Norrænt bréf kvenfélaganna birt á degi Norðurlandanna

Norræna bréfið í ár skrifar Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

 Sigridur Bjork GudjonsdottirNordens kvinneförbund, NKF, er samband kvenfélaga á  Norðurlöndum. Árlega fær eitt af aðildarsamtökum landanna,  aðila í sínu heimalandi til að skrifa s.k. „Norrænt bréf“ um málefni sem er efst á baugi og og varðar félagsheildina. 

Norræna bréfið birtist í miðlum aðildarsamtakanna í tengslum við Dag norðurlandanna, 23. mars. 

Bréfið birtist í 1. tbl. Húsfreyjunar 2017

Sjá Norræna bréfið hér:

Ný nálgun á Íslandi í baráttunni gegn heimilisofbeldi

Umfjöllunarefni þessarar greinar er nýtt verklag á Íslandi í málum er varða heimilisofbeldi. Undir þá skilgreiningu falla brot sem fullnægja þurfa tveimur skilyrðum; Fyrri forsendan er sú að gerandi og brotaþoli tengist nánum böndum, séu t.d. skyld eða tengd. Til dæmis getur verið um að ræða núverandi eða fyrrverandi maka, fólk í hjónabandi eða sambýlisfólk, börn, systkini, foreldra eða forráðamenn. Einnig kann að vera um þriðja aðila að ræða, ef tilgangurinn er að ná til manneskju í nánum tengslum. Seinni forsendan er sú að það verður að vera um að ræða brot á hegningarlögum eða barnaverndarlögum s.s. líkamsárás, kynferðisbrot, hótanir, eignaspjöll, kúgun, vændi, mansal eða hliðstæð brot. Vettvangur brots getur verið hvar sem er og einskorðast ekki við heimilið.

HVERS VEGNA þurfti að breyta verklagi?

Miklir vankantar voru á kerfinu okkar. Lögregla náði sjaldnast að ljúka rannsókn þessara mála á fullnægjandi hátt og ekki náðust fram sakfellingar þótt svo um mjög alvarleg brot væri að ræða. Til viðbótar má nefna að úrræði sem sett voru í lög árið 2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, þ.e. hin svokallaða austurríska leið, voru lítið sem ekkert nýtt.

Lögreglan á Suðurnesjum byrjaði með tilraunaverkefni til eins árs í samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga í umdæminu í byrjun febrúar 2013. Í grunninn fólst tilraunaverkefnið einfaldlega í því að breyta forgangsröðun bæði hjá lögreglu og sveitarfélagi með það að markmiði að bæta þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Sérhver breyting sem gerð var á verklagi var gerð innan ramma þágildandi íslenskra laga og án þess að lagt væri aukafjármagn til verkefnisins. Ríkislögreglustjóri innleiddi þessa nýju nálgun í öllum lögregluumdæmum í desember 2014 og önnur lögreglulið og sveitarfélög á landinu fylgdu í kjölfarið árið 2015. Í Reykjavík hófst verkefnið þann 12. janúar 2015 sem tilraunaverkefni í eitt ár. Óháður úttektaraðili, Rannsóknarstofnun Háskólans í kynjafræði (RIKK), fylgdist með innleiðingu á verkefninu hjá lögreglu, félagsþjónustu og barnavernd. Niðurstöður voru þær að verkefnið hefði gengið vel þótt einhverjir hnökrar væru á, sjá hér: Skýrsla

Samstarf við félagsþjónustu

Í dag er verklag þannig að lögreglan og félagsþjónustan eru í samstarfi sem felst meðal annars í því að lögreglan óskar ávallt eftir aðstoð félagsþjónustu þegar um er að ræða útköll þar sem grunur leikur á að um heimilisofbeldi sé að ræða. Tilgangurinn er að styrkja þolendur. Lögreglan kallar einnig til réttargæslumenn fyrir þolendur og rannsakar brotið strax á vettvangi. Verklagið felur þess vegna í sér að  rannsóknarlögreglumenn eru kallaðir út til viðbótar við almenna lögreglumenn sem fara í útkallið. Þannig nást markvissari fyrstu viðbrögð lögreglu og vettvangsrannsókn sem bætir rannsókn lögreglu. Úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili eru kynnt, aðstoð fyrir gerendur og áherslan, eins og áður sagði, á stuðning við þolendur ofbeldis til viðbótar við stuðning barnaverndar. Áhersla var einnig lögð á gagnaöflun eins og læknisvottorð og úrræði nýtt þar sem hægt var að fara fram með þvingunaraðgerðir eða ákæru án kæru brotaþola, sem oft var í þeim aðstæðum að viðkomandi gat ekki fylgt máli eftir.

Koma í veg fyrir endurtekin brot

Þegar heimilisofbeldi á sér stað og lögreglan hefur brugðist við neyðarkalli kemur upp ný staða þar sem brotaþoli er hræddur og tilbúinn að hjálpa lögreglu. Þetta sérstaka tækifæri er sá tími sem lögreglan þarf að nýta vel í þágu rannsóknar málsins. Kerfið verður að koma í veg fyrir endurtekin brot og tryggja að þau mál sem koma upp fái greiða leið í gegnum kerfið. Einn mikilvægasti þátturinn í verklaginu er að tryggja að brotaþolar og gerendur fái viðeigandi og fullnægjandi félagslega, sálræna og lögfræðilega aðstoð.Innan viku frá atviki eiga rannsakari og félagsráðgjafi að fara í óundirbúna heimsókn á heimili brotaþola, svokallaða eftirfylgdarheimsókn. Eftirfylgdarheimsóknin er farin til að meta aðstæðurnar á heimilinu. Er heimilisofbeldið enn við lýði, hafa nýjir áverkar komið í ljós á brotaþola, o.s. frv.? Að lokum er reynt að meta og í framhaldinu draga úr hættu á að ofbeldið verði ítrekað.

Heimilisofbeldi er ekki einkamál.

Lögreglan og kerfið í heild hefðu þurft að líta á heimilisofbeldi alvarlegum augum frá upphafi og taka það mun fastari tökum en áður var gert. Heimilisofbeldi er ekki einkamál sem rúmast innan friðhelgi heimilisins, heldur samfélagslegur harmleikur. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem alast upp á heimilum þar sem heimilisofbeldi á sér stað (óháð því hvort þau verða sjálf fyrir ofbeldinu eða þau verða vitni að því) þjást af streitu og öðrum skaðlegum þáttum, svipað og þau sem alast upp á stríðshrjáðum svæðum.

Þegar við metum áhættuþætti verðum við að huga sérstaklega að þeim þáttum sem eru áhættusamir:

  • Fyrri saga ofbeldis
  • Líflátshótanir
  • Afbrýðisemi
  • Hálstak/kyrkingartak
  • Eltihrellar
  • Stigmögnun
  • Fötlun
  • Þungun
  • Aldraðir

Niðurstaða tilraunaverkefnisins á höfuðborgarsvæðinu var sú að um væri að ræða ofbeldi milli maka eða fyrrverandi maka í 68% málanna og að í 68% málanna væri fyrri saga ofbeldis.Börn voru skráð á heimilið í 65% málanna. Gerendur voru flestir á aldrinum 18-40 ára eða 63% en 54% brotaþola voru á aldrinum 18-40 ára.

Statistik Norraentbref

Fjöldi heimilisofbeldis og ágreiningsmála eftir mánuðum 2012 -2016

Flestir brotaþola vorukonur eða 74,4% af þeim, tæp 9% börn/ólögráða. Flestar konurnar voru á aldrinum 21- 40 ára (55%)

Rúmlega fjórðungur brotaþola voru karlar og af þeim tæplega þriðjungur börn/ólögráða. Flestir karlarnir voru á aldrinum 36-50 ára (37%)

Um 23% brotaþola voru af erlendum uppruna (frá tæplega 40 þjóðlöndum, langflestir frá Póllandi en þar næst Víetnam og Tælandi)

Manndráp

Frá 2003 hafa orðið 22 manndráp á Íslandi. Af þeim falla 55% eða 12 mál undir skilgreiningu á heimilisofbeldi. Í rúmlega 40% tilvika (9 mál) voru aðilar í nánum tengslum.

Þessi mál eru dauðans alvara. Við verðum að tryggja öryggi hlutaðeigandi og nota allar öryggisráðstafanir sem við höfum yfir að ráða til að svo megi verða. Við þurfum að skilja að brotaþolinn getur verið í aðstæðum þar sem hann getur ekki tekið ábyrgð á því að leggja fram kæru. Við þurfum alvarlega að skoða hver áhrifin eru á heilsu barna. Börn sem alast upp á heimilum þar sem heimilisofbeldi á sér stað eru mun líklegri en aðrir til að eiga sjálf í ofbeldissambandi á fullorðinsárum. Þau eru líka líklegri til að eiga við hegðunarvandamál að stríða, þjást af sálrænum kvillum og hafa meira umburðarlyndi gagnvart ofbeldi. Þau eru líka mun líklegri til að verða sjálf fyrir ofbeldi. Það er algengur/útbreiddur misskilningur að börn viti ekki af heimilisofbeldinu. Það hefur sömu áhrif á börn að búa á heimili þar sem heimilisofbeldi á sér stað og að verða sjálf fyrir ofbeldi. Heimilisofbeldið litar öll samskipti á heimilinu.

Aðstoð, eftirfylgd og stuðningur mun leiða til þess að fleiri leiti sér hjálpar. Traust til lögreglunnar og kerfisins verður að vera til staðar í þessum málaflokki og samvinna er lykillinn!

Breytingar hafa verið gerðar á löggjöfinni frá því að þetta nýja verklag var tekið upp og er það vel. Þá höfum við séð miklar breytingar á menningu og forgangsröðun innan kerfisins.

Samvinna milli félagsþjónustu, barnaverndar, lögreglu og heilsugæslu hefur aukist. Nú tökumst við á við vandamálið á heildrænni hátt.Fleiri mál sæta ákæru, bæði fjölgar nálgunarbönnum og brottvísunum af heimili og einnig ákærum vegna heimilisofbeldismála. Mun fleiri leita sér nú aðstoðar.

Heimilisofbeldi er eitt af áherslumálum í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sem tók til starfa á Íslandi í janúar 2017. Þrátt fyrir talsverða mótstöðu í upphafi er verklagið komið til að vera. Þá er nýtt úrræði, Bjarkarhlíð, að komast á laggirnar, en það er móttökustöð fyrir þolendur ofbeldis sem frjáls félagasamtök, ríki og sveitarfélög standa að og er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu einn stofnenda Bjarkarhlíðar.

Kynferðisbrotamál eru næst á dagskrá, því alltof fá brot fá framgang innan kerfisins, eins og áður var með heimilisofbeldið. Á það þurfum við að leggja áherslu, vinna saman þvert á stofnanir, ráðuneyti, einkageirann, háskólasamfélagið og frjáls félagasamtök. Skilaboðin eru skýr. Ofbeldi á ekki að líðast og ofbeldi gegn konum og börnum þarf aðra nálgun en hina hefðbundnu kerfisnálgun sem hefur verið alltof ríkjandi hingað til.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir er fædd árið 1969. Hún er lögfræðingur að mennt og stundaði meistaranám við Háskólann í Lundi í Svíþjóð og er að ljúka meistaranámi í Háskóla Íslands. Sigríður byrjaði sinn feril sem skattstjóri Vestfjarða árið 1996, varð sýslumaður á Ísafirði árið 2002, aðstoðarríkislögreglustjóri árið 2007, lögreglustjóri á Suðurnesjum árið 2009 og lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Sigríður er gift Skúla S. Ólafssyni, sóknarpresti í Neskirkju í Reykjavík, og eiga þau saman þrjú börn á aldrinum 6 ára til 26 ára. Sigríður Björk eignaðist einnig fyrsta barnabarnið í lok síðasta árs, stúlku fædda 20. desember síðast liðinn.

Nordens kvinneförbund, NKF, stofnað árið 1920 hefur í dag um 67.500 félaga innan sinna raða á Norðurlöndum, þar af um 4900 á Íslandi. Stjórn NKF mynda formenn landssambanda aðildarfélaganna. Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands tók við formennsku NKF á Norræna þinginu í Vestmannaeyjum í júní sl. Formennska KÍ varir næstu 4 ár, 2016-2020. KÍ heldur þá skrifstofu fyrir samtökin og sér um fjármálin.

Norræn þing kvenfélaga eru haldin á hverju sumri, til skiptis á Norðurlöndunum. Markmiðið með þingunum er að efla kynni og miðla reynslu meðal kvenfélgskvenna á norðurlöndunum sem sinna mikilvægum félagslegum þáttum, hvert í sínu landi. Þar eru einnig teknar ákvarðanir fyrir félagsheildina. Allar kvenfélagskonur eru velkomnar að sækja þingin og skipuleggur Kvenfélagasamband Íslands ferðir og tekur við þátttöku beiðnum á þingin. Samhliða þingum eru haldnir stjórnarfundi NKF.

Norræna þingið 2017 verður haldið í Sandefjord í Noregi 15. – 18. júní í sumar.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands