Norrænt sumarþingi NKF í Reykjanesbæ

Kvenfélagasamband Íslands var gestgjafi á síðasta Norræna Sumarþingi Nordens Kvinnoförbund (NKF) sem haldið var á Park Inn í Reykjanesbæ 10. og 11. júní sl. í blíðskaparveðri. Þingið átti upphaflega að fara fram í júní 2020, það voru því spenntar konur sem mættu til að njóta fræðslu og samveru.

Rúmlega 80 konur frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi tóku þátt í þinginu.

Föstudagurinn var helgaður fræðslu og fyrirlestrum tengdum þema þingsins sem var Grænni skref - bjartari framtíð, konur, loftslag og kraftur jarðar. 

Á föstudagskvöldinu var farið með rútu í Bláa Lónið að loknum kvöldverði og nutu konur vel í góðu veðri. Á laugardeginum var farið í skoðunarferð um Reykjanesið. Unnur Halldórsdóttir var leiðsögumaður í ferðinni og tókst henni að halda hópnum bæði áhugasömum og spenntum með sögum sínum af þeim stöðum sem stoppað var á.   Kvenfélag Grindavíkur tók á móti hópnum í hádegisverð og nutu konur þess að loknum hádegisverði að skoða sig um í Grindavík. Kærar þakkir fær Kvenfélag Grindavíkur með Sólveigu Ólafsdóttur í broddi fylkingar fyrir frábærar móttökur og skipulagningu.  Frábærri ferð þennan Laugardag lauk með því að þátttakendur gróðursettu tré í Selskógi við Ingibjargarstíg og lögðu þannig sitt af mörkum við að lágmarka kolefnisfótspor þingsins. 

Þinginu var slitið formlega með hátíðarkvöldverði á laugardagskvöldinu þar sem Ása Steinunn Atladóttir, formaður Kvennasambands Reykjavíkur var veislustjóri, Drífa Hjartardóttir, fyrrum forseti KÍ og fyrrum formaður NKF flutti hátíðarræðu. Helga Magnúsdóttir frá Félagi kvenna í Kópavogi söng fyrir gesti við undirleik Kaleb Joshua.  Guðrún Þórðardóttir formaður NKF sleit þinginu formlega með því að afhenda keðju NKF til Noregs, þar sem keðjan verður varðveitt á Kvennasafni (Kvinnemuseet) í Kongsvinger. Á þessu vel heppnaða þingi var 103ja ára sögu NKF slitið en það var sameiginleg ákvörðun stjórnar NKF að ekki væri lengur skilyrði fyrir að halda áfram í þessari mynd. Allir þátttakendur voru sammála um að halda vinskapnum og norrænu samstarfi áfram í breyttri mynd í takt við nýja tíma. Kvenfélagasamband Íslands þakkar gestum  og öllum þeim sem komu að þinginu kærlega fyrir vel heppnað sumarþing. 

 

Ljósmyndir: Silla Páls

ath fleiri myndir frá þinginu er að finna á facebook síðu KÍ

 hopmynd uti web

Þinggestir prúðbúnir á hátíðarkvöldverði

Stjórn NKFweb

Stjórn NKF frá vinstri: Vilborg Eiríksdóttir, Sonja Haapakoski frá finnska kvenfélagasambandinu (Marttaliitto) , Annika Jansson frá finnsk- sænska Kvenfélagasambandinu (Martha), Guðrún Þórðardóttir formaður NKF, Olaug Tveit Pedersen frá norska kvenfélagasambandinu (Norges Kvinne- og familieforbund) Siw Warholm frá sænska kvenfélagasambandinu (Riksförbundet Hem och Samhälle), Terhi Lindqvist frá Marttaliitto og Aina Alfredsen Förde formaður Norges Kvinne- og familieforbund.

hopmynd web

Konur nutu sín í góða veðrinu í Reykjanesbæ.  Frá vinstri:  aftari röð:  Dagmar Elín Sigurðardóttir, Helga Guðmundsdóttir , Jenný Jóakimsdóttir 

neðri röð: Ingibjörg Pétursdóttir, Sigrún Björk Leifsdóttir. Dúfa Stefánsdóttir, Sólveig Ólafsdóttir, Anna Kristjana Ásmundsdóttir, Birna Guðjónsdóttir, Sigrún Símonardóttir og Klara Hreggviðsdóttir.

NKF faninn i vasa web

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands