38. landsþing á Húsavík

  1. landsþing Kvenfélagasambands Íslands var haldið í Fosshótel Húsavík dagana 12. – 14. október sl. Kvenfélagasamband Suður- Þingeyinga var gestgjafi landsþingsins.

Kvenfélagskonur láta sig margvísleg málefni varða einsog sást á dagskrárliðum þingsins.

Yfirskrift landsþingsins var „fylgdu hjartanu”.  Á þinginu komu kvenfélagskonur saman til skrafs og ráðagerða um störf sín í kvenfélögunum. 

 

Þar sem þingsetning fór fram þann 12. október á bleika daginn ákváðu aðstandendur þingsins; Kvenfélagasamband Íslands og Kvenfélagasamband Suður- Þingeyinga að styrkja sérstaklega við Bleiku slaufuna með kaupum á varningi bleiku slaufunnar fyrir hvern þingfulltrúa, með sölu happdrættismiða og hvöttu þær konur til að mæta í bleiku á þingsetninguna sem fram fór í Húsavíkurkirkju þann 12. október, var einstaklega bleikt yfir kirkjuna að líta. Sr. Hildur Sigurðardóttir flutti bæn og blessun í Kirkjunni. Kvennakór Húsavíkur söng ljóð Huldu og Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir fluttu sönglög lög eftir Maríu Elísabetu Jónsdóttur. Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ flutti ávarp og setti þingið, Mjöll Matthíasdóttir formaður Kvenfélagasambands Suður- Þingeyinga bauð þinggesti velkomna og Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti einkar áhugavert ávarp um Björgu Pétursdóttir, en Framsýn hefur nýverið gefið út bók með ljóðum hennar sem allir þinggestir fengu að gjöf. 

Að lokinni þingsetningu var móttaka í Safnahúsinu þar sem sveitarstjóri Norðurþings Kristján Magnússon flutti ávarp og bauð þinggesti velkomna í Húsavík. Jan Klitgaard Magnússon, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga sagði gestum frá safninu. Að loknum ávörðum var boðið upp á veitingar í boði sveitastjórnar og kvenna í kvenfélögum Suður- Þingeyingja.  Um kvöldið var sérstök opnun á Sjóböðunum á Húsavíkurhöfða og nutu gestir þess að baða sig og eiga góða stund þar.

Laugardaginn 13. október mætti svo  verndari Kvenfélagasambands Íslands, forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sem gestur þingsins og ávarpaði þingið, snæddi með okkur hádegisverð og gaf sér tíma í spjall við þinggesti.  Í ávarpi sínu minnti forseti á mikilvægt framlag kvenfélaga til félagslífs í landinu og þakkaði fyrir það góða starf.

Eftir hádegi á laugardeginum voru framsöguerindi og pallborðsumræður um málefni hjartans og hjartaheilsu kvenna samkvæmt yfirskrift þingsins. Erindin voru einkar fjölbreytt og vöktu þau mikil viðbrögð þingfulltrúa.

Hátíðarkvöldverðurinn var hinn glæsilegasti og mættu konur þar í sínu fínasta pússi og skörtuðu margar konur þjóðbúning. Veislustjóri var Guðný Sverrisdóttir frá Kvenfélaginu Hlín. Boði var upp á fjöldasöng og skemmtiatriði önnuðust konur úr Kvenfélaginu í Mývatnssveit, Kvenfélaginu Hlín á Grenivík og Kvenfélagið Aldan á Tjörnesi var með tískusýningu. 

Una María Óskarsdóttir fyrrum forseti KÍ og félagi í Kvenfélagi Biskupsstungna var svo útnefnd af stjórn KÍ sem Heiðursfélagi Kvenfélagasambandsins fyrir sín góðu störf fyrir sambandið. 

Á sunnudeginum var Jenný Jóakimsdóttir hjá Leiðbeiningastöð heimilanna með fyrirlestur og fræðslu um verkefni Kvenfélagasambandsins „Vitundarvakning um fatasóun“.  Jenný var svo með erindi um eflingu kynningarstarfs kvenfélaganna og leiddi þinggesti í hópastarf með þjóðfundarfyrirkomulagi þar sem meðal annars var hugarflug um gildi kvenfélaganna og verður sú niðurstaða kynnt að loknu þingi. 

Til að efla kvenfélagskonur enn frekar í sínu góðu verkum kom svo Pálmar Ragnarsson og sló í gegn með fyrirlestur sinn „jákvæð samskipti“.

Eftir hádegi á Sunnudag voru kosningar í stjórn og voru kjör staðfest á stjórn en allar stjórnarkonur fyrir utan meðstjórnanda Bergþóra Jóhannsdóttir gáfu kost á sér áfram. Nýr meðstjórnandi var kosin Þuríður Guðmundsdóttir frá Sambandi borgfirskra kvenna og félagi í Kvenfélaginu Hvítársíðu. Bergþóru Jóhannsdóttur voru færðar þakkir fyrir sín góðu störf. Ályktanir þingsins voru staðfestar og má sjá þær hér að neðan. 

195 konur af öllu landinu mættu á þingið. Var ánægjulegt að sjá hvað ungar konur voru duglegar að mæta á þingið, þarna voru sem dæmi um rétt rúmlega tvítugar kvenfélagskonur að mæta á sitt fyrsta landsþing.

Það var samróma álit þeirra sem sóttu þingið að það hefði verið hið glæsilegasta og einkar kærleiksríkt með dagskrá sem efldi kvenfélagskonur enn frekar í sínum góðu störfum. 

Kvenfélagasambandi Suður- Þingeyinga eru færðar einlægar þakkir fyrir gestrisni, glæsilegt þing og gott samstarf við undirbúning þingsins.

Næsta landsing verður svo haldið af Sambandi borgfirskra kvenna að þremur árum liðnum. 

Stjórn Kvenfélagasambandsins þakkar þinggestum öllum og öðrum þeim sem sóttu þingið heim kærlega fyrir kærleiksríka samvera þessa helgi á Húsavík.

Fleiri fréttir frá þinginu munu birtast síðar ásamt því sem góð skil verða gerð á þinginu í jólablaði Húsfreyjunnar. 

 

Ályktanir 38. landsþings Kvenfélagasambands Íslands.

„38. landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið á Húsavík  12. – 14. október 2018, fagnar þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur um umhverfismál. KÍ hvetur almenning sem og stjórnendur verslana til að vinna áfram gegn matar- og fatasóun. Innkaup þurfa að vera ábyrg. Fatnað og annan vefnað má endurnýta á ýmsan hátt og stuðla þannig að minni mengun. Takmarka þarf notkun á plasti og öðrum mengandi efnum eins og kostur er.“

Kvenfélagasamband Íslands hefur undanfarin ár staðið fyrir verkefnum sem miða að því að sporna gegn matar- og fatasóun. Á 37. landsþingi sendum við frá okkur ályktun sem hvatti almenning og verslanir til að nýta matvæli betur og á sú ályktun jafn vel við í dag. Við megum aldrei sofna á verðinum.

---------

„38. landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið á Húsavík 12. – 14. október 2018, hvetur konur á Íslandi til að hugsa vel um hjarta sitt og hlusta á það á tímum aukinnar streitu. Við hvetjum einnig stjórnvöld að tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu og styðja og styrkja heilsugæslustöðvar út um allt land. Þannig getum við stuðlað að betri heilsu almennings.“

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annars staðar í heiminum.

------

„38. landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið á Húsavík 12. – 14. október 2018,  hvetur stjórnvöld á Íslandi til að styðja betur við Kvenfélagsamband Íslands. KÍ eru regnhlífarsamtök og stærsta tengslanet kvennasamtaka á Íslandi sem leggja mikla sjálfboðavinnu á sig til að styðja og styrkja samfélögin hvert í sinni heimabyggð.

Kvenfélagasamband Íslands fékk til margra ára fjárveitingar frá stjórnvöldum. Félög innan vébanda KÍ hafa í gegnum tíðina stutt við margvísleg verkefni, safnað fé til kaupa á tækjum, átt þátt í að reisa byggingar og aðstoðað á margvíslegan hátt einstaklinga og fjölskyldur.  Á árunum 2006 – 2016 veittu félögin styrki til samfélagsverkefna fyrir um 1 milljarð króna skv. niðurstöðum rannsóknar Rebekku Helgu Pálsdóttur 2017. Því má með sanni segja að stjórnvöld hafi fengið margfalda ávöxtun á því fjármagni sem þau hafa veitt til KÍ.  Til að svo megi áfram verða þarf Kvenfélagasamband Íslands stuðning stjórnvalda.“

 

 hekluð hjörtupokarnirbleikar konur í kirkju

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2019 Kvenfélagasamband Íslands