Fréttir frá 65. formannaráðsfundi

Kvenfélögin rétta fram hjálparhönd

Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) hélt sinn 65. formannaráðsfund í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum laugardaginn 26. mars sl. Yfirskrift fundarins var „Af góðum hug koma góð verk“.

Á fundinn koma formenn og fulltrúar þeirra héraðssambanda um land allt sem eiga aðild að KÍ. Formannaráð samþykkti eftirfarandi áskoranir:

  • Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands skorar á kvenfélagskonur að taka þátt í móttöku flóttafólks sem nú streymir til landsins.  Ljóst er að flóttafólk mun þurfa margskonar aðstoð og eru kvenfélög hvött til að leggja málefninu lið hvert á sínu svæði.
  • Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands lýsir yfir áhyggjum af fæðuöryggi í heiminum. Hið stríðshrjáða land Úkraína er með stærstu korn- og hveitiframleiðendum í heimi. Við Íslendingar ættum að huga vel að því hvað við getum gert til að bæta fæðuöryggi á Íslandi með meiri ræktun og framleiðslu margvíslegra matvæla.

Nýjar konur voru kosnar í stjórn KÍ en þær eru: Eva Björk Harðardóttir, Kvenfélagi Kirkjubæjarhrepps frá Sambandi Vestur-skaftfellskra kvenna var kosin nýr varaforseti og Helga Guðmundsdóttir,  Kvenfélagi Eiðaþinghár frá Sambandi austfirskra kvenna var kosin í varastjórn.

Eitt af verkefnum KÍ er „Vitundarvakning um fatasóun“  og  voru kynnt m.a. myndbönd sem vinnuhópur vegna verkefnisins sá um að gera. Um er að ræða þrjú stutt myndbönd með leiðbeiningum um:  Hvernig á að stytta buxur, hvernig má þrengja streng og hvernig er hægt að gera við gat á fatnaði.  Myndböndin má finna á youtube rás Kvenfélagasambands Íslands. https://www.youtube.com/channel/UC3XxlOf6o_TOA3L6DUtmWnQ/videos Áframhald verður á verkefninu þar sem í vikunni hefur fengist styrkur frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu til að vinna að verkefninu árið 2022.  

Stjórn KÍ leggur áherslu á að veita kvenfélögum og héraðssamböndum innan sinna vébanda sem mestan stuðning við starfið, sem verið hefur erfitt síðastliðin tvö ár vegna samkomutakmarkana í heimsfaraldri.  Starf kvenfélaganna er mikilvægt og oftar en ekki eru þau máttarstólpar í sínu nærsamfélagi.  Kvenfélagskonur eins og aðrir landsmenn gleðjast nú yfir því að geta aftur hist og unnið saman að sínum velferðarmálum.  Með hækkandi sól kemur bjartari tíð eftir þungbúinn vetur.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands