Vika einmanaleikans var sett formlega í Kringlunni föstudaginn 3. október. Fjöldi fólks fylgdist með setningunni og kynnti sér verkefnið.
Setningin hófst á því að Eva Björk Harðardóttir, varaforseti Kvenfélagasambands Íslands, sagði frá verkefninu sem stýrihópurinn hefur unnið að síðastliðið ár. Verkefni sem eru unnið í góðu samstarfi við kvenfélögin, sem ásamt öðrum bjóða upp á hina ýmsu viðburði sem er ætlað að efla félagsleg tengsl og samveru.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti opnunarávarp og þakkaði Kvenfélagasambandi Íslands fyrir hlýtt og manneskjulegt verkefni. Hún sagði jafnframt að það ætti að vera markmið okkar allra að vilja sporna gegn því með öllum ráðum að fólk einangrist félagslega. „Með samtakamætti okkar allra þá mun okkur auðnast sú gifta að vernda jafnt unga sem aldna í baráttu þeirra gegn vanlíðan og einmanaleika.“ sagði Inga Sæland.
Næst bauð Eva Björk, biskup Íslands, séra Guðrúnu Karls Helgudóttur í pontu til að að blessa verkefnið.
Biskup þakkaði Kvenfélagasambandi Íslands fyrir að standa að þessari viku, því einmanaleiki væri alvarlegt mál og það væri mikilvægt að minna á að einmanaleiki er nokkuð sem samfélagið beri ábyrgð á. „Það er ekki skammarlegt að vera einmana. Það er ekki skömm að vera einmana. Flest okkar upplifa einmanaleika einhvern tíma á ævinni. Ef til vill hefur þú upplifað þig einmana alla þína ævi. Mögulega upplifðir þú þig einmana vegna þess að það hafa orðið stórar breytingar í þínu lífi og þínum aðstæðum. Þegar fólk kemur í sálgæsluviðtöl til presta eða djákna vegna ýmissa mála þá er einmitt oft einmanaleiki sem er stóra málið og liggur þarna djúpt að baki öllu.“ Sagði biskup meðal annars. Hún blessaði verkefnið að lokum og sagði: „Mig langar að hvetja okkur öll til þess að taka þátt í þessari viku og lyfta ef til vill augunum aðeins upp frá símanum og leggja okkur fram við að sjá hvert annað í alvörunni. Megi hinn heilagi andi sem skapar tengingar hjálpa okkur að sjá hvert annað. Guð blessi þetta dýrmæta framtak, Viku einmanaleikans.“
Að loknum ávörpum flutti Erna Salóme Þorsteinsdóttir, nemi í tónsmíðum, lag sem hún hefur samið um einmanaleikann.
Stýrihópur verkefnisins var alsæll með þetta upphaf á Viku einmanaleikans og hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að taka þátt og vinna þannig saman sem samfélag gegn einsemd og einmanaleika.
Vikunni er ætlað að kveikja neista sem heldur áfram, fram að næstu Viku einmanaleikans árið 2026.
Kringlunni er þakkað fyrir að vinna með stýrihópnum að setningunni og hýsa okkur þennan föstudag.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Eva Björk Harðardóttir, Jenný Jóakimsdóttir, Ása Steinunn Atladóttir, Rósa Marinósdóttir meðstjórnandi KÍ, Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir og þdagmar Elín Sigurðardóttir.