Formannaráð fundaði í fjarfundi í fyrsta sinn

corona 5124524 640Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands fundaði á Teams sl. laugardag 21. nóvember á 61. formannaráðsfundi.   Mjög góð mæting var á fundinn og voru umræður góðar. Ásamt venjubundnum dagskrárliðum voru kynnt verkefni ársins og þau verkefni sem eru framundan. Eva Michelsen sagði frá verkefnum afmælisnefndar og stöðu söfnuninarinnar Gjöf til allra kvenna á Íslandi. Þá fór fram undirbúningur og umræður vegna landsþings sem haldið verður  í Borgarnesi  í október 2021.  Fundarhald hefur að mestu legið niðri hjá samböndunum en kvenfélögin hafa sýnt mikla hugmyndaauðgi í verkefnum sínum og fjáröflun á þessu skrýtna ári. Vonast er til að formannaráð geti fundað í febrúar á næsta ári með venjubundnum hætti. 

Stjórn KÍ þakkar fulltrúum á fundinum kærlega fyrir góða mætingu á fundinn. 

 

Fundurinn sendir frá sér eftirfarandi ályktanir. 

Ályktun um sérfræðiþjónustu lækna

61. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn í fjarfundi laugardaginn 21. nóvember 2020 beinir því til stjórnvalda að tryggja jafnt aðgengi allra landsmanna að sérfræðilæknum. Í dag þurfa margir að ferðast um langan veg til að fá þjónustu þeirra.  Því fylgir ferðakostnaður og vinnutap fyrir þann sem sækir þjónustu og jafnvel fyrir fylgdarmann. Mun hagkvæmara væri að fá þessa þjónustu í meiri mæli í heimabyggð, ýmist með fjarheilbrigðislausnum eða reglulegum heimsóknum sérfræðinga.

 

 

Ályktun um heilsu og hreyfingu félagskvenna

61. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn í fjarfundi laugardaginn 21. nóvember 2020 hvetur kvenfélög til að huga vel að félagskonum sínum á tímum samkomutakmarkana í heimsfaraldri. Á meðan félagsstarf er takmarkað þarf að leita leiða til að rjúfa einangrun og hvetja félagskonur til að huga að heilsu og hreyfingu.

 

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands