Haustblað Húsfreyjunnar er komið út

HúsfreyjanÍ tímaritinu er kynnt Ljóðasamkeppni sem Húsfreyjan efnir til í vetur. Nú er um að gera að taka þátt, yrkja ljóð og senda inn eða taka áður óbirt ljóð upp úr skúffunni, dusta af þeim rykið og senda í keppnina. Í blaðinu er áhugavert og hrífandi viðtal við Katrínu Halldóru leikkonu sem leikur Elly í sýningu Borgaleikhússins sem hlotið hefur einróma lof.  Kristín Linda ritstjóri fjallar um danska lífsstílinn að hygge, hafa það huggulegt, sem verkur nú heimsathygli og dregur fram níu hygge ráð til að njóta í vetur. Jenný hjá Leiðbeiningastöð heimilanna fjallar um súrdeigsbakstur sem er nú ævinsælli og Kristín Aðalsteinsdóttir um grænmeti og fæðu.  Matarþátturinn er að þessu sinni með ýmiskonar forvitnilegum uppskriftum úr sauðfjárafurðum, þar á meðal spennandi sviðasúpu. Í handavinnuþættinum fær huggulegt prjón gott vægi með prjónuðu teppi, púða, peysu og sokkum en þar er líka útsaumur.  Rætt er við Gunnhildi sem stýrt hefur, Göngum saman, verkefninu í tíu ár og fjallað um afmæli Kvennaheimilisins Hallveigarstaða sem eru 50 ára í ár. Sagt er frá starfi Kvenfélagasambands Íslands meðal annar þáttöku í norrænu samstarfi og fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Húsfreyjan er gefin út af Kvenfélagasambandi Íslands og kemur út fjórum sinnum á ári. Ritstjóri er Kristín Linda Jónsdóttir. Hægt er að gerast áskrifandi hjá Kvenfélagasambandinu til dæmis í gegnum heimasíðuna kvenfelag.is.

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2019 Kvenfélagasamband Íslands