Vorblað Húsfreyjunnar er komið út

Annað tölublað Húsfreyjunnar er komið út og er í takt við árstíðina vorlegt og vandað að venju.

Forsíðuviðtalið að þessu sinni hefur yfirskriftina frá Sádi-Arabíu til Siglufjarðar, en þar er rætt við Ólöfu Ýr Atladóttur sem starfaði í þrjú ár við uppbyggingu ferðaþjónustu við Rauða hafið. Hún gegndi áður embætti ferðamálastjóra á Íslandi. Ólöf rekur nú ferðaþjónustufyrirtæki á Tröllaskaga. Í blaðinu er einnig viðtal við Önnu Silfu Þorsteinsdóttur, sem segir frá hönnun sinni undir nafninu Anna Silfa skart. Meðal annars skart sem nýtist líka sem vinnutól í prjónaskap.  Í blaðinu er sagt frá starfi 100 ára starfi Kvenfélags Keldhverfinga og 70 ára sögu Kvenfélags Garðabæjar. Smásagan að þessu sinni er eftir Sigríir Helgu Sverrisdóttir og heitir Ferðin heim.  

Sagt er frá formannaráðsfundi KÍ sem fór að þessu sinni fram á Kirkjubæjarklaustri. Ragnhildur Sigurðardóttir kylfingur er í viðtali og fjallar um golfið sem nú er gríðarlega vinsælt.  Leiðbeiningastöð heimilanna er með tvær greinar og eru þær um Efnafræði þrifanna og náttúrulegar snyrtivörur sem finna má í eldhússkápunum.  Sjöfn Kristjánsdóttir heldur áfram að færa lesendum prjónauppskriftir í Hannyrðahorninu og gefur að þessu sinni uppskriftir að fallegum sumarpeysum. Albert Eiríksson gefur uppskriftir að sumarlegum réttum í matarþættinum. Menning og listir fá sinn stað í blaðinu þar sem rætt er við Aðalheiði S. Eysteinsdóttur listakonu, en hún fékk nýverið Eyrarrósina 2023 fyrir sitt menningarstarf.  Garðræktin er skoðuð með Sigríði Emblu Heiðmarsdóttur garðyrkjufræðingi sem gefur ráðleggingar um fjölærar plöntur í garðinn. Eva Björk Harðardóttir varaforseti segir frá ferð sinni á Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í New York í mars. Þetta og margt fleira ásamt Krossgátunni í vorlegu blaði Húsfreyjunnar.  Þú getur gerst áskrifandi á vefnum hjá okkur eða nálgast eintak í lauasölu á sölustöðum víða um land. Njótið lestursins og gleðilegt sumar.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands