Fallin er frá á besta aldri kvenfélagskonan Sólrún Guðjónsdóttir.
Sólrún var öflug félagskona sem starfaði í hinum ýmsu nefndum í sinni heimabyggð, Grundarfirði en þangað flutti hún 2002. Nýflutt til Grundarfjarðar gekk hún í kvenfélagið Gleym mér ei og kom strax í ljós hversu öflugan liðsmann félagið hafði fengið. Hún sinnti trúnaðarstörfum fyrir kvenfélagið og það var síðan árið 2017 sem hún gaf kost á sér sem ritari Kvenfélagsambands Íslands og starfaði með stjórn í 6 ár. Sólrún var frábær félagi, vann störf sín af mikilli nákvæmni og var einstaklega ánægjulegt að starfa með henni.
Um leið og Kvenfélagasamband Íslands þakkar Sólrúnu fyrir störf hennar sendum við ástvinum innilegar samúðarkveðjur
Blessuð sé minning Sólrúnar. 

Stjórn Kvenfélagasambands Íslands
