Sumarblað Húsfreyjunnar komið út.

Sumarblað Húsfreyjunnar tímarits Kvenfélagasambands Íslands er komið út. Þetta er annað tölublaðið í ár en þess má geta að það fyrsta, sem kom út í mars, reyndist afar vinsælt og sló sölumet. Nú eins og áður er efni Húsfreyjunnar fjölbreytt, áhugaverð viðtöl, fræðsla, ráðgjöf um matargerð og heilsu, uppskriftir og handavinna, krossgáta og fréttir.
Í aðalviðtölum tímaritsins eru þær Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður, og Martha Ernstsdóttir, langhlaupari og jógakennari. Báðar hafa þessar konur náð einstökum árangri og eru þekktar hvor á sinn hátt bæði hérlendis og erlendis og hafa frá mörgu fróðlegu og skemmtilegu að segja. Margrét S. Sigbjörnsdóttir kennari sér um matreiðsluþáttinn, Hollari og hagkvæmari matur með Margréti. Í honum er fjöldi uppskrifta, hollar sósur með sumarmatnum, japanskt kryddjurtasalat með smokkfiski, laxatartar, grillað tófú, heilgrillaður silungur með birki, rótargrænmetissalat og rabarbarabaka svo eitthvað sé nefnt. Eygló Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Leiðbeiningastöðvar heimilanna býður lesendum upp á vandaða og ítarlega fræðslu um eldamennsku á útigrilli og það sem nauðsynlegt er að hafa í huga í sumarbústaðnum. Ásdís Birgisdóttir framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands á Blönduósi sér um handavinnuþátt Húsfreyjunnar. Í honum má finna flotta prjónaða stelpulopapeysu, gamaldags prjónaða barnahúfu, vettlinga og útsaum. Bryndís Bjarnason skrifar um Kvennafrídaginn sem nú á 35 ára afmæli. Krossgáta Dollýar er á sínum stað og Hildur Helga Gísladóttir framkvæmdastjóri Kvenfélagasambandsins segir fréttir af starfi íslenskra kvenna í kvenfélögum og fjallar um Kvennahlaupið.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands