Lög Kvenfélagasambands Íslands

1. grein  

Heiti, heimili og varnarþing

Landssamband íslenskra kvenfélaga heitir Kvenfélagasamband Íslands, skammstafað KÍ.

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. grein

Aðild

  1. Kvenfélagasamband Íslands er myndað af héraðssamböndum kvenfélaga. Kvenfélög sem fullnægja ákveðnum skilyrðum, sbr. 2. grein lið 4. geta átt beina aðild að KÍ og teljast þá sem eitt héraðssamband.
  2. Héraðssamböndum sem mynda KÍ ber að fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
    • að tilgangur starfsemi þeirra samrýmist markmiðum KÍ
    • að í héraðssambandi séu við stofnun þess minnst þrjú kvenfélög
    • að stjórn héraðssambandsins sé alla jafna búsett á héraðssvæðinu
    • að breytingar á sambandi eða héraðssvæði verði gerðar í samráði við stjórn KÍ
    • að senda árlega skýrslu um starfsemi sína og samantekt um störf kvenfélaga í héraðinu eigi síðar en 1. mars ár hvert 
    • að greiða árgjöld, sem ákveðin eru af landsþingum KÍ eða formannaráðsfundum fyrir komandi ár. Greiðsluna skal inna af hendi eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Ef vanskil verða á árgjöldum missa héraðssambönd rétt til atkvæðis á lögbundnum fundum og þingum KÍ.
  1. Kvenfélögum sem eru aðilar að KÍ í gegnum héraðssamband ber að fullnægja eftirtöldu:
    • að tilgangur félagsins samrýmist markmiðum viðkomandi héraðssambands og þá um leið markmiðum KÍ
    • að lög félagsins séu samþykkt af hlutaðeigandi héraðssambandi
    • að félagið sendi árlega skýrslu til hlutaðeigandi héraðssambands um stjórnskipan, félagafjölda og starfsemi sína og standi skil á árgjöldum.
  1. Einstök kvenfélög geta ekki orðið beinir aðilar að KÍ.  Undanskilið er það kvenfélag sem þegar var beinn aðili samkvæmt eldri lögum þegar breytt ákvæði tók gildi. Það félag lýtur sömu skilyrðum og héraðssamböndin.
  2. Kvenfélagasamband Íslands er aðili að Kvennasambandi Norðurlanda, Nordens Kvindeforbund skammstafað NKF, og Alþjóðasambandi dreifbýliskvenna, Associated Country Women of the World, skammstafað ACWW.

 

3. grein

Markmið og leiðir

  1. Að efla tengsl og samvinnu kvenna með því að

            a)  stuðla að samskiptum kvenna með funda- og ráðstefnuhaldi

            b)  starfa með öðrum samtökum sem láta sig varða hagsmunamál kvenna

            c)  hvetja konur til áhrifa í þjóðfélaginu

            d)  vinna að jafnréttismálum

  1. Að efla félagsleg tengsl innan KÍ með því að

            a)  vera til stuðnings héraðssamböndum og einstökum kvenfélögum 

            b)  veita fræðslu um skyldur þeirra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félög sín

            c)  vinna að upplýsingamiðlun með fundum, ráðstefnum og námskeiðum

            d) vera talsmaður héraðssambandanna

  1. Að gefa út Húsfreyjuna -  Tímarit Kvenfélagasambands Íslands sjá nánar í reglugerð númer 2
  2. Að reka Leiðbeiningastöð heimilanna sjá nánar í reglugerð númer 3
  3. Að standa vörð um hag íslenskra heimila með því að

            a) fylgjast með opinberum ákvörðunum sem hafa áhrif á hag heimilanna

            c) koma á framfæri hugmyndum og ábendingum um almenn framfaramál.

            d) styðja mál sem efla vináttu og frið

            e) veita umsagnir í málum er berast frá Alþingi.

            f) sitja í opinberum nefndum og ráðum              

  1. Að vinna að stefnumálum NKF og ACWW svo sem kostur er hverju sinni. 

            (Sjá markmið og leiðir ACWW og NKF).

 

4. grein

Stjórnun Kvenfélagasambands Íslands

  1. Landsþing Kvenfélagasambands Íslands, sem haldið er á þriggja ára fresti fer með æðsta vald í málefnum KÍ.
  2. Stjórn KÍ  annast stjórn KÍ milli landsþinga og ber ábyrgð á því að lögum KÍ sé fylgt og samþykktum landsþings og formannaráðs sé framfylgt.  Auk þess sér stjórnin um undirbúning landsþings og formannaráðsfunda.
  3. Formannaráð fer með æðsta vald um málefni KÍ milli landsþinga.

 

5. grein

Landsþing

  1. Landsþing Kvenfélagasambands Íslands skal haldið þriðja hvert ár á þeim stað og tíma sem stjórnin ákveður. Landsþing skal boða 60 dögum fyrir þing með bréfi til allra héraðssambanda ásamt drögum að dagskrá þingsins. Landsþing er löglegt ef löglega er til þess boðað. Þingið fer fram samkvæmt þingsköpum fyrir landsþing KÍ.
  2. Tillögur að ályktunum sem óskað er eftir að séu lagðar fyrir landsþing skulu berast stjórn KÍ eigi síðar en 30 dögum fyrir landsþing en stjórn getur ákveðið frávik frá því ef talin er þörf á.
  3. Landsþing eru opin öllum kvenfélagskonum og hafa þær þar málfrelsi og tillögurétt.
  4. Stjórnarkonur KÍ eru ekki kjörgengnar á landsþing sem fulltrúar héraðssambanda.  Þær hafa sem stjórnarkonur rétt til setu á landsþingum með fullum réttindum.
  5. Atkvæðisbærir fulltrúar á landsþingi eru stjórnarkonur KÍ, formenn héraðs­sam­banda og hefur hvert félag sem sendir fulltrúa sinn á landsþing eitt atkvæði.
  6. Samþykkt breytinga á lögum KÍ samanber 10. og 11. grein þarf að hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða löglegs fundar.  Aðrar samþykktir þurfa að hljóta meirihluta.
  7. Fundargerð landsþings skal senda til allra kvenfélaga og héraðssambanda. Birta skal útdrátt úr fundargerð landsþings og ályktanir þess í tímaritinu Húsfreyjunni svo fljótt sem unnt er.

 

6. grein

Stjórn

  1. Stjórn Kvenfélagasambands Íslands skipa fimm konur: Forseti, varaforseti, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Tvær konur sitja í varastjórn.
  2. Kosningu stjórnar skal haga þannig:

a) Forseti er kosinn á hverju landsþingi til þriggja ára í senn.
b) Gjaldkeri og meðstjórnandi eru kosnir á hverju landsþingi til þriggja ára í senn.
c) Varaforseti, ritari og varastjórnarkonur eru kosnir á formannaráðsfundum:

    • Á fyrri aðalformannaráðsfundi eftir landsþing skal kjósa varaforseta til þriggja ára og eina konu í varastjórn til þriggja ára.
    • Á síðari aðalformannaráðsfundi eftir landsþing skal kjósa ritara til þriggja ára og eina konu í varastjórn til þriggja ára.

d) Tveir skoðunarmenn reikninga og varamenn þeirra eru  kosnir á landsþingi til þriggja ára í senn. 

  1. Kosning stjórnar skal vera leynileg og bindandi og skal einfaldur meirihluti atkvæða ráða úrslitum. Fái tvær eða fleiri konur jafnmörg atkvæði skal greiða atkvæði að nýju þar til meirihluti fæst.
  2. Engin kona má gegna sama embætti innan stjórnar KÍ lengur en tvö kjörtímabil í senn.

 

7. grein

Hlutverk stjórnar Kvenfélagasambands Íslands

  1. Forseti Kvenfélagasambands Íslands er málsvari KÍ út á við og æðsti yfirmaður inn á við.  Forseti boðar til funda og sér um að málefni og dagskrá séu undirbúin fyrir stjórnarfundi, formannaráðsfundi og landsþing.
  2. Varaforseti sér um ákveðna verkþætti í samráði við forseta og tekur við störfum forseta í forföllum.
  3. Ritari bókar fundagerðir stjórnar- og formannaráðsfunda. Ritari annast frágang fundagerða landsþings með kosnum þingriturum. Ritara ber að ganga frá skjölum sem varðveita skal í skjalasafni KÍ.
  4. Gjaldkeri annast fjárreiður KÍ, greiðslur reikninga og launamál, frágang ársreikninga KÍ og samningu fjárhagsáætlana og leggja þá fram.
  5. Meðstjórnandi starfar án sérstakrar verkaskiptingar en vinnur að þeim verkefnum sem honum eru falin hverju sinni.
  6. Varakonur stjórnar sækja stjórnarfundi samkvæmt ákvörðun stjórnar. Þeim skulu sendar fundagerðir stjórnarfunda svo fljótt sem hægt er.

Stjórn KÍ er heimilt að ráða það starfslið sem þurfa þykir hverju sinni en er þá um leið skylt að gera samning um verksvið og launakjör viðkomandi.

Í forföllum stjórnarkvenna:

  • Varaforseti tekur við störfum forseta.
  • Í forföllum varaforseta tekur ritari við störfum hans.
  • Í forföllum ritara eða gjaldkera tekur meðstjórnandi við starfi þeirra.

Komi meðstjórnandi eða varakona til lengri tíma í stað annarar stjórnarkonu skal hún sitja það tímabil sem viðkomandi var kjörin til. Við frekari forföll tekur önnur varakona sæti í aðalstjórn á sömu forsendum.

 

8. grein

Formannaráð

  1. Formannaráð er skipað formönnum héraðssambanda og stjórn KÍ.
  2. Halda skal tvo formannaráðsfundi á ári. Formannaráðsfundur að vori er þó aðalformannaráðsfundur þess árs og á þeim fundi skulu fara fram lögbundnar kosningar.
  3. Formannaráðsfund skal boða með bréfi minnst mánuði fyrir fund og skal fylgja fundarboði drög að dagskrá fundarins og tillögur að ályktunum ef hafa borist. Tillögur að ályktunum sem óskað er eftir að lagðar verði fyrir fundinn skulu hafa borist stjórn KÍ eigi síðar en 35 dögum fyrir formannaráðsfund en stjórn getur ákveðið frávik frá því  ef þurfa þykir.
  4. Á aðalformannaráðsfundi skal stjórn KÍ leggja fram skýrslu um starfsemina s.l. ár svo og endurskoðaða reikninga. Formannaráð skal endurskoða fjárhagsáætlun KÍ árlega.   Auk þess getur formannaráð samþykkt breytingar á árgjaldi ef þörf krefur.

 

9. grein

Nefndir 

  1. Uppstillinganefnd
    Uppstillinganefnd er skipuð þremur konum og skal kosin á  fyrsta aðalformannaráðsfundi eftir landsþing og skal starfa fram yfir næsta landsþing (í 3 ár).  Hlutverk nefndarinnar er að undirbúa kosningu stjórnar, skoðunarmanna reikninga og kosningar í aðrar trúnaðarstöður, ráð og nefndir er starfa fyrir KÍ.
  1. Kjörbréfanefnd
    Kjörbréfanefnd er skipuð þremur konum og tveimur til vara og skulu þær kosnar  á síðari aðalformannaráðsfundi fyrir landsþing.  Hlutverk kjörbréfanefndar er að athuga kjörbréf landsþingsfulltrúa, úrskurða um atkvæðamagn á landsþingi KÍ og annast talningu atkvæða á landsþingi.

 

10. grein

Ákvæði sem gilda, ef starfsemi KÍ yrði lögð niður

Komi fram tillaga um að leggja niður starfsemi Kvenfélagasambands Íslands þarf sú tillaga 2/3 hluta greiddra atkvæða. Ef landsþing samþykkir tillögu um að leggja starfssemi KÍ niður skal boða til aukalandsþings innan sex mánaða og skal tillagan tekin þar aftur til umræðu og afgreiðslu.

Milli landsþings og aukalandsþings skal starfa þingkjörin nefnd sem kannar tillöguna gaumgæfilega og veitir umsögn þar um.

Komi til slita Kvenfélagasambands Íslands, skulu eigur þess skiptast á milli aðildarsambanda þess, nema annað sé skjalfest (sjá reglugerð Kvennaheimilisins Hallveigarstaðir).

 

11. grein

Lagabreytingar.

Lögum KÍ má aðeins breyta á landsþingi og þarf 2/3 greiddra atkvæða til að samþykkja breytingarnar.

Tillögur frá héraðssamböndum eða einstökum félögum um breytingar á lögum KÍ skulu hafa borist stjórn KÍ eigi síðar en 60 dögum fyrir landsþing. Allar tillögur um lagabreytingar skulu sendar héraðssambandsformönnum eigi síðar en 30 dögum fyrir landsþing.

Lög KÍ skal endurskoða svo oft sem þurfa þykir.


Samþykkt á 39. landsþingi KÍ í Borgarnesi 15. – 17. október 2021

 

Lög Kvenfélagasambands Íslands á PDF

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands