Ályktun frá formannaráðsfundi

Formannaráð Kvenfélagasambands Íslands hittist á 68. formannaráðsfundi á Hallveigarstöðum 21. október síðastliðinn. 

Fundurinn hófst að venju á skýrslu frá stjórn KÍ, en þar sagði Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ frá því helsta sem stjórn hefur unnið að frá síðasta fundi.   Björg Baldursdóttir flutti þar næst skýrslu Húsfreyjunnar og hvatti konur til að nýta öll tækifæri til að kynna Húsfreyjuna sem víðast. Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ og Leiðbeiningastöðvar heimilanna flutti skýrslu Leiðbeiningastöðvar heimilanna sem þessa dagana fagnar því 60 ára starfi sem Leiðbeiningastöðin hefur sinnt. Jenný fór í skýrslunni að því tilefni yfir aðdraganda þess að Kvenfélagasambandið ákvað á sínum tíma að hefja þetta stóra verkefni sem Leiðbeiningastöðin hefur staðið fyrir í öll þessi ár. Heimasíða stöðvarinnar fær þúsundir heimsókna í viku hverri.  Formenn héraðssambandanna sögðu því næst frá því helsta sem er að frétta af kvenfélögunum á sínum svæðum. Að loknu hádegisverðar hléi var Jenný Jóakimsdóttir með kynningu á starfi Alþjóðasamtaka dreifbýliskvenna (ACWW) sem KÍ er að aðili að. Jenný hvatti héraðssamböndin til að skoða að gerast beinir aðilar að samtökunum og flutti einnig fréttir og sýndi myndir frá heimsþingi ACWW sem haldið var í Kúala Lúmpúr í maí síðastliðnum.

Gyða Björg Jónsdóttir formaður sambands vestfirskra kvenna og Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ sögðu frá undirbúningi 40. landsþings KÍ sem haldið verður á Ísafirði 11. – 13. október 2024. Yfirskrift þingsins verður Valkyrjur milli fjalls og fjöru. Hægt verður að byrja að skrá sig á þingið í ársbyrjun 2024 á heimasíðunni kvenfelag.is 

Á fundinum var einnig kosin nefnd til að fara yfir lög Kvenfélagasambandsins og undirbúa þær lagabreytingar sem nauðsynlegt er að leggja fyrir landsþingið á næsta ári. Í nefndinni sitja; Dagmar Elín Sigurðardóttir, forseti KÍ, Helga Magnúsdóttir ritari KÍ, Ása Steinunn Atladóttir formaður Kvennasambands Reykjavíkur, Guðbjörg Ósk Jónsdóttir formaður Sambands austur skaftfellskra kvenna og Sólveig Þórðardóttir formaður formaður Sambands sunnlenskra kvenna.

Að sjálfsögu var sér dagskrárliður til að ræða Kvennaverkfallið, farið var yfir aðkomu Kvenfélagasambands Íslands að deginum og þeirra kvenfélagskvenna sem lagt hafa á sig vinnu við undirbúning viðburða víða um land í tengslum við daginn,

Umræður voru um ályktun fundarins sem var samþykkt:

68. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn á Hallveigarstöðum 21. október 2023 lýsir yfir áhyggjum sínum vegna vaxandi ofbeldis meðal barna og ungmenna.

Fjölskyldan er það dýrmætasta sem við eigum og gott er að geta einnig átt trausta félaga hvort sem um börn eða fullorðna er að ræða.  Til þess að skapa meira jafnvægi í samskiptum þarf  fjölskyldan að gefa sér tíma saman án utanaðkomandi truflana. 

Þær skelfilegu fréttir sem við heyrum um þessar mundir, að börn og unglingar séu að ráðast á og beita aðra einstaklinga ofbeldi, þarf að taka alvarlega og bregðast skjótt við slíkri hegðun. Í umhverfi okkar er gríðarlegt áreiti af samfélagsmiðlum og mikið sýnt af ofbeldi sem á aldrei að líðast. 

Fundurinn hvetur jafnt fjölskyldur, forráðamenn og skóla til að taka höndum saman og vinna markvisst að því að  börn og unglingar fái að njóta áhyggjulausrar æsku, þar sem samkennd og kærleikur ráða ríkjum. Það er besta veganestið sem hver einstaklingur fær út í lífið

 

formannaradsfundursmall.jpg

Fundarstjóri var varaforseti KÍ, Eva Björk Harðardóttir.

evabjorksmall

Að loknum formannaráðsfundi var fulltrúum fundarins boðið í móttöku á vegum Kvenfélagasambandsins þar sem 60 ára starfi Leiðbeiningastöðvar heimilanna var fagnað.

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands