Nýtt ár, nýjar áskoranir. Góð kvenfélagskona gulli betri.

Nú hefur enn eitt árið litið dagsins ljóð með sínum sjarma og áskorunum til okkar allra.

Um áramót líta margir um öxl og minnast þess góða  sem liðið ár hefur fært okkur og einnig til þeirra atburða í lífi okkar sem hefur þroskað okkur og bætt sem manneskjur.

Jú við þroskumst og styrkjum okkur sem persónur  með hverju árinu , með þeim áskorunum sem lífið hefur upp á að bjóða, lærum af samferðafólki okkar og þeim verkefnum sem við tökumst á við.

Stundum eru verkefnin erfið og okkur finnst þau vera okkur ofviða  en það eru oft þau verkefni sem styrkja okkur hvað mest og þroska  sem persónur, þess vegna eru áskoranir lífsins með mismunandi hætti og hverri okkar er falin misstór og erfið verkefni.  Með jákvæðni og opnum hug gengur okkur betur að vinna þau verkefni sem lífið hefur upp á að bjóða. Með stuðningi frá góðum vinum, samferðafólki, og vinnufélögum þá eru hlutirnir oft auðveldari.

Í því starfi sem ég sinni fyrir hönd KÍ eru verkefnin ekki alltaf auðveld og stundum miklar áskoranir, þá er gott að hafa stuðning kvenfélagskvenna í landinu og allra þeirra góðu kvenna sem leggja sambandinu lið.  Því með góðri samvinnu og stuðningi við hvor aðra ganga verkefnin oftast upp. Dagur kvenfélagskonunnar er 1. febrúar, þann dag væri upplagt fyrir okkur kvenfélagskonur að gera okkur dagamun  eða bara að klappa okkur á öxlina og segja við okkur sjálfar hvað við höfum verið frábærar og lagt mörgu lið á liðnu ári. Því ég veit að við höfum allar lagt mikið að mörkum til samfélagsins, og eða verið til staðar fyrir þær konur sem starfa með okkur. Það er stór  partur af félagsheildinni að finna fyrir stuðningi,  vináttu og kærleika. 

Kæru kvenfélagskonur um leið og ég óska ykkur öllum til hamingju með 1. febrúar er  það  ósk mín og von að störfin í kvenfélögunum og héraðssamböndunum  verði farsæl og góð á þessu ári, og ég hvet ykkur allar til að muna eftir að vera  duglegar að gera eitthvað fyrir ykkur sjálfar til að efla ykkur sem persónur og til að auðga félagsandann.  

Því þá erum við betur í stakk búnar til  að geta  sinnt öllu því góða starfi sem við vinnum  samfélagi okkar til heilla.

                                    Gerðu allt með gleði

                                    Þá verður allt að gulli sem þú snertir.

 

                                                           Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2019 Kvenfélagasamband Íslands