Þjóðbúningadagur sunnudaginn 11. mars

Sunnudaginn 11. mars verður þjóðbúningadagur í Þjóðminjasafni Íslands.

Gestir eru hvattir til að mæta á þjóðbúningi til að sýna sig og sjá aðra. Að þessu sinni býðst gestum að koma með búningasilfur í greiningu til Dóru Jónsdóttur gullsmiðs og Lilju Árnadóttur fagstjóra munasafns Þjóðminjasafns Íslands og fræðast þannig um gerð gripanna, uppruna þeirra og aldur. 

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður mun opna nýja heimasíðu Þjóðbúningaráðs www.buningurinn.is og munu börn frá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sýna þjóðdansa. Einnig leiðir Magnea Árnadóttir gesti um sýninguna Handaverk frú Magneu Þorkelsdóttur en þar má sjá úrval búninga úr smiðju Magneu Þorkelsdóttur biskupsfrúar. 
Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem eiga búning að nota hann og jafnframt fyrir alla sem eru áhugasamir um íslenska þjóðbúninga að koma og sjá fjölbreytni þeirra. Mögulegt verður að fá aðstoð við uppsetningu höfuðbúnaðar á safninu. Sérstaklega er hvatt til þess að fólk mæti á þjóðbúningi síns heimalands. 

Dagskrá: 
Kl. 14:00: Setning. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður setur hátíðina og kynnir nýja heimasíðu Þjóðbúningaráðs. 
Kl. 14:15: Börn úr Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sýna nokkra dansa. 
Kl. 14:30-16:00: Greining á búningaskarti. 
Kl. 15:00: Magnea Árnadóttir leiðir gesti um sýninguna Handaverk frú Magneu Þorkelsdóttur. 
Að þjóðbúningadeginum standa Þjóðminjasafn Íslands, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, Þjóðbúningaráð og Þjóðdansafélag Reykjavíkur.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands