Sumarfundur norrænu kvenfélagasambandanna 2005.

Sumarfundur norrænu kvenfélagasambandanna var haldinn í St. Michels í Finnlandi dagana 13. – 20. júní 2005 með þátttöku 28 fulltrúa frá Kvenfélagasambandi Íslands.

Mánudaginn 13. júní sl. flaug íslenski hópurinn til Helsinki. Þar var um að ræða Vikingline ferju sem lagði af stað frá Stokkhólmi um kl. 17. og var gist í ferjunni og snætt þar af kvöldverðarhlaðborði að kvöldi hins 13. en morgunverðarhlaðborði þriðjudaginn 14. júní.

Komið var til Helsinki um kl. 9 um morguninn og var þá strax haldið í útsýnisferð um Helsinki en farið í heimsókn til Mörtu-sambandsins eftir hádegi og dagurinn frjáls að öðru leyti. Gist var í stóru og glæsilegu hóteli í miðborginni er nefnist Hotel Presidentti og var auðvelt að fara ferða sinna um miðborgina út frá hótelinu, enda notuðu þátttakendur sér það óspart. Sumir fóru í verslanir, aðrir á söfn og sumir gerðu hvort tveggja.

Miðvikudagurinn 15. júní var til frjálsrar ráðstöfunar en í eftirmiðdaginn bauð sendiherra Íslands í Finnlandi Jón Baldvin Hannibalsson og frú, þátttakendum til móttöku á heimili sínu sem var vel þegið.

Að loknum morgunverði fimmtudaginn 16. júní var síðan lagt af stað til St. Michels með rútu. Tók ferðalagið um það bil fjórar klukkustundir og var komið til Paukkula lýðháskólans í St. Michels, þar sem sumarfundurinn var haldinn, um hádegisbil. Að loknum léttum hádegisverði hófst skráning á sumarfundinn. sem síðan var settur og þjóðsöngvar þátttökulandanna sungnir, en að því búnu ekið í kynnisferð um St. Michels. Kl. 18.00 bauð svo landshöfðinginn, Pirjo Ala-Kapees, til létts kvöldverðarhlaðborðs í embættisbústað sínum og bauð þátttakendur velkomna, auk þess sem stutt ávörp voru flutt.

Að loknum morgunverði föstudaginn 17. júní hófust umræður um þema fundarins

- Finn njutning í närheten. Nýtið og njótið náttúrunnar í nágrenni ykkar.

Skiptust erindin í tvennt:

  • Konur sem athafnamenn og framleiðendur umhverfisvænna afurða.
  • Ráðgjöf Kvenfélagasambands Finnlands Marttaliitto um lífrænar afurðir í tímans rás.

Að loknum hádegisverði fluttist fundurinn til Kenkävero en dagskráin þar skiptist í upplýsingagjöf annars vegar og vinnustaðakynningu hins vegar. Skoðað var brauðkolluverkstæði, farið í skoðunarferð um svæðið með virkri þátttöku gesta, Mörtu starfsemin í Etelä-Savo könnuð rækilega og Mörtu-menningarsetrið í Syreeni heimsótt.

Um kvöldið var efnt til heimboða á finnsk heimili og höfðu gestir með sér smágjafir í þakkarskyni til gestgjafanna. Meðal íslensku þátttakendanna var almenn ánægja með hversu vel tókst til og voru Íslendingarnir mjög þakklátir og ánægðir með þær höfðinglegu móttökur sem þeir áttu að fagna.

Að loknum morgunverði 18. júní var farið í fróðlega og ánæjulega ferð í Nyslott á milli kl. 9-17 og fólst hún í skoðunarferð með leiðsögumanni um Olofsborg, fornan og forvitnilegan miðaldakastala sem er á Heimsminjaskrá SÞ, og ferjusiglingu um vatnasvæði héraðsins. Loks var skoðað merkilegt listasafn, sem að hálfu var byggt neðanjarðar, Retretti-safnið, en það bauð m.a. upp á yfirlitssýningu á verkum hins kunna finnska listmálara, Pekka Halonen (1865-1933).

Um kvöldið var haldinn veglegur hátíðarkvöldverður í Kenkävero sem Martasambandið bauð til. Klæddust þátttakendur þjóðbúningum og öðrum hátíðarbúningum og fluttu heimatilbúin skemmtiatriði undir borðum, en formenn og/eða fulltrúar þátttökulandanna fluttu ávörp og afhentu gjafir til gestgjafanna.

Sumarfundinum var síðan slitið fyrir hádegi 19. júní, lagt af stað til Helsinki með rútu og haldið um borð í Vikingline áleiðis til Stokkhólms. Neyttu ferðalangar kvöldverðar í ferjunni og mun það úrval af mat og drykk sem á borðum var lengi í minnum haft meðal þátttakenda. Voru þar margir réttir í boði sem Íslendingar höfðu aldrei áður augum litið hvað þá heldur bragðað.

Að morgni mánudagsins 20. júní neyttu þátttakendur aftur glæsilegs morgunverðar í ferjunni áður en komið var til Stokkhólms en þar beið rúta á hafnarbakkanum er flutti hluta af hópnum út á Arlanda flugvöll, uns flogið var til Íslands með flugvél Flugleiða til Íslands um hádegisbil.

Annar hluti hópsins varð eftir í Stokkhólmi og hafði þar tveggja daga viðdvöl sem nýtt var til skoðunar- og verslunarferða um borgina uns haldið var heim á leið eftir hádegi miðvikudaginn 22. júní.

GA/KG/EÞ

Ljósmyndari EÞ

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands