Kona í fyrsta skipti kosin stjórnarformaður Sameinaða lífeyrissjóðsins

Fulltrúar Kvenfélagasambands Íslands fóru á fund Auðar Hallgrímsdóttur formanns Sameinaða lífeyrissjóðsins í júní sl. og færðu henni blómvönd í tilefni þess að hún er fyrsta konan sem gegnir formennsku í lífeyrissjóði þar sem meginþorri sjóðfélaga kemur úr stétt iðnaðarmanna, en þess má geta að karlar eru 92% virkra félaga í Sameinaða lífeyrissjóðnum.

Markmið Kvenfélagasambandsins með blómaafhendingunni er að vekja athygli á því að konur hasla sér völl á æ fleiri sviðum samfélagsins.
Auður útskrifast sem hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1978 og vann sem hjúkrunarfræðingur til ársins 1991 en þá hóf hún störf við atvinnurekstur ásamt eiginmanni sínum  Óðni Gunnarssyni en saman eiga þau og  reka fyrirtækið Járnsmiðju Óðins.  Auður tók sæti í stjórn Málms árið 2007, Málmur er félag málms- og skipasmiða og er hún fyrsta konan sem situr í stjórn þess félags.  Árið  2008 var Auður skipuð í stjórn Sameinaða Lífeyrissjóðsins fyrir hönd Samtaka Iðnaðarins  og kosin formaður stjórnar vorið 2011.
Umhverfis  og jafnréttismál  eru Auði mjög hugleikinn og hóf hún snemma afskipti af pólitík til að hafa áhrif og móta betra samfélag,  enda er hún kvenfélagskona og starfar í í Kvenfélagi Garðabæjar eins og móðir hennar.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands