Formannaráð fundaði i Kríunesi á 60. formannaráðsfundi KÍ

Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands kom saman á 60. fundi formannaráðs í Hótel Kríunesi helgina 28. - 29. febrúar 2020.

Góð mæting var á fundinn og voru fulltrúar frá flestum héraðssamböndum sem tilheyra KÍ. Fundurinn hófst á gefandi erindi frá Séra Jónu Hrönn Bolladóttur sóknarpresti í Garðasókn. Ræddi hún um gildin Kærleikur- samvinna - virðing og mikilvægt framlag kvenfélaganna með sínu starfi og söfnun KÍ sem nú stendur yfir. Þar sem þetta var aðalfundur voru lagðar fram skýrslur og reikningar og fjárhagsáætlun KÍ fyrir árið 2020 lögð fram.

Bryndís Steina Friðgeirsdóttir formaður Félags kvenna í Kópavogi (FKK) sagði frá fyrsta starfsári félagsins og Harpa Hjálmtýsdóttir stjórnarkona í FKK var með skemmtilegt happadrætti yfir kvöldverðinum þar sem flestar fundarkonur fengu vinning. Samverunni var svo fram haldið eftir kvöldmat og áttu konur þar góðar stundir og efldu þannig tengslin og kynntust hvor annarri betur.

Á Laugardeginum var svo fundi haldið áfram og voru þau verkefni sem KÍ stendur fyrir á árinu gerð skil. Sagt meðal annars frá þeim verkefnum sem fengust styrkir fyrir á þessu ári. Þar má nefna Vitundarvakning um fatasóun, menning og saga KÍ í 90 ár og samstarfsverkefnið Loftslagsvernd í verki með Landvernd. 

Samstarfið innan NKF var krufið í hópavinnu og gaf þannig stjórn gott veganesti á næsta stjórnarfund NKF. En sumarþing NKF verður að þessu sinni haldið á Íslandi í Reykjanesbæ og eru skráningar á það hafnar sjá : https://www.kvenfelag.is/norraent-sumarthing-2020-skraning Þema þingsins er "Konur, loftslag og kraftur jarðar".  Allar kvenfélagskonur eru velkomnar á þingið.

Evrópuþing ACWW var einnig kynnt en það fer fram í Glasgow í Skotlandi í október. Sjá nánar hér.

Stjórnarkjör fór fram og er stjórn óbreytt þar sem Sólrún Guðjónsdóttir ritari og Björg Baldursdóttir varastjórnarkona gáfu kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Hér hefur aðeins verið farið yfir hluta þess sem fram fór og var rætt á fundinum. Það var samhljóma álit þeirra sem mættu á fundinn að fundarstaðurinn hefði verið framar vonum góður og andinn góður á fundinum. Stjórn KÍ þakkar öllum þeim sem mættu á fundinn kærlega fyrir góða helgi og hlakkar til góðs samstarfs á árinu. 

Fundurinn samþykkti og sendir frá sér eftirfarandi ályktanir:

60. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn í Kópavogi 28. -29. febrúar 2020, skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja að greining og meðferð krabbameinssjúkra verði snögg, skilvirk og flæði þjónustu gott. Nauðsynlegt er að stytta biðtíma og tryggja að þjónustan verði samfelld frá greiningu til loka meðferðar. Eins er gríðarlega mikilvægt að allir hafi greiðan aðgang að þjónustunni.

---

60. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands, haldinn í Kópavogi 28.- 29. febrúar 2020, skorar á heilbrigðisráðherra að koma sem fyrst af stað reglubundinni skimun fyrir ristilkrabbameini. Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbameinið og oft einkennalaust. Því er mikilvægt að hefja skimun sem fyrst til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll, óþarfa álag og kostnað.

---

60. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands, haldinn í Kópavogi 28. og 29. febrúar 2020 skorar á Ríkisstjórn Íslands að standa vörð um mannréttindi sem eru eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ekki má gleyma því að réttindi kvenna eru mannréttindi. Þau réttindi sem þegar hafa áunnist má ekki taka til baka. Fundurinn vísar í áskorun Alheimssamtaka dreifbýliskvenna, Associated Country Women of the world (ACWW) þess efnis. https://www.acww.org.uk/cswletter.html

---

 

 

 

 

 

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands