Klámráðstefnu úthýst af Hótel Sögu

"Bændasamtök Íslands komust óvænt og óumbeðið í sviðsljós fjölmiðla í síðustu viku þegar umræðan um boðaða heimsókn aðstandenda klámsíðna á netinu til Íslands stóð sem hæst. Endahnútinn á þá deilu batt stjórn BÍ þegar hún samþykkti að neita þessum gestum um gistingu og aðra þjónustu á Hótel Sögu, að höfðu samráði við fyrirtækið sem starfrækir hótelið. blomvondur.jpgÁlyktun stjórnarinnar er á þessa leið:
„Stjórn Bændasamtaka Íslands, sem eiga Hótel Sögu, hefur ákveðið að vísa frá hópi fólks sem bókað hafði gistingu á Radisson SAS Hótel Sögu dagana 7.-11. mars
og komið hefur síðar í ljós að tengist framleiðslu klámefnis. Ákvörðun þessi er studd af Rezidor Hotel Group sem er rekstraraðili Radisson SAS hótelkeðjunnar.
Með þessu vilja Bændasamtökin lýsa vanþóknun sinni á starfsemi þeirri sem ofangreindur hópur tengist. Hótelið hefur ekki farið varhluta af sterkum viðbrögðum almennings undanfarna daga og í fyrradag lýstu borgaryfirvöld þennan hóp óvelkominn í Reykjavík.“

Áður en þessi ályktun var samþykkt hafði ýmislegt gengið á og meðal annars höfðu fulltrúar allra flokka á alþingi, auk borgarstjóra, lýst þessa gesti óvelkomna í borginni. Einnig hafði komið fram að auk þess að leigja herbergi á Hótel Sögu átti hótelið greinilega að vera miðpunktur heimsóknarinnar þar sem gestum og kostendum stóð til boða að gera sig gildandi með ýmsum hætti.

Í kjölfar samþykktarinnar ákváðu skipuleggjendur heimsóknarinnar að aflýsa förinni til Íslands.

Sterk viðbrögð.
Það stóð ekki á viðbrögðum við samþykkt stjórnarinnar. Strax og hún birtist á fréttasíðum á netinu hlupu allir bloggarar landsins að tölvum sínum og tjáðu sig.
Margir hneyksluðust á þessari samþykkt, kölluðu hana aðför að frelsi og mannréttindum, auk þess sem hún lýsti hræsni og tvískinnungi. Þá töldu Samtök
ferðaþjónustunnar þetta slæmt fordæmi í viðskiptum. Þessi afstaða er reyndar undarleg í ljósi þess að það voru borgaryfirvöld sem höfðu lýst þessa ferðamenn óvelkomna til Reykjavíkur og spyrja má hvort samtök ferðaþjónustunar hefðu ekki átt að ræða þá afstöðu, nú eða útvega þessum hópi þjónustu annarsstaðar.
Hinir voru þó ekki færri sem fögnuðu því að ekkert yrði úr boðaðri heimsókn klámforkólfa til Íslands.
„Með þessu hafa Bændasamtökin og hótelkeðjan sett gríðarlega mikilvægt fordæmi og gefið skýr skilaboð um andstöðu við klámvæðingu,“ sagði kona úr Breiðholtinu í tölvupósti sem hún sendi til BÍ og fleiri tóku í sama streng, líka karlar.

Stjórn Kvenfélagasambands Íslands sendi BÍ blómvönd og kort þar sem Bændasamtökunum er þökkuð einarðleg afstaða gegn því að kaupstefna með klám verði haldin hér á landi.
Ráðstefna, kaupstefna eða hvað?
Eftir að heimsókninni var aflýst hafa menn verið að velta því fyrir sér hvers eðlis hún átti að vera. Í upphafi var talað um kaupstefnu þar sem meðal annars átti að taka amk. eina klámmynd í íslenskum snjó.
Svo var farið að draga í land og rætt um hvataferð starfsmanna sem hafa staðið sig vel í framleiðslunni og sölunni og í lokin var þetta orðið að vetrarferð einstaklinga sem eins og fyrir tilviljun starfa allir við klámiðnað. Heimasíðan Snowgathering.com sýnir þó að þarna stóð fleira til en að lyfta glasi fullklædd á Mímisbar.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands