsóknir vanti. Landvernd vann forrannsóknina í samstarfi við Reykjavíkurborg og fyrir tilstilli verðlaunafés sem Reykjavíkurborg tók við þegar hún fékk Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. 

Matarsóun er stórt og viðamikið alþjóðlegt vandamál sem ógnar fæðuöryggi til framtíðar. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna telur að um 1,3 milljarðar tonna af mat sé hent ár hvert sem nægir til að fæða um þrjá milljarða manna. Tilgangur þessarar forrannsóknar var að fá vísbendingar um umfang matarsóunar á reykvískum heimilum og prufukeyra hérlendis þær aðferðir sem nú þegar eru notaðar til að mæla matarsóun annars staðar í heiminum. Sautján heimili tóku þátt í forrannsókninni. Þau svöruðu tveimur spurningalistum varðandi hegðun og viðhorf gagnvart matarsóun og skráðu niður allan mat og drykk sem var hent yfir viku tímabil í matardagbók. 

Niðurstöður forrannsóknarinnar benda til að heildarmatarsóun hvers einstaklings sé a.m.k. 48 kg á ári sem jafngildir tæpum 150 þúsund krónum fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Þetta er nokkuð minni matarsóun en mælst hefur t.d. í Bretlandi. Með matarsóun er átt við þann mat sem hægt hefði verið að neyta. Því telst t.d. kaffikorgur, bein, bananahýði o.þ.h. ekki til matarsóunar. Mælingar tóku eingöngu til matarsóunar inná heimilum, ekki þess matar sem heimilisfólk sóar utan þess. Ástæða matarsóunar reykvísku heimilanna var aðallega tvenns konar, annars vegar að „eldað, matreitt eða skammtað hafi verið of mikið” (46%) og hinsvegar að „matur var ekki notaður á réttum tíma“ (44%). Peningasparnaður var sterkasti hvatinn til að minnka matarsóun hjá þátttakendum en samviskubit, skilvirkni, umhverfisáhrif og fæðuskortur annars staðar í heiminum voru einnig sterkir hvatar. Eftir að matardagbókinni var lokið sögðu nær allir þátttakendur að þeir myndu héðan í frá leggja sig fram við að minnka magn þess matar sem er hent af heimilum þeirra.  

Samkvæmt rannsóknum í Bretlandi hefur átak gegn matarsóun skilað rúmlega 20% minni sóun. „Ef slíkur árangur næðist í Reykjavík og miðað væri við niðurstöður forrannsóknarinnar, myndi það spara Reykvíkingum 900 milljónir á ári eða um 30 þúsund á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Draga myndi úr úrgangsmagni um rúm 1.150 tonn sem þýddi um 18,5 milljóna króna sparnað á gjöldum borgarbúa vegna meðhöndlunar úrgangs,“ segir Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg. 

Rannsakendur telja viðameiri rannsókn nauðsynlega til að fá gleggri og öruggari mynd af matarsóun Íslendinga. Ljóst er að niðurstöður forrannsóknarinnar nýtast fyrir slíka vinnu og gefa jafnframt mikilvægar vísbendingar um hvernig megi best nálgast aðgerðir gegn matarsóun. 

Reykjavíkurborg hefur unnið að því að lágmarka myndun úrgangs með ýmis konar aðgerðum. Álagning gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs er t.d. sett þannig upp að sá sem veldur geldur, samkvæmt mengunarbótareglunni. Íbúar geta valið um fjölda og stærð úrgangsíláta við heimili sitt og gjöldin miðast við það. Þannig verður til hvati fyrir íbúa að minnka magnið sem fellur til og flokka meira og skila til endurvinnslu.

Landvernd hefur síðustu tvö ár unnið að vitundarvakningu um matarsóun og áhrif hennar með Vakandi og Kvenfélagasambandi Íslands. Meðal samstarfsverkefna samtakanna þriggja eru málþing og ráðstefnur, matreiðslubók með meistararéttum úr afgöngum, námskeið fyrir almenning, heimildarmynd og fleira.

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands