Vitundarvakning um fatasóun - verkefni KÍ

PfaffsmallKvenfélagasamband Íslands fékk nýlega úthlutað styrk frá Umhverfisráðuneytinu vegna verkefnisins „Vitundarvakning um fatasóun“. Verkefnið er þegar hafið með grein sem birtist í fyrsta tölublaði Húsfreyjunnar í febrúar og með þátttöku í Umhverfishátíðinni sem haldin var í Norræna húsinu í byrjun april.. Markmið verkefnisins er að fræða almenning og kvenfélagskonur um mikilvægi þess að sporna gegn fatasóun og fræða um umhverfisáhrif fatasóunar.

Til að geta betur liðsinnt kvenfélögunum í þessu verkefni leitaði KÍ til Pfaff um samstarf og voru þau svo rausnarleg að gefa Kvenfélagasambandinu saumavél að gjöf sem kvenfélögin geta nýtt sér á þessum viðburðum.

Á myndinni sem hér fylgir taka Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ og Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ á móti saumavélinni frá Selmu Gísladóttur sölustjóra Pfaff. Um er að ræða Husqvarna Tribute 145M saumavél sem er mjög þægileg til að vinna á og hentar vel ef margir eru að nota vélina. Góð og kraftmikil vél sem ræður við allt frá þunnu silki upp í leður og nýtist því vel í allan vefnað.

 Kvenfélögin hafa nú þegar verið að vinna að verkefnum þessu tengdu meðal annars með því að sauma þúsundir fjölnota poka úr endurnýttum vefnaði og gefa eða selja í sínu samfélögum.

Í tengslum við verkefnið verða greinar og efni um fatasóun birtar í Húsfreyjunni og á síðu Leiðbeiningastöðvar heimilanna út árið 2018 og fram á vor 2019. Kvenfélögin eru hvött til að efna til viðburða og fræðslu um sóun til dæmis með því að skipuleggja fatabýtti, bjóða upp á aðstoð við að breyta fatnaði, gera við og endurnýta.

Það er von Kvenfélagasambandsins að sem flestar kvenfélagskonur taki þátt í verkefninu á einn eða annan hátt og að það verði til þess að sameina kvenfélögin í verkefni sem hefur sterk samfélagsleg og umhverfisleg áhrif samkvæmt markmiðum KÍ.

Á landsþinginu á Húsavík í október verður svo dagskrá tengd fatasóun á Sunnudagsmorgninum.

Nánar um saumavélina og leiðbeiningar um notkun hennar er að finna á vefnum hjá Pfaff:  Smelltu hér

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands