Gleðilegt nýtt kvenfélags ár

Nú er árið 2011 runnið upp og átturgasta afmælisári Kvenfélagasambands Íslands er formlega lokið.

Stærsta verkefni afmælisársins var Húfuverkefni KÍ en það snérist um það að kvenfélagskonur prjónuðu húfur á alla nýbura sem fæddust á landinu.
Alls voru þetta um 5000 húfur sem ljósmæður afhentu til barnanna ásamt miða með upplýsingum um hver prjónaði húfuna og um Kvenfélagasambandið.

Verkefnið var jákvætt og hitti marga. Umræður hafa verið um kvenfélögin í landinu og hvort þau hafa áhrif á íbúa landsins.
Í gegnum tíðina hefur starf kvenfélaganna verið unnið án þes að kvenfélögin hafi hampað sér sérstaklega fyrir það. Oft á tíðum veit fólk ekki að það er kvenfélagið í heimabyggð sem sér um árvissar skemmtanir og gefur áhöld og tæki til hjúkrunar og lækninga. Það virðist einnig vera að þegar félögin reyna að vekja athygli fjölmiðla á því góða sem þau gera að það rati síður á prent eða í útsendingu en hið neikvæða sem fólki verður á í lífinu.

Með jákvæðnina að leiðarljósi halda kvenfélögin áfram að sinna sínum góðu verkefnum og efla samfélagið eins og þau hafa gert sl. 142 ár.

Nú á árinu 2011 halda mörg kvenfélög uppá merkisafmæli sín, Þau sem fylla tug eru:

Kvenfélag Svalbarðsstrandar verður 110 ára,
Kvenfélagið Brautin í Bolungarvík verður 100 ára,
Kvenfélagið Lindin, Vopnafirði og Kvenfélag Hellissands verða 90 ára,
Kvenfélag Skaftártungu verður 80 ára,
Kvenfélagið Björk í Kolbeinsstaðahreppi verður 70 ára,
Kvenfélagið Grein í Leirársveit og Kvenfélag Hveragerðis verða 60 ára,
Kvenfélagið Hlíf í Breiðdal, Kvenfélagið Askja á Jökuldal og Kvenfélagið Björk í Öræfum verða 50 ára
Kvenfélagið Sunna Reykjafjarðarhreppi verður 40 ára.
Yngsta kvenfélagið innan Kvenfélagasambandsins er Kvenfélagið Silfur sem starfar í Reykjavík en það er á sínu öðru starfsári.

Konur um land allt eru hvattar til að kynna sér starfssemi kvenfélaganna og leggja þeim lið.

Kvenfélagskonur munið eftir að gera ykkur dagamun á Degi kvenfélagskonunnar þann 1. febrúar sem þetta ár ber uppá þriðjudag.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands