110 ára afmæli Marttalitto í Finnlandi

110 ára Ævintýri


Kvenfélagasambandið Marttalitto, sem hefur á að skipa u.þ.b. 40.000 konum héldu upp á 110 ára afmæli sambandsins núna 10.10.2009.  Í því tilefni var formönnum allra Norðurlanda-samtakanna boðið að vera viðstaddir mikil hátíðahöld.  Og þá meina ég að bjóða, því þær greiddu allan ferðakostnað, gistingu og uppihald þá tvo sólarhringa sem ferðin tók gestina.  

 

Það var þó aðeins sænski formaðurinn, sem einnig er formaður norrænu samtakanna, sem hafði  tök á að þiggja boðið, ásamt mér.  

Ég flaug frá Keflavík í stormi og rigningu föstudagsmorguninn 9. október beint til Helsinki og var komin heim á hótel Holiday Inn um 3 leytið þann dag, en það er þriggja tíma munur þannig að dagurinn var fremur stuttur.  Þar hitti ég sænska formanninn, Siw Warholm  sem var nýkomin í hús og einnig May Kidd sem er okkur að góðu kunn síðan hún var Evrópuforseti ACWW en hún er  núna vara heimsforseti alþjóðasamtakanna. Við áttum skemmtilegar samræður og gagnlegar og skiptumst á fréttum um störf kvenfélagann og af  persónulegum toga.

Við vorum síðan sóttar á hótelið klukkan 18:45 og var boðið á veitingahús sem þær eru nýbúnar að opna í miðborg Helsinki og hafa rekið hann síðan í ágúst s.l.  Þar hittum við stjórnarkonur Mattalitto ásamt öðrum gestum sem þær höfðu boðið til hátíðarinnar.  Það voru auk okkar tveggja norðurlandaformannanna, Dato Ursula Goh heimsforseti, May Kidd, sem áður er nefnd og tvær konur frá Burgina Faso í Afríku, Maria Laugué og  Suzanne Waré, en þær hafa verið að vinna að sameiginlegu verkefni með Mörtunum,  sem felst í því að virkja sólarorku.   Þar var boðið upp á dýrindismáltíð, sellerísúpu og elgskjöt með meiru og gestir afhentu Samtökunum gjafir sem við komum með að heiman.   Ég var stolt að afhenda handofinn refil úr jurtalituðu bandi, sem unninn er af okkar stjórnarkonu Margréti Baldursdóttur.  Það var gerður góður rómur að honum og þótti mörgum athyglisvert að garnið væri eingöngu litað með íslenskum jurtalitum.  Ég hafði fengið fleiri kvenfélagskonur til liðs við mig,  því tvær konur úr S-Þing, Sif Jónsdóttir sem var milligöngumaður og Anna María Aradóttir sem er finnsk,   og hefur verið búsett hér á landi um árabil setti ávarp mitt yfir á finnsku og hafði ég hugsað mér að lesa það sjálf, en guggnaði á því þar sem orðin eru svo ótrúlega löng og erfið.  Ég setti því ávarpið í fallegt kort sem ég afhenti með reflinum og notaðist við skandinaviskuna í ávarpinu.  May Kidd spilaði á munnhörpu  lagið “Song of piece” sem er eins konar einkennislag alheimssamtakanna og alltaf sungið á erlendum þingum.  Hún sagði það afmælisgjöfina hennar til Marttalitto.

Næsta morgunn, sem var aðalhátíðisdagurinn vorum við sóttar á hótelið kl 11 og farið með okkur í kynnisferð um Helsinki og síðan beint í geysistóra skautahöll sem rúmaði um 6.000 manns, þar sem hátíðin skyldi haldin.

Það var stórfenglegt að sjá 4.000 konur streyma að höllinni úr öllum áttum í bláköflóttum skyrtum, sem þær hafa komið sér upp sem einkennisklæðnaði.    Mér var sagt að það væru fulltrúar frá öllum samböndum þannig að sumar áttu langt að sækja.  Þar á meðal komu 70 konur frá Lapplandi. Þegar inn í höllina var komið var okkur gestunum boðið til sætis í  eins konar viðhafnarstúku í miðju hallarinnar, en engin merki voru um það að þarna væri dansað á svelli, heldur gólfið klætt teppi og höllin öll fagurlega skreytt með  grenitrjám, Ericu, berjalyngi og hreindýramosa!  Allt beint úr náttúrunni.

Stundvíslega klukkan eitt var hátíðin sett með ávarpi formannsins Merju Siltanen.   Hún talaði að sjálfsögðu á finnsku þannig að ég skildi ekki erindi hennar en hún sagði mér að aðaláhersla sín í erindinu hefði verið að leggja áherslu á þær væru ennþá starfandi eftir 110 ár vegna þess að þær hefðu ávallt hugsað um hag heimilanna og gildi þess að hlú að þeim og nýta heimafengið efni.

Þá talaði heiðursgesturinn, Tarja Halonen forseti Finnlands og hafði á orði að samtakamáttur kvenna og alþjóðastarf væri aldrei meira áríðandi en nú þegar erfiðleikar steðjuðu að mörgum þjóðum.

Heimsforseti Ursula Goh  sagði frá alþjóðastarfinu og sagði það mikinn heiður að vera í forystu þeirra 9.000.000 kvenna sem mynda alheimssamtökin sem hafa félaga í 70 löndum, sem skiptast í 9 svæði og sem lifa við mjög ólík kjör.

Siw Warholm formaður Norrænu samtakanna flutti ávarp fyrir okkar hönd.  Sagði hún frá stofnun þeirra árið 1919.  Ísland starfaði með samtökunum að einhverju leyti en gerðist síðan fullgildur meðlimur árið 1951.  Árið 1999 var nafni samtakanna breytt úr Nordens husmorforbund í Nordisk kvindeforbund.  Hún lagði áherslu á samvinnu Norðurlandanna og sagði að saman værum við ávallt sterkari.

Eftir þessi ávörp sem tóku klukkutíma var boðið upp á glæsilega máltíð, sex rétta með hefðbundnum finnskum veislumat  svo sem rækjur, lax, rúgbrauð, salat, sveppi, svínasteik ofl.  Á efir var boðið upp á kaffi og grænar kúlur sem eru eins konar jólakúlur og alltaf borðaðar á jólunum.

Eftir matinn voru haldnir tónleikar,  þar sem  Laura Voualainen og Tom Metsåketo  fóru á kostum með stórhljómsveit.   Þetta var allt sem ævintýri!

Um kvöldið var okkur boðið í kvöldverð á veitingastað á 10. hæð Hotel Soko þar sem við höfðum stórkostlegt útsýni yfir borgina. 

Á sunnudagsmorguninn  mættu Mörturnar enn á ný og fóru með okkur á listsýningu kvenna í Amos Anderson´s safninu þar til tímabært var að halda út á flugvöll. Þar með lauk þessari ógleymanlegu ferð þar sem við gestirnir vorum meðhöndlaðar eins og þjóðhöfðingjar og mættum mikilli gestrisni og vináttu hvar sem við komum.   Við þökkum Marttalitto hjartanlega fyrir að leyfa okkur að taka þátt í þessu ævintýri.

 

Sigurlaug Viborg, forseti KÍ
        

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands