36. Landsþing KÍ fór fram nú um helgina

36. landsþing Kvenfélagasambands Íslands fór fram í Keflavík  nú um nýliðna helgi.

Yfirskrift þingsins var „Félagsauður og heilsa hönd í hönd“  sem er tílvísun í hve heilsusamlegt það er að taka þátt í félagsstarfi.
 
Á þinginu var Una María Óskarsdóttir, fráfarandi varaforseti KÍ til 6 ára kosin nýr forseti Kvenfélagasambandsins,  
Guðrún Þórðardóttir var kosin nýr varaforseti, Margrét Baldursdóttir gjaldkeri var endurkjörin, 
Bryndís Birgisdóttir var kosin meðstjórnandi og Katrín Haraldsdóttir er ný varastjórnarkona. 
Aðrar í stjórn eru Dóra Ruf ritari og Rosemarie Brynhildur Þorleifsdóttir í varastjórn.
 
Skoðunarmenn reikninga voru kjörnar Birna Hauksdóttir og Hallfríður Bjarnadóttir. 
Til vara, Magdalena Jónsdóttir og  Margrét Samsonardóttir.
 
Ný nálgun var á hópastarfi þingsins, sk. Hugmyndarými  eða Open Space sem Kári Gunnarsson ráðgjafi stjórnaði 
 
Þingið sóttu um 150 konur af landinu öllu auk þeirra félagskvenna sinntu gestgjafavinnu á þinginu en Kvenfélagasamband Gullbringu og Kjósarsýslu var gestgjafi þingsins.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á þinginu:

36. landsþing Kvenfélagasambands Íslands haldið í Reykjanesbæ 28.-30. september 2012 skorar á Alþingi og ríkisstjórn að endurskoða fjárveitingu til Kvenfélagasambands Íslands og Leiðbeiningarstöðvar heimilanna.

 
Greinargerð: 
Kvenfélagasamband Íslands var stofnað 1930 og hlutverk þess er að vera málsvari kvenfélaganna í landinu. Kvenfélögin starfa um land allt og gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki. 

Kvenfélagasamband Íslands rekur Leiðbeiningarstöð heimilinna sem allir geta leitað til sér að kostnaðarlausu og hefur hún starfað í 50 ár. Leiðbeiningarstöðin rekur símaþjónustu, heldur úti heimasíðu og gefur út fræðsluefni. Starfsmaður í 50% starfi sinnir þessu verkefni.

Frá upphafi hefur ríkisvaldið stutt myndarlega við þessa starfsemi með fjárframlögum og þannig gert það kleift að halda úti þessari þjónustu.  Á síðustu misserum hefur í auknum mæli verið leitað eftir ráðleggingum hjá  Leiðbeiningastöðinni, innhringingum hefur fjölgað um 43,7% og samskipti gegnum heimasíðu aukast jafnt og þétt. Aðkallandi er að endurnýja tölvubúnað Leiðbeiningastöðvarinnar.

Kvenfélagasamband Íslands fékk á fjárlögum árið 2011 kr. 6.000.000,-  en árið 2012 er sá styrkur kominn niður í 1.500.000,-

Enginn styrkur fékkst í ár til að reka Leiðbeiningarstöð heimilanna og er því áframhaldandi rekstur hennar í miklu uppnámi. 

Því skorum við á Alþingi og ríkisstjórn að hækka fjárframlag til Kvenfélagasambands Íslands og styrkja á ný Leiðbeiningarstöð heimilanna.

 
36. landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið að Kirkjulundi, safnaðarheimili Keflavíkurkirkju  28. - 30. sept 2012, hvetur allar konur að fara reglulega í krabbameinsskoðun.
Greinargerð: 
Mikilvægt er að allar konur verði boðaðar til krabbameinsskoðunar á tveggja ára fresti Það er staðreynd að konur fara í minna mæli nú en áður. 
Konur greinast nú með lengra genginn sjúkdóm og því erfðara um vik að meðhöndla þær. Kvensjúkdómalæknar hafa áhyggjur af þessari öfugþróun og kalla eftir vitundarvakningu.
 
36. landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið að Kirkjulundi, safnaðarheimili Keflavíkurkirkju 28.-30. september 2012, fagnar góðum árangri af forvarnarstarfi gegn vímuefnum hér á landi meðal ungmenna.
Meðal forvarnarverkefna var landsverkefnið „BARA GRAS” sem fjöldi félagasamtaka og einstaklinga tóku þátt í og fólst í því að virkja, hvetja og styrkja foreldra í forvörnum. Kvenfélagasamband Íslands tók virkan þátt í verkefninu. Þingið hvetur til að öflugu forvarnarstarfi fyrir ungt fólk verði haldið áfram.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands