Ályktanir frá sumarþingi Norrænna kvenfélaga (NKF)

Ályktanir frá sumarþingi Norrænna kvenfélaga (NKF) sem haldið var í Sandefjord, Noregi, dagana 16.-18. júní 2017 þar sem þemað var „Matarlyst“

 Meðvitaðir neytendur geta dregið úr matarsóun

Sumarþing Norrænna kvenfélaga (NKF) haldið í Sandefjord, Noregi, dagana 16.-18.6.2017 krefst þess að yfirvöld í norrænu löndunum sjái til þess að máltíðir sem framreiddar eru af opinberum aðilum séu öruggar til neyslu og uppfylli siðferðilegar og vistfræðilegar kröfur. Neytendur eiga að hafa aðgang að hreinu hráefni, maturinn á að vera öruggur til neyslu og án aukaefna. Umbúðir matvæla eiga að hafa læsilegar upplýsingar um innihaldsefni matarins og það á að vera auðvelt að skipuleggja matseðil sem er góður fyrir bæði umhverfi og heilsu fólks.

Á heimsvísu séð er framleiddur nægilegur matur fyrir alla, yfir 5000 kkal á mann á dag. Sú framleiðsla hefur áhrif bæði á umhverfi og efnahagslíf heimsins. Dreifing matarins er hins vegar vandamál. Vegna sóunar í framleiðslu og dreifingu fer helmingur framleiðslunnar til spillis á leið til neytenda. 

 

Ábyrgðin á minni matarsóun liggur hjá okkur öllum. Neytendur standa fyrir 35% af heildar- sóun matar og geta því daglega haft áhrif á matarsóun á jákvæðan hátt. Við innkaup opinberra aðila er mikilvægt að stuðla að sjálfbærni og nota í sem mestum mæli mat sem framleiddur er í héraði. Í heild þarf að sjá til þess að matargerðin sé á þann hátt að hægt sé að nýta síðar það sem eftir verður eða með því að selja það eða gefa á svæðinu.

Matvælapakkningar eru oft mjög stórar og hafa þar af leiðandi einnig áhrif á umhverfið. Með því að gefa neytendum möguleika á að kaupa hráefni í lausu gerir það þeim kleift að hafa betri stjórn á magni innkaupa. Þar að auki er mikilvægt að almenningur hafi næga þekkingu á matvörunum og kunnáttu til að vera skapandi í eldhúsinu. Þá þarf að upplýsa fólk betur um mismuninn á „best fyrir“ og „síðasta notkunardegi“ matvara.

Með því að vera meðvitaðir neytendur geta allir lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að draga úr matarsóun, á heimilunum, í sveitarfélögunum og í samfélaginu öllu.

Forgangsröðum sameiginlegum máltíðum

Sumarþingi Norrænna kvenfélaga (NKF) sem haldið í Sandefjord, Noregi, dagana 16.-18.6.2017 er umhugað um þá staðreynd sem niðurstöður rannsóknanna (Greco, OECD) sýna, að fjölskyldur á Norðurlöndum borða æ sjaldnar saman. Þrátt fyrir að sannað sé að sameiginlegar máltíðir laði fram jákvæð áhrif á heilsu hvers og eins og stuðli að betri andlegri og líkamlegri heilsu barna og unglinga þá borðar aðeins helmingur fjölskyldna reglulega saman. Tíminn sem fjölskyldurnar eyða saman í sameiginlega máltíð hefur einnig styst um helming frá árinu 2000.

Að borða er ekki bara að fullnægja þörf fyrir næringu heldur einnig stund sem býður upp á fjölbreytta skynjun, matarminningar, lærdóm og tækifæri til samtals og íhugunar. Að njóta sameiginlegra máltíða er upplifun sem á sér djúpar rætur í menningu þjóða.

Í hraða nútímans velja margir að sleppa sameiginlegum máltíðum, bæði heima, í skólunum, á vinnustöðum og á hjúkrunarheimilum. Það er tímabært að breyta þessu. Sameiginleg máltíð ætti alls staðar að vera forgangsatriði. Við hvetjum alla til að setja sameiginlegar máltíðir í forgang og auka þannig lífsgæði sín og annarra. Tökum höndum saman og komum málinu á dagskrá í nærumhverfi okkar og sýnum gott fordæmi með því að bjóða upp á sameiginlegar máltíðir.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2019 Kvenfélagasamband Íslands