Vel heppnuðu norrænu þingi kvenfélaga í Reykjavík lokið

Elísabeth Rusdal forseti NKF afhendir Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni ályktun þingsinsNorrænt þing kvenfélaga, í umsjón Kvenfélagasambands Íslands fór fram á Icelandair Hótel Reykjavík Natura 8.-10. júní sl.

Merja Siltanen Evrópuforseti ACWW, Alþjóðasambands dreifbýliskvenna heiðraði þingið með nærveru sinni og sagði frá starfi ACWW.

Yfirskrift þingsins var Kraftur kvenna!

Sigurlaug Viborg forseti KÍ setti þingið, sem skipað var 120 konum frá aðildarfélögunum.

Fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar fóru fram á þinginu:

  • Jóhanna Pálmadóttir frá Kvennaskólanum á Blönduósi sagði frá nýju hluverki skólans, sem er dæmi um nýsköpunarfyrirtæki á landsbyggðinni. Þá sagði hún frá því áhugaverða verki að sauma Vatnsdælu á refil.
  • María Sólbergsdóttir frá Auði Capital sagði frá fjárfestingum í höndum kvenna og nýrri sýn og áherslum vaxandi fyrirtækis í höndum kvenna.
  • Sóley Stefánsdóttir grafískur hönnuður sagði frá hönnun í þágu jafnréttis og sýndi að hönnun margskonar hluta hefur oft verið til hagsbóta fyrir karla en síður konur.
  • Árni Einarsson hjá FRÆ fjallaði um samstarfsverkefni KÍ og fleiri um verkefnið Bara gras, sem er veigamikið forvarnarverkefni gegn neyslu kannabisefna. Verkefnið er einnig dæmi um það hvernig samvinna frjálsra félagasamtaka getur stóraukið slagkraft þeirra í þágu góðra málefna.
  • Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum fjallaði um frelsi kvenna til athafna og til að fylgja draumum sínum til að breyta og bæta samfélagið.
  • Una María Óskarsdóttir varaforseti KÍ fjallaði um félagsauð, kvenfélagsstarf og heilsu.

NKF-Iceland-2012-060Kvenfélagskonur á höfuðborgarsvæðinu buðu konum heim til kvöldverðar og forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Mussaieff tóku á móti hópnum á Bessastöðum.

Elísabeth Rusdal, er nýr forseti NKF (Nordisk kvinneforbund) 2012 - 2016, hún tók á þinginu við forsetakeðju NKF úr hendi Siw Warholm fráfarandi forseta NKF sl. fjögur ár.

Mikil ánægja var meðal þinggesta með þingið og aðbúnað þess. Kann Kvenfélagasamband Íslands fyrirlesurum, kvenfélagskonum og öðrum er veittu aðstoð sína vegna þingsins bestu þakkir fyrir þeirra þátt.

Nordens kvinneförbund, NKF, sem stofnað var árið 1920 hefur í dag um 70.000 félaga innan sinna raða á Norðurlöndum, þar af um 5000 á Íslandi.

Stjórn NKF samanstendur af formönnum landssambanda aðildarfélaganna.

Norræn þing kvenfélaga eru haldin á hverju sumri, til skiptis á Norðurlöndunum. Markmiðið með þingunum er að efla kynni og miðla reynslu meðal kvenfélgskvenna á norðurlöndunum sem sinna mikilvægum félagslegum þáttum, hvert í sínu landi. En einnig eru á þingunum teknar ákvarðanir fyrir félagsheildina.

Allar kvenfélagskonur eru velkomnar að sækja þingin og skipuleggur Kvenfélagasamband Íslands ferðir á þingin þegar þau eru haldin á hinum norðurlöndunum.

Næsta NKF þing verður í Bodö í Noregi dagana 14. - 16. júní 2013. Samhliða þingum eru haldnir stjórnarfundi NKF.

Sjá ályktanir þingsins:

Norræna Kvenfélagasambandið, Nordens kvinnoforbund, vekur athygli á hinum mikla krafti kvenna til sjávar og sveita:

Nýsköpun á sviði hönnunar, nýsköpun í þágu jafnréttis og fjárfestingar í höndum kvenna! Kvenfélagskonur! Vekjum allar athygli á krafti kvenna, eflum félagsauð okkar og samfélagsins, eflum heilsu okkar og styrkjum kvenfélagsstarfið.

Hvernig væri samfélagið án kvenfélaga?

Til Norrænu ráðherranefndarinnar frá stjórn NKF

Norræna kvenfélagasambandið, NKF, fer fram á það við Norrænu ráðherranefndina, NMR, að hún í auknum mæli styðja og styrki störf kvenfélaganna sem unnin eru þvert á landamæri Norðurlandanna. NKF óskar eftir því að NMR skapi góða ramma og vinnuskilyrði fyrir savinnu kvenfélaganna á Norðurlöndum.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands