Fyrirlestur í samstarfi við Þjóðbúningaráð

Hver er þjóðin? Hvaða klæði?
Vandamál tengd skilgreiningum í rannsókn
á þjóðlegum klæðnaði íslenskra kvenna í dag

Karl Aspelund, Boston University, heldur fyrirlestur í Þjóðminjasafni Íslands þann 25. nóvember nk. kl. 12:00

Karl Aspelund hefur síðastliðin tvö ár undirbúið rannsókn vegna doktorsritgerðar
í mannfræði um eðli og stöðu þjóðlegs klæðnaðar íslenskra kvenna í dag („Þjóð og
þræðir í kvenna höndum.“) Undirbúningi er nánast lokið og munnleg gagnasöfnun og
skrif hafin. Þessi rannsókn, ásamt þjóðbúningaumræðu á Norðurlöndum, hvatti til
skýrari skilgreiningar á þremur þáttum:
1) Hvaða konur klæddust þeim fatnaði sem varð sérhverju sinni að þjóðbúningi?
2) Má skipta búningasögunni í tímabil innan kynslóða? Hvernig? Á hvaða forsendum?
3) Afhverju taldist einn klæðnaður ‚þjóðlegri‘ en annar og hvernig hefur sanngildi
þeirra verið rætt og metið?
Karl mun kynna þennan hluta rannsóknar sinnar, hugmyndir sem kviknað hafa í
framhaldi og nýjar rannsóknir sem munu tengjast þeim. Síðan mun hann leggja
fram nýjar spurningar sem hafa vaknað og ræða að lokum hvað þessar vangaveltur
leggja til rannsókna um þjóðleg gildi á tímum alþjóðlegra stílbrigða og hnattvæðingar.

Fyrirlestur í Þjóðminjasafni Íslands í samstarfi við Þjóðbúningaráð

Karl Aspelund, Boston University:
Karl er nemi til doktorsgráðu í mannfræði við Boston University í Bandaríkjunum og hefur
kennt fatahönnun við University of Rhode Island síðan 1996. Áður kenndi hann við Fataiðndeild
og stjórnaði Iðnhönnunardeild Iðnskólans í Reykjavík jafnframt því að hanna leikmyndir
og búninga fyrir leikhús og kvikmyndir. Ný bók eftir Karl kom út í sumar: ,Fashioning Society‘
er sögulegt yfirlit yfir hlutverk hátískuhönnunar í pólitískri ímyndasköpun.
Ritgerð Karls sem fyrirlestur þessi byggir á (,Who are these Folk? What is their Dress?’) var
flutt í boði Þjóðbúningaráðs Íslands á þingi Norrænna þjóðbúningaráða (Nordiskt
Dräktseminarium, 2009) í Svíþjóð í ágúst sem leið. Tengd ritgerð hans um menningarsköpun
Sigurðar málara og Kvöldfélagsins í Reykjavík (,Defining National Culture by Stealth
and Design’) fékk viðurkenningu Society of Historians of Scandinavia í Bandaríkjunum sem
besta ritgerð framhaldsnema á ársþingi þeirra í maíbyrjun.
Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku, er 50 mínútur að lengd og boðið verður upp á
spurningar og umræður á eftir

Fulltrúi Kvenfélagasambands Íslands í Þjóðbúningaráði er Ingibjörg Helga Ágústsdóttir í Stykkishólmi.
Vefsvæði Þjóðbúningaráðs er www.buningurinn.is

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands