Sigridur vefGengið hefur verið frá ráðningu nýs ritstjóra Húsfreyjunnar, tímariti Kvenfélagasambands Íslands.

Sigríður er Þingeyingur líkt og forveri hennar í starfi. Fædd og uppalin á Húsavík. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Sigríður er nýtekin við starfi bæjarstjóra Fjallabyggðar. Síðastliðið sumar lét hún af störfum sem forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eftir 18 ára störf hjá stofnuninni sem framkvæmdastjóri og síðast forstjóri. Sigríður hefur einnig átt sæti á alþingi fyrir Norðurland vestra, setið í sveitarstjórn á Siglufirði, unnið í markaðsdeild Olís, sinnt kennslu við grunnskóla og háskóla, verið fréttaritari Morgunblaðsins og unnið á sjó, en þess má geta að hún er með skipstjórnarréttindi. Auk þess er hún m.a. með mastersgráðu í stjórnun (MBA) frá Háskóla Íslands og diploma gráðu í opinberri stjórnsýslu.

Sigríður er spennt fyrir nýjum verkefnum í samvinnu við öfluga ritstjórn. Yfirskrift blaðsins ,,Jákvæð og hvetjandi“ er það sem hún vill að Húsfreyjan standi fyrir. Veiti lesendum innsýn í þau fjölbreyttu verkefni sem konur um land allt eru að sinna.

Fyrsta tölublað nýs ritstjóra kemur út um miðjan september nk.

Sigríður tekur við góðu búi af Kristínu Lindu Jónsdóttur, sem setið hefur í stól ritstjóra Húsfreyjunnar síðan árið 2003. 

Kvenfélagasamband Íslands var gestgjafi á síðasta Norræna Sumarþingi Nordens Kvinnoförbund (NKF) sem haldið var á Park Inn í Reykjanesbæ 10. og 11. júní sl. í blíðskaparveðri. Þingið átti upphaflega að fara fram í júní 2020, það voru því spenntar konur sem mættu til að njóta fræðslu og samveru.

Rúmlega 80 konur frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi tóku þátt í þinginu.

Í sumar bauð stjórn KÍ og útgáfustjórn Húsfreyjunnar til Kveðjuhófs í tilefni af starfslokum Kristínar Lindu Jónsdóttur sem verið hefur ritstjóri Húsfreyjunnar síðan 2004. Fyrrum forsetum KÍ sem Kristín Linda hefur starfað með í um 18 ár sem ritstjóri, útgáfustjórn og stjórn KÍ var boðið á skrifstofu Kvenfélagasambandsins á Hallveigarstöðum.  Stjórn KÍ og útgáfustjórn þökkuðu Kristínu Lindu fyrir sín störf og góð kynni og færðu Kristínu Lindu þakklætisvott fyrir sín góðu störf fyrir Húsfreyjuna í öll þessi ár. Megi gæfan fylgja henni í nýjum ævintýrum. 

Skrifstofa Kvenfélagasambands Íslands og Húsfreyjunnar verður lokuð til 2. ágúst nk vegna sumarleyfis starfsmanns. Hafið það sem allra best í sumar. 

 

Kristín Linda Jónsdóttir skrifar sinn síðasta leiðara sem ritstjóri Húsfreyjunnar, en hún hefur nú verið ritstjóri Húsfreyjunnar síðan 2004. Hún heldur nú á vit nýrra ævintýra.  Útgáfustjórn Húsfreyjunnar og kvenfélagskonur þakka Kristínu Lindu fyrir afar farsælt starf fyrir Húsfreyjuna sem á dygga lesendur og áskrifendur sem alltaf bíða spenntir eftir blaðinu inn um lúguna.

Í þessu Vorblaði fáum við meðal annars að kynnast Helgu Magneu Steinsson fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands og náms- og starfsráðgjafa. Helga Magnea er líka kvenfélagskona og er nú formaður Kvenfélagsins Nönnu á Neskaupstað og Sambands austfirskra kvenna. Hún segir frá kvenfélagsstarfinu auk þess sem lesendur fá að kynnast henni sjálfri. Í blaðinu eru einnig fréttir frá starfi Kvenfélagasambands Íslands og nýjar stjórnarkonur í stjórn KÍ kynntar.  

Frá Leiðbeiningastöð heimilanna eru góð ráð um hvernig við getum fengið hvíta þvottinn okkar aftur hvítan.

Sigrún Magnúsdóttir fyrrum ráðherra, þjóðfræðingur og kvenfélagskona deilir með lesendum smásögunni sumarkynni um brúðkaup Þuríðar de Grimaldi.

Rósa Emelía Sigurjónsdóttir segir frá framtaki sínu um að skrá og setja inn á facebook dagbók frænku sinnar Helgu Sigurjónsdóttur saumakonu frá Miðhvammi í Þingeyjarsýslu. Margir fylgjast með daglegum færslum Rósu úr dagbókum frænku sinnar. Með ákvörðun sinni um að skrá og opna aðgengi að dagbókum Helgu hefur Rósa opnað dyr inn í heiminn sem Helga lifði og í því felst ómetanleg þekking.

Lesendur fá einnig að kynnast konunni á bakvið tískufyrirtækið Gracelandic, sem meðal annars hefur vakið athygli í tískutímariti Vogue. Grace Achieng segir frá tilurð fyrirtækis síns og ræðir uppvöxt sinn í Kisumu i Kenía. Hún ræðir um sjálfbærni í tískuiðnaðinum sem er hennar leiðarljós og er hönnun  hennar tímalausar og klassískar flíkur sem endast, passa vel saman og eru glæsilegar.

Í Kvenfélagsfréttum deilir Kvenfélagið LÍkn í Vestmannaeyjum með lesendum hvað leyndist í bankahólfi félagsins sem hafði verið lokað í 32 ár. Elstu pappírarnir í hólfinu voru frá 1909 , árið sem félagið var stofnað.

Sirrý Arnarsdóttir segir frá nýjum vef minningar.is þar sem fólki býðst að birta minningargreinar og dánartilkynningar um látna ástvini gjaldfrjálst.

Þær Alda Sigurðardóttir og Þóra Þórarinsdóttir sjá um Hannyrðahornið og gefa handavinnuþyrstum lesendum Húsfreyjunnar næg verkefni í sumar.  Þar má finna uppskriftir að útipeysum fyrir sumarið, heklað Stjörnuteppi og notalegan trefil.

Albert Eiríksson sér um matarþáttinn og gefur hugmyndir að góðgæti sem tilvalið er til að gera sér dagamun í boðum í vor og sumar. Meðal uppskrifta eru Marsipanhorn, Steiktir maísklattar, Döðlukonfekt og Bakaður ostur með fíkjum og hnetum ásamt fleiru.

Krossgátan er að sjálfsögðu á sínum stað.

Þú finnur Húsfreyjuna víða í verslunum Í lausasölu eða getur farið á vefinn okkar husfreyjan.is og gerst áskrifandi.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands