Nýr forseti KÍ - Dagmar Elín Sigurðardóttir

Dagmar mynd vef

Dagmar Elín Sigurðardóttir var kjörin forseti Kvenfélagasambands Íslands til næstu þriggja ára á 39. landsþingi sem haldið var í Borgarnesi helgina 15. – 17. október 2021.

Dagmar er fædd árið 1958 og uppalin í Reykjavík en fluttist seinna í Garðabæinn með manni sínum. Undanfarin ár hefur hún starfað sem aðalbókari, gjaldkeri, séð um innheimtu og útreikning félagsgjalda, starfsmannamál, launaútreikning ofl. Dagmar vann í mörg ár hjá Samtökum iðnaðarins en síðustu ár sem aðalbókari hjá Fastus ehf. Hún er stúdent frá Hagfræðideild Verslunarskóla Íslands og Viðurkenndur bókari frá Háskólanum í Reykjavík.

Frá því Dagmar gekk í Kvenfélag Garðabæjar haustið 1999 hefur hún tekið þátt í mörgum verkefnum og trúnaðarstörfum bæði á vegum Kvenfélags Garðabæjar, Hvítabandsins líknarfélags, sem hún gekk síðar í. Hún hefur sinnt ýmsum störfum og verkefnum fyrir Kvenfélagasamband Gullbringu- og Kjósarsýslu (KSGK) og Kvennasamband Reykjavíkur (KSR) og setið í ýmsum nefndum á vegum Kvenfélagasambands Íslands (KÍ).

Dagmar segir að störf hennar fyrir samböndin hafi sýnt henni mikilvægi þess að vel sé haldið utan um kvenfélög hvar sem þau eru á landinu. „Nú eins og áður er það samtakamáttur kvenna sem gerir okkur kvenfélagskonur að sterku afli til að styðja við bakið á verðugum verkefnum. Þar gegnir KÍ lykilhlutverki enda markmiðið með stofnun þess að kvenfélög landsins ættu sér samstarfsvettvang og málsvara. Í gildum félaga er mikið rætt um kærleik, samvinnu og virðingu og mætti bæta gleðinni þar við því hún er mikilvæg. Þegar við leggjum fram krafta okkur og tíma til verkefna þá uppskerum við gleðina við að geta veitt aðstoð.“

„Það hefur verið ákaflega ánægjulegt að hitta og kynnast konum alls staðar að af landinu og jafnvel út fyrir landssteinana enda má segja að KÍ sé með stærsta og öflugusta tengslanet kvenna á Íslandi. Allt félagsstarf eflir og styrkir og er ég þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt.“

Dagmar hefur tekið að sér fjölmörg trúnaðarstörf í þágu félaganna sem hún á aðild að.

Þau eru eftirfarandi:

Hússtjórn Hallveigarstaða, formaður 2021 -

Hússtjórn Hallveigarstaða, ritari 2018 - 2021

Hvítabandið líknarfélag, formaður 2012 – 2018

Kvennasamband Reykjavíkur, formaður 2016 – 2020

Hússtjórnarskóli Reykjavíkur, stjórnarmaður 2016 –

Kvenfélag Garðabæjar, formaður 2005 – 2009

Kvenfélag Garðabæjar, varastjórn 2003 – 2005

Kvenfélagasambands Íslands, skoðunarmaður reikninga 2006 – 2012

Nefnd um málefni Kvenfélagasambands Íslands, formaður 2005 – 2006

Félag viðurkenndra bókara, Laga- samskipta- og aganefnd 2012 – 2016

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands