Húsfreyjan, 4. tbl. 2007 er komið út.

Jóla-, og aðventublað Húsfreyjunnar, tímarits Kvenfélagsambands Ísland er komið út. Meðal efnis í blaðinu er athyglisvert viðtal við Guðnýju Guðmundsdóttur, Konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Tvær kjarnakonur sem aðstoða íslensku jólasveinanna í Dimmuborgum í Mývatnssveit eru sóttar heim og litið er við hjá þeim bræðrum. Í tímaritinu er viðtal við Helgu Skúladóttur kennara og kvenfélagskonu í Kópavogi. Jóla-, og aðventuhugvekja er frá Séra Solveigu Láru sóknarpresti á Möðruvöllum í Hörgárdal. Sigurlaug Margrét Jónasdóttir sér að vanda um fjölbreyttan sælkeraþátt og matreiðir m.a. önd, gæs og hreindýrakjöt og býður einnig upp á ítalskan ís og sobet í eftirrétt. Helga Jóna Þórunnardóttir og Ásdís Birgisdóttir sjá um glæsilega handavinnuþætti með sérhönnuðum verkefnum. Þar eru m.a. uppskriftir af prjónuðum ermum og handstúkum, hekluðu sjali og útsaumaðri svuntu. Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti býður upp á sykurlausar en sætar uppskriftir og góð ráð í vali á veislukosti á aðventu og jólum og krossgátan kemur frá Dollý í Kópavoginum eins og venja er. Húsfreyjan fæst í bókaverslunum um land allt og í áskrift hjá K.Í. á Hallveigarstöðum sími: 551 7044 netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Íslenskar konur hafa gefið Húsfreyjuna út samfellt í 58 ár, ritstjóri er Kristín Linda Jónsdóttir í Miðhvammi í Þingeyjarsýslu. Húsfreyjan óskar lesendum sínum, fyrr og nú, gleðistunda á aðventu og jólum.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands