Styrkveitingar úr Minningarsjóði Helgu M. Pálsdóttur

Á hátíðlegum jólafundi Kvenfélagasambands Íslands sem fram fór í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum 24. nóvember sl. voru auk hefðbundinnar jóladagskrár veittir námsstyrkir úr Minningasjóði Helgu M. Pálsdóttur. Sjóðurinn var stofnaður 25. ágúst 1987 samkvæmt ákvæði í erfðaskrá Helgu.

Veittir voru styrkir til fimm kvenna, hver að upphæð 250.000 kr.  Styrkþegar 2017 eru: 

Guðrún Valdís Jónsdóttir, stundar nám til BA gráðu í tölvunarfræði við Princeton háskóla í Bandaríkjunum.

Þuríður Hermannsdóttir, nemi í dýralækningum við dýralæknaháskólann í Kosice í Slóvakíu.

Hulda steinunn Steinsdóttir, nemi í innanhúsarkitektúr í Róm á Ítalíu.

Kristín Anna Guðmundsdóttir,  er í söngnámi við tónlistaháskólann Hann Eisler í Berlín.

Arnrún Halla Arnórsdóttir, er í Doktorsnámi i hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands.

Sjóðurinn hefur úthlutað styrkjum til kvenna í ólíkum námsgreinum, s.s. textíl, félagsvísindum, harmonikkuleik, íþróttafræðum, viðskiptafræði, guð- og trúarbragafræði, brúðulist, náms- og kennslufræði, hagnýtri menningarmiðlun, safnafræði, eðlisfræði, þróunarfræði og talmeinafræði. Hlutverk sjóðsins er að styrkja ungar konur til framhaldsnáms. Kvenfélagasamband hefur úthlutað úr sjóðnum annað hvert ár frá 2005 þegar fyrst var úthlutað úr sjóðnum.

Styrkþegar eru allar í námi erlendis og tóku mæður þeirra á móti styrknum fyrir þeirra hönd.

Á myndinni hér að neðan eru talið frá vinstri:  Vilborg Eiríksdóttir formaður sjóðsins og varaforseti KÍ, Sigríður Valdimarsdóttir móðir Guðrúnar Valdísar, Harpa Ingvadóttir móðir Þuríðar, Þórunn Jónsdóttir móðir Huldu Steinunnar, Anna María Ögmundsdóttir móðir Kristínar Önnu, Erna Benediktsdóttir móðir Arnrúnar Höllu og Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ.

 Una María Óskarsdóttir tók myndina. 

Um Minningarsjóð Helgu M. Pálsdóttur.

Í skipulagsskrá fyrir minningarsjóð Helgu M. Pálsdóttur er tilgreint að hlutverk sjóðsins sé að styrkja ungar námskonur til framhaldsnáms. Sjóðurinn var stofnaður 1989 og veittist Kvenfélagasambandi Íslands sá heiður að taka við vörslu hans og rekstri árið 1998. Kvenfélagasambandið úthlutaði í fyrsta sinn úr sjóðnum árið 2005, fimm konur hlutu þá styrki og var það í fyrsta sinn sem styrkir voru veittir úr sjóðnum. 

Helga Málfríður Pálsdóttir var fædd í Vörum í Garði, 13. ágúst 1900 og lést á Elliheimilinu Grund 29. mai 1993, þá 92 ára að aldri. Hún bjó lengst af á Snorrabraut 33 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Magnúsdóttir frá Miðhúsum í Garði og Páll Jónasson úr Borgarfirði. Bjuggu þau að Vörum í Garði þar sem stundaður var búskapur og sjósókn. Helga Málfríður var næstyngst fjögurra systkina en hún átti tvær eldri systur og einn bróður yngri.

Um 1910 var Sigríður móðir Helgu orðin ekkja og fluttist til Reykjavíkur. Helga fór þá í vist eins og títt var um stúlkur á þeim tíma, en árið 1925 fór hún til Kaupmannahafnar og fékk vinnu í hattabúð. Í framhaldi af því lærði hún hattasaum og lauk námi, líklega árið 1936.

Að námi loknu fluttist Helga heim til Íslands og fór að vinna í hattabúð sem þá var í Hafnarstræti 7 í Reykjavík. Þegar búðin í Hafnarstræti 7 brann nokkrum árum síðar, stofnaði hún sína eigin hattabúð í kjallaranum á Laugavegi 18 þar sem nú er verslun Máls og menningar.

Þegar það hús var svo rifið flutti hún búðina sína á Laugaveg 27, en kaffihús Te og Kaffi er nú þar í kjallaranum. Hattabúðina kallaði hún Hattabúð Jonna en bróðir hennar Jónas var alltaf kallaður Jonni og þaðan er nafngiftin komin. Í versluninni hjá Helgu störfuðu ætíð danskar hattagerðardömur og þótti það auka gæði hattanna sem þær bjuggu til.

Helga Málfríður Pálsdóttir var alla tíð einhleyp og barnlaus. Hún var myndarleg kona í sjón, há, grönn, dökkhærð, sjarmerandi, kurteis og góðgjörn. Kona sem stóð sína plikt í lífinu.

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2019 Kvenfélagasamband Íslands