Alheimsþing dreifbýliskvenna - ACWW í Kúala Lúmpur

Alheimsþing Dreifbýliskvenna (ACWW- Associated Country Women of the World) var haldið í Kúala Lúmpur í Malasíu dagana 17. – 25. maí sl.

11 Íslendingar sóttu þingið fyrir hönd Kvenfélagasambands Íslands og naut hópurinn gestrisni kvenfélagsins í Pahang í Malasíu sem voru gestgjafar þingsins.  Fjölbreytt og glæsileg dagskrá var skipulögð í kringum hina hefðbundnu þingfundi. Skemmtanir á hverju kvöldi með hinum ýmsu þemum, boðið var upp á skoðunarferðir og menningu landsins var gerð góð skil.  Hápunkturinn í dagskránni var Gala hátíðarkvöldverðurinn i Konungshöllinni í Malasíu, en drottning þeirra Queen Azizah er formaður félagsins í Pahang og var gestgjafi kvöldsins.

Yfirskrift þingsins var Diversity is our strength eða Fjölbreytileikinn er okkar styrkur.

Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ sat þingfundi og fór með atkvæði sambandsins á þinginu fyrir hönd stjórnar KÍ. 

Á þinginu voru kynntar breytingar á stefnumótun ACWW til næstu þriggja ára eða 2023 til 2026.

Samhliða kjarnaverkefnum sem bregðast við staðbundinni forgangsröðun, mun ACWW vinna með samstarfsaðilum til að styrkja áhrif hvers verkefnis og byggja upp sjálfbærni þeirra. Færri verkefni verða fjármögnuð á hverju ári, en meira fjármagn veitt í hvert þeirra, þannig að það verði meiri fjárfesting til lengri tíma í hverju samfélagi.

Breytingarnar felast helst í að hleypt hefur verið af stokkunum nýrri áætlun þróunarverkefna, sem tryggir meiri og betri samfélagsáhrif fyrir þær konur sem eru í mestri hættu á að vera skildar eftir. Þróunarverkefni ACWW byggja á 40 ára reynslu, haldið verður áfram að forgangsraða þeim málum sem dreifbýliskonur leggja áherslu á í sínum samfélögum. Áherslur verkefna næstu þriggja ára beinast að loftslagssnjöllum landbúnaði (Climate-Smart Agriculture) , heilsu og menntun kvenna í dreifbýli (Rural Women’s Health, and Education) og á samfélagsþróun fyrir öll kjarnaverkefni.

ACWW er með ráðgefandi stöðu við margar af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og á þinginu var sagt frá því að undanfarið hefur mikið verið unnið í því að styrkja þá stöðu enn frekar til að raddir kvenna í dreifbýli nái eyrum þeirra sem taka ákvarðanir sem varða líf þeirra. 

Einn af starfsmönnum ACWW var nýlega kosinn formaður landsnefnda félagasamtaka við UNESCO og mun í haust stjórna málstofu á þeirra vegum sem fengið hefur vinnuheitið „Breyting hugarfars fyrir jafnrétti kynjanna“. Þessi staða setur ACWW við ákvörðunarborð innan UNESCO og felur í sér tækifæri til að koma betur á framfæri röddum dreifbýliskvenna.

Ályktanir sem samþykktar voru á þinginu og voru áskoranir til ríkisstjórna um allan heim voru:

„Kynjaáhrifagreining á landsbyggðinni“

„ACWW hvetur ríkisstjórnir til að greina áhrif þess á öll kyn að búa í dreifbýli þegar hugað er að áætlana- og stefnugerð.  Tryggja þarf að skoðuð verði áhrif þessara tveggja breytna, að vera kona og að búa í dreifbýli.  Lögð er áhersla á að tekið verið fullt tillit til kynjabreytunnar í dreifbýli þannig að dregið verði úr skaðlegum áhrifum fyrirhugaðra áætlana og stefnu um landsbyggðina er varða konur.“

„Stofnun aðgerðaáætlana um atvinnu kvenna í dreifbýli“

„ACWW hvetur allar ríkisstjórnir til að sinna sérstökum þörfum dreifbýliskvenna með því að vinna með fulltrúum kvennahópa til að koma á, innleiða og fylgjast reglulega með aðgerðaáætlun um atvinnumál kvenna sem tryggir aðgang þeirra að þjálfun og menntun; sanngjarna og örugga starfshætti; vinnuskilyrði þeirra og laun; aðgangi að auðlindum eins og fjármagni, efni, tækni og land/eignir og; þar á meðal en ekki takmarkað við ráðgjöf varðandi starfsferil, viðskipti og frumkvöðlastarfsemi."

„Að taka á matarsóun“

„Að ACWW leggi áherslu á að taka á matarsóun í öllum sínum verkefnum og aðgerðum og málsvörn (advocacy), með því að viðurkenna að matarsóun á sér stað um alla alþjóðlegu fæðuframboðskeðjuna og að samræmdar aðgerðir eru nauðsynlegar til að draga úr matartapi og matarsóun á hverju stigi."

Um ACWW:

Associated Country Women of the World - ACWW, Alþjóðasamband dreifbýliskvenna var stofnað árið 1929 (hét áður Alþjóðasamband húsmæðra). Kvenfélagasamband Íslands gerðist aðili að ACWW árið 1980. ACWW heldur alþjóðaþing á þriggja ára fresti.

Dreifbýliskonur eru burðarás fjölskyldna, samfélaga og þjóða, en þær verða verst fyrir barðinu á loftslagsbreytingum og átökum. ACWW magnar upp raddir dreifbýliskvenna, þannig að vandamálin sem þær standa frammi fyrir og lausnirnar sem þær koma með heyrist og séu viðurkenndar af innlendum og alþjóðlegum stefnumótendum og löggjöfum.

Um 10 milljónir kvenna í um 450 félögum í 80 löndum um allan heim eru meðlimir í ACWW, hafa samtökin staðið að mörgum þörfum og merkum málefnum, eitt af því er stuðningur við konur í fátækari löndum heims.  

 

Nokkrar myndir frá þinginu:

allur hópurinn

Allur hópurinn frá Íslandi. Frá vinstri: Helga Guðmundsdóttir, Stefán Ólafsson, Ólína Hulda Guðmundsdóttir, Guðrún Finnbjarnardóttir, Þórunn Drífa Oddsdóttir, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Linda B. Sverrisdóttir, Guðrún Þórðardóttir, Sólveig Ólafsdóttir og Jenný Jóakimsdóttir. 

 

jenný og starfsfólk ACWW

Jenný ásamt harðduglegu starfsfólki skrifstofu ACWW: 

Casey Daudelin, Nick Newland, Jenný J. og Jenny Sellers.

 

hopurinn i höllinni

Prúðbúnar konur frá Íslandi í Konungshöllinni í Malasíu.

 

jenný ásamt Magdie de Kock heimsforseta ACWW

Jenný ásamt heimsforseta ACWW Magdie de Kock frá Suður Afríku

asamt heimsforseta ACWW

Allur hópurinn ásamt heimsforseta og manni hennar í Konungshöllinni. 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands