Kvenfélagskonur með neytendamálin í brennidepli

Kvenfélagskonur með neytendamálin í brennidepli.

Formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands var haldinn í Kvennaheimilinu Hallveigarstöum 18. – 19. mars sl.
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru frjóar umræður á fundinum um ýmis málefni sem snerta störf kvenfélaganna auk þess að miklar umræður spunnust um neytendamál eftir framsögu GíslaTryggvasonar  talsmanns neytenda sem var gestur fundarins og erindi Svavars Guðmundssonar frá Matarkarfan.is  sem einnig heimsótti fundinn.
Samþykkt var ályktun þar sem stjórnvöld voru hvött til að efla réttindi neytenda til samræmis við þann rétt sem neytendur á hinum Norðurlöndunum njóta. 
Jafnframt hvatti fundurinn almenning  til að vera vakandi yfir neytendarétti sínum.

Á formannaráðsfundinum var Dóra Ruf, frá Kvenfélagi Kjósarhrepps kjörinn nýr ritari stjórnar KÍ og Ragnhildur Jónasdóttir úr Hvítabandinu í Reykjavík kjörin í varastjórn. Með kjöri Dóru í stjórn KÍ er brotið blað í sögu sambandsins sem nú nýtur starfskrafta útlendrar konu í stjórn í fyrsta sinn.
 
Greinilegt er að áhugi kvenna á öllum aldri á því að starfa í kvenfélögum hefur aukist á síðustu misserum og hefur fjölgað í mörgum félögum auk þess að á síðasta ári var stofnað nýtt kvenfélag í Reykjavík, en það hefur ekki gerst síðan árið 1973.

Ályktun formannaráðsfundar KÍ:
„Formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn á Hallveigarstöðum í Reykjavík 18. og 19. mars 2011 hvetur stjórnvöld til að stuðla að auknum réttindum neytenda til samræmis við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum.
Nauðsynlegt er að þeir sem standa eiga vörð um hagsmuni neytenda hafi skýr lög og reglur að styðjast við.  Einnig hvetur fundurinn alla til að vera vakandi neytendur og kynna sér réttindi sín.”

Formannaráðsfundir eru æðsta vald KÍ milli landsþinga sem haldin eru 3ja hvert ár. Næsta Landsþing KÍ verður í Keflavík haustið 2012.

Stjórn KÍ skipa:
Sigurlaug Viborg forseti
Una María Óskarsdóttir varaforseti
Margrét Baldursdóttir gjaldkeri
Dóra Ruf ritari
Ester Gunnarsdóttir meðstjórnandi
Rosemarie Brynhildur Þorleifsdóttir varstjórn
Ragnhildur Jónasdóttir varastjórn

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands