Norræna bréfið- Sjálfbær fæða og umhverfisvænn hversdagur

NORRÆNA BRÉFIÐ: Frá Finnlandi

Sjálfbær fæða og umhverfisvænn hversdagur
Sirpa Pietikäinen

14 01 16 Pietikainen portrait STR 66 small

Loftslagsbreytingar og ágengni gagnvart náttúruauðlindum eykst með ógnarhraða. Það er erfitt fyrir okkur að skilja þegar eitthvað eykst með veldishraða. Tveir verða tíu, tíu verða eitt hundrað, eitt hundrað verður tíu þúsund ... Margfeldisáhrifin leiða til þess að loftslagsbreytingar gerast mun hraðar en ella. Til að stöðva þessa þróun þarf að tvöfalda það sem gert er í dag. Viðfangsefnin verða að vera mörg og stór. Það er nauðsynlegt að koma á umsnúningi (backcasting-method). Mikilvægt er að byrja á að setja markmið um það sem við viljum ná fram og finna svo leiðirnar.

Löggjöf í ESB-ríkjum er nauðsyn til að draga úr loftslagsbreytingum í Evrópu. En það er einnig mikilvægt að einstaklingar og heimili taki málefnið föstum tökum. Við getum annaðhvort flýtt eða hægt á þróuninni með vali okkar í daglegu lífi. Margir einstaklingar eru nú þegar virkir þátttakendur í að bjarga jörðinni en það verður að fá alla hina með, einnig þá sem efast. Stofnanir og félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki við að virkja sitt fólk, einfaldlega vegna þess að stór hluti þjóða tilheyrir stofnunum eða samtökum. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að finna hagnýtar lausnir og skipuleggja starfsemina í þágu jarðarinnar. Fyrr á tímum varð til hreyfing fólks sem vildi stuðla að almennri þekkingu meðal þjóða með hjálp ýmissa samtaka. Nú þarf svipaða hreyfingu meðal almennings til að bjarga jörðinni og sporna við loftslagsbreytingum.


Varast ber að líta á loftslagsbreytingar sem einangrað þema. Fólk þarf að átta sig á að allar ákvarðanir okkar, stórar sem smáar, hafa áhrif. Hvort sem um er að ræða samgöngur, ferðalög, húsnæðismál, fatnað, innkaup, mat eða matvælaframleiðslu.
Hins vegar er engan veginn nóg að ég og þú séum meðvituð. Það þarf pólitísk áhrif og þrýsting til að breytingar verði. Fólk þarf að kjósa þá flokka sem vilja sporna við loftslagsbreytingum. Stofnanir og samtök ættu að hvetja fólk til að kjósa þá sem vilja breytingar og setja fram skilvirkar tillögur um umhverfismál. Húsnæði og orkunýting hefur mikil áhrif á loftslag. Um 40% losunar koltvísýrings í Evrópu kemur frá byggingum. Ljóst er að það verða að koma til breytingar á byggingariðnaði til að ESB geti náð loftslagsmarkmiðum sínum.
Þá skiptir miklu hvernig við veljum að komast á milli staða. Að fara fótgangandi eða hjólandi er alltaf betra val en að nota vélknúið tæki. Þá kröfu verður að gera til stjórnmálamanna að almenningssamgöngur verði skilvirkar og aðgengilegar. Það ætti að leitast við að líta á samgöngur sem þjónustu sem er auðveld í notkun. Opinber innkaup verða að vera sjálfbær. Það ætti til dæmis ekki að bjóða upp á brasilískan erfðabreyttan kjúkling í mötuneytum vinnustaða eða stofnana.
Matur er sérgrein Martanna, finnsku kvenfélaganna. Matur er hluti af daglegu lífi. Hver og einn getur passað upp á umhverfisáhrif með því að forðast matarsóun og hugsanlega hugleiða að velja oftar grænan/vegan mat. Um 20% af umhverfisáhrifum kemur frá matvælaframleiðslu sem hefur áhrif á gróðurhúsalofttegundir.
Góður matur er hollur, lífrænn, öruggur að gæðum og framleiddur í nærumhverfi.
Sjálfbær neysla felur í sér staðbundin hráefni, árstíðabundið grænmeti og ávexti, innlent sjávarfang og einstaka sinnum kjöt sem við vitum hvaðan kemur og er framleitt á ábyrgan hátt. Því styttra sem ferðalag hráefnisins er, frá akri og sjó yfir á diskinn, því betra, öruggara og hollara. Að auki dregur það úr umbúðum, sérstaklega plasti og vinnur gegn matarsóun.
Sameinumst um að mynda hreyfingu fólks um sjálfbæra fæðu og umhverfisvænan hversdag. Þegar allir leggja hönd á plóg getum við gert kraftaverk. Tökum til varna og látum umhverfis- og loftslagsmál til okkar taka! Það er hægt að snúa þessari óheillaþróun við.

Þýðandi úr sænsku yfir á íslensku: Vilborg Eiríksdóttir
---------------------

Höfundur Norræna bréfsins 2019 er Sirpa Pietikäinen. Hún hefur verið finnskur fulltrúi Evrópuþingsins frá árinu 2008. Sirpa var umhverfisráðherra Finnlands 1991-1995 og hefur setið á finnska þinginu frá 1983 til 2003.
Á Evrópuþinginu er Sirpa í nefnd um efnahags- og peningamálaráðuneytið (ECON) og rannsóknarnefnd til að rannsaka meint brot og vanrækslu við beitingu laga Evrópusambandsins varðandi peningaþvætti og skattsvik (PANA). Sirpa er auk þess staðgengill í umhverfis- og almannaheillanefndinni (ENVI) og í kvenréttinda- og jafnréttismálanefnd (FEMM).
Sirpa er skuldbundin hugmyndinni um Evrópu með mannlega ásýnd. Evrópu sem tryggir virðingu fyrir mannréttindum, jafnrétti, félagslegri aðlögun og aðgengi að hágæðaþjónustu. Til að ná þessu þarf efnahagslegan stöðugleika og vöxt.
Sirpa telur að fjárfestingar í menntun og rannsóknum séu nauðsynlegar til að stuðla að nýjungum sem gera íbúum Evrópu kleift að njóta góðs af stafrænni hagræðingu og færast í átt að hringlaga hagkerfi.

UM Norræna bréfið og NKF
Norræna bréfið er birt af Norrænu kvennasamtökunum (NKF – Nordens Kvinneforbund) ár hvert á degi Norðurlandanna. Kvenfélagasambönd innan NKF skipta með sér að fá aðila til að skrifa bréfin, þau eru síðan birt í tímaritum samtakanna í hverju landi og í fjölmiðlum hvers lands á degi Norðurlandanna.
Nordens Kvinneforbund - NKF (hét áður Nordens husmoderforbund) Norrænu kvennasamtökin voru stofnuð árið 1919 og gekk Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) til liðs við þau árið 1949. Norðurlöndin skiptast þar á formennsku, sökum fjárskorts tók Ísland þó ekki við formennsku fyrr en árið 1976 er Sigríður Thorlacius, þáverandi forseti KÍ, varð formaður samtakanna. Á árunum 1996-2000 var Drífa Hjartardóttir þáverandi forseti KÍ formaður þeirra. Árið 2016 tók Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ við formennsku samtakanna til þriggja ára.
Árlega er haldið sumarþing NKF, þar er tekið á þeim málefnum sem NKF og aðildarsamtök þeirra láta sig varða. Í sumar verður þingið haldið í Varberg í Svíþjóð og þar verður 100 ára afmæli samtakanna minnst. Næsta ár 2020 verður sumarþing NKF haldið í Reykjanesbæ og þar verða m.a. umhverfismál á dagskrá.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2021 Kvenfélagasamband Íslands