Kvenfélagasamband Íslands hlýtur bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins 2015

Kvenfélagasamband Íslands hlaut Bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins 2015 

Varaformaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, afhennti forseta Kvenfélagasambandsins, Unu Maríu Óskarsdóttur, verðlaunin á flokksþingi Framsóknaflokksins sem fram fór í Reykjavík 9. - 11. apríl sl. 

Við það tækifæri fór Sigurður yfir störf sambandsins og kvenfélaganna og sagði m.a:

"Kvenfélagasamband Íslands var stofnað árið 1930 og er fjölmennasta kvennahreyfing landsins með yfir 5000 félagskonur sem starfa í 170 kvenfélögum um allt land. Fyrsta kvenfélagið, Kvenfélag Rípurhrepps í Skagafirði er enn starfandi 146 ára gamalt og elsta kvenfélag landsins, - en sambandið sjálft varð 85 ára hinn 1. febrúar sl. Allt frá upphafi hafa kvenfélögin með bjartsýni og þor staðið vörð um hag íslenskra heimila, gengt mikilvægu samfélagslegu hlutverki og eflt félagsauð þjóðarinnar. Þau hafa í krafti dugnaðar og fjölda sinnt líknar- og mannúðarstarfi, safnað fé til tækjakaupa á sjúkrahús, efnt til fræðslu- og námskeiðahalds, staðið fyrir menningarsamkomum og tekið að sér erfidrykkjur og aðrar samkomur - oft án endurgjalds. Sambandið rekur Leiðbeiningastöð heimilanna, endurgjaldslaust fyrir alla landsmenn og gefur út tímaritið Húsfreyjuna. Í ár halda kvenfélögin um allt land upp á baráttu íslenskra kvenna fyrir sjálfsögðum réttindum, en fyrir 100 árum fengu konur takmarkaðan rétt til kjörgengis og kosninga til Alþingis. Kvenfélagasamband Íslands hefur frá öndverðu unnið gegn hverskonar sóun á matvörum og óþarfa innkaupum. Sambandið hvatti nýlega framleiðendur, birgja, verslanir og Samkeppniseftirlitið til að bregðast við þeirri miklu matarsóun sem á sér stað þegar vörum sem komar eru á síðasta söludag er fargað, í stað þess að þær séu seldar á niðursettu verði. Sambandið hefur einnig sett sig upp á móti afnámi orlofs húsmæðra, m.a. á grundvelli þess að konur hafa enn þann dag í dag lægri laun en karlar og hafa ekki notið þeirra réttinda sem karlar njóta."

Kvenfélagasambandið er afar þakklátt fyrir viðurkenninguna sem það deilir m.a. með Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Kvenfélaginu Hringnum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Latabæ ehf, Félagi íslenskra fíkniefnalögreglumanna og Samtökunum 78 sem fengið hafa verðlaunin undanfarin ár. 

Bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins voru fyrst veitt 1996 en að baki lá samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins 1994 þar sem samþykkt var í flokksmálaályktun " að koma á fót verðlaunum sem veitt verði aðilum utan flokksins sem hafa lagt eitthvað jákvætt að mörkum til íslensks samfélags".
Verðlaunin eru veitt á flokksþingum sem haldin eru annað hvert ár. Framkvæmdastjórn flokksins ákveður hver fær þau og fær verðlaunahafi verðlaunagripinn til eignar.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands