Minningarsjóður Helgu M. Pálsdóttur auglýsir eftir umsóknum um styrki til kvenna sem hyggja á framhaldsnám

Minningarsjóður Helgu M. Pálsdóttur auglýsir eftir umsóknum um styrki til kvenna sem hyggja á framhaldsnám

Minningasjóðurinn var stofnaður samkvæmt ákvæði í erfðaskrá Helgu M. Pálsdóttur, 25. ágúst 1987. Hlutverk sjóðsins er að styrkja ungar konur til framhaldsnáms, sbr. 3. grein stofnskrár hans.

Í umsóknum skal koma fram nafn, kennitala og heimili umsækjanda, auk upplýsinga um eignir og tekjur ársins 2018 (staðfest afrit af skattskýrslu) og mynd af umsækjanda. Þá skal umsækjandi greina frá fyrri menntun, störfum og framhaldsnámi því sem hann ætlar að leggja stund á. Nauðsynlegt er að staðfesting þeirrar menntastofnunar sem námið mun fara fram við, fylgi umsókn.

Sjóðurinn hefur úthlutað styrkjum til kvenna í ólíkum námsgreinum, s.s. textíl, félagsvísindum, harmonikkuleik, íþróttafræðum, viðskiptafræði, guð- og trúarbragafræði, brúðulist, náms- og kennslufræði, hagnýtri menningarmiðlun, safnafræði, eðlisfræði, þróunarfræði og talmeinafræði.

Umsóknir skulu sendar í pósti fyrir 15. október 2019

Til:

Kvenfélagasambands Íslands, Minningarsjóður.

Túngötu 14,

101 Reykjavík

Stjórn Minningarsjóðs Helgu M. Pálsdóttur

Nánar um sjóðinn og Helgu. M. Pálsdóttur

Helga Málfríður Pálsdóttir Fædd 13. ágúst 1900. Látin 29. mai 1993

Staðfesting fyrir skipulagsskrá Helgu M. Pálsdóttur var gerð af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hinn 5. júlí 1989.

Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Helgu M. Pálsdóttur. Sjóðurinn er til minningar um Helgu og er stofnaður skv. ákvæði í arfleiðsluskrá hennar, dags. 25. ágúst 1987.

Kvenfélagasamband Íslands tók við vörslu og rekstri sjóðsins í marsmánuði 1998.

Helga Málfríður Pálsdóttir var fædd í Vörum í Garði, 13. ágúst 1900 og lést á Elliheimilinu Grund 29. mai 1993, 92 ára að aldri. Hún bjó lengst af á Snorrabraut 33 í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Magnúsdóttir frá Miðhúsum í Garði og Páll Jónasson úr Borgarfirði. Bjuggu þau að Vörum í Garði þar sem stundaður var búskapur og sjósókn. Helga Pálsdóttir var næstyngst fjögurra systkina en hún átti tvær eldri systur og einn bróður yngri.

Um 1910 var Sigríður móðir Helgu orðin ekkja og fluttist til Reykjavíkur. Helga fór þá í vist eins og títt var um stúlkur á þeim tíma, en árið 1925 fór hún til Kaupmannahafnar og fékk vinnu í hattabúð. Í framhaldi af því lærði hún hattasaum í Höfn og lauk þar námi líklega árið 1936.

Að námi loknu fluttist Helga heim til Íslands og fór að vinna í hattabúð sem þá var í Hafnarstræti 7 í Reykjavík. Þegar búðin í Hafnarstræti 7 brann nokkrum árum síðar, stofnaði hún sína eigin hattabúð í kjallaranum á Laugavegi 18 þar sem nú er verslun Máls og menningar.

Þegar það hús var svo rifið flutti hún búðina sína á Laugaveg 27, en kaffistofan TÍU DROPAR er nú þar í kjallaranum. Hattabúðina kallaði hún Hattabúð Jonna en bróðir hennar Jónas var alltaf kallaður Jonni og þaðan er nafngiftin komin. Í versluninni hjá Helgu störfuðu ætíð danskar hattagerðardömur og þótti það auka gæði hattanna sem þær bjuggu til.

Helga Málfríður Pálsdóttir var alla tíð einhleyp og barnlaus. Hún var myndarleg kona í sjón, há, grönn, dökkhærð. Sjarmerandi, kurteis og góðgjörn. Kona sem stóð sína plikt í lífinu.

Það var Kvenfélagasambandi Íslands bæði heiður og ánægja að verða fyrir valinu við varðveislu minningarsjóðs Helgu Málfríðar Pálsdóttur. Vonandi á sjóðurinn eftir að dafna að vexti og viðgangi í umsjón sambandsins og stuðla að og hvetja til aukinnar framhaldsmenntunar æ fleiri kvenna á Íslandi sem annars ættu e.t.v. ekki gott með að leggja út á þá braut.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands