Jólablað Húsfreyjunnar hefur nú verið sent til áskrifenda og komið í verslanir. Að venju er blaðið stútfullt af efni.

Í forsíðuviðtalinu að þessu sinni er Sesselja Ómarsdóttir sviðsstjóri lyfjaþróunardeildar Alvotech. Sesselja segir frá sjálfri sér, starfi sínu og áhugamálum en hún æfir meðal annars kraftlyftingar af mikum krafti. Í blaðinu er sagt frá nýliðnu landshelgi Kvenfélagasambandsins sem haldið var í Borgarnesi í október síðastliðin og sagt er frá kjólunum Laufey sem frumsýndir voru á þinginu.

Albert Eiríksson eldar fyrir Húsfreyjuna og gefur uppskriftir að ljúffengum réttum sem kitla bragðlaukana á aðventu og jólum en hann hélt jólaboð á Ísafirði sem hann segir lesendum frá.

Fleiri smásögur eru í blaðinu og nú er það sú saga sem fékk þriðju verðlaun í Smásagnasamkeppni Húsfreyjunnar; Mangógrautur og döðlubrauð eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur og Þórdís Sigurbjörnsdóttur fær aðra sögu birta „Barnasaga fyrir fullorðna“ sem á vel við í aðventu- og jólablað.

Dagbjört Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur í Mývatnssveit hitti Húsfreyjuna og segir frá sér og sínum hugðarefnum. Þær Alda og Þóra, eigendur Hannyrðabúðarinnar á Selfossi sjá um Hannyrðahornið og gefa uppskriftir að Dömuhönskum, glitrandi snjókorni ofl.

Við fáum innsýn í jólin og aðventuna í Skotlandi hjá mæðgunum Ingu Geirsdóttur og Margréti Snorradóttur sem segja okkur aðeins frá því hvernig Skotar halda upp á jólin. Að sjálfsögðu er svo Krossgátan á sínum stað. Njótið aðventunnar kæru lesendur.

Smelltu hér til að skrá þig í áskrift:

Arnar Björnsson fréttamaður og Landinn kíktu við á Vinnusmiðju í fatabreytingum sem haldin var á Hallveigarstöðum 17. nóvember sl.  Var sýnt frá því í Landanum síðastliðin Sunnudag og fjallað um verkefni KÍ Vitundarvakning um fatasóun. Rætt var við aðalleiðbeinanadnann á Vinnusmiðjunni, Sigríði Tryggvadóttur í Saumahorn Siggu, Guðrúnu Kristjönu Hafsteinsdóttur kvenfélagskonu í Mosfellsbæ sem er í vinnuhóp verkefnisins og Jennýju Jóakimsdóttur starfsmann KÍ og umsjónarmann verkefnisins. Kvenfélög geta haft samband við skrifstofu KÍ ef þau óska eftir að halda svona vinnusmiðjur eða óska eftir fræðslu um verkefnið. 

Ágústa Magnúsdóttir Kvenfélagi Garðabæjar og Guðrún K. Hafsteinsdóttir Kvenfélagi Mosfellsbæjar voru þátttakendum til aðstoðar ásamt Sigríði leiðbeinanda.

Landsþing Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) var haldið í Hótel Borgarnesi dagana 15. – 17. október sl. Konur í Sambandi borgfirskra kvenna voru gestgjafar. Yfirskrift þingsins var „það sem jörðin gefur”

Dagskrá þingsins var fjölbreytt og nutu konur þess að hittast loks eftir erfiða tíma þar sem nánast allt félagsstarf félaganna hefði legið niðri í heimsfaraldri. Til að gæta sóttvarna var mælst til þess að gestir færu í hraðpróf og tóku konurnar vel í það og gátu því fellt grímuna á fundum og notið samverunnar enn betur en ella.

Á undanförnum árum hefur afrakstur vinnu kvenfélaganna, numið tugi milljóna á ári hverju, sem runnið hefur til menningar- líknarstofnana og til annarra samfélagsverkefna.   Í skýrslu stjórnar KÍ til þingsins kemur fram að kvenfélög innan KÍ hafa gefið  179.053.274 kr. alls til samfélagsins á árunum 2018 – 2020.

Að lokinni þingsetningu í Borgarneskirkju þar sem konur fjölmenntu í bleiku í tilefni Bleika dagsins, tók Kvenfélagið 19. júní á móti þinggestum og heiðursgestum í móttöku í Landbúnaðarháskólanum. Þar flutti forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson ávarp sem verndari Kvenfélagasambands Íslands, með honum var kona hans Eliza Reid forsetafrú.  Forsetinn þakkaði kvenfélagskonum um land allt þeirra drjúgu verk í þágu samfélagsins, störf í heimabyggð og framlög til góðgerðarmála sem muni svo sannarlega um. Ávörp fluttu einnig;  Rektor LHÍ Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar Linda Björk Pálsdóttir og sveitarstjóri Borgarbyggðar Þórdís Sif Sigurðardóttir.  Danshópurinn Sporið sýndi síðan við mikla hrifningu þinggesta nokkra fjöruga þjóðdansa.

Á laugardeginum hófst svo þingfundur með venjulegum liðum þar sem mál voru lögð fyrir þingið og Guðrún Þórðardóttir lagði fram skýrslu stjórnar KÍ 2018- 2021.   Hildur Traustadóttir frá Kvenfélaginu 19. júni var 1. þingforseti, Þórný  Jóhannsdóttir varaforseti KÍ var 2. þingforseti og Ingibjörg Daníelsdóttir frá Kvenfélagi Hvítársíðu var 3. þingforseti.  Fyrir hádegið mætti svo Bjartur Guðmundsson, leikari og frammistöðuþjálfi, sem kveikti svo sannarlega í konum með efni sínu: Óstöðvandi liðsandi.

Framsöguerindi um það sem jörðin gefur samkvæmt yfirskrift þingsins voru flutt eftir hádegi á laugardeginum í umsjón SBK. Linda B. Sverrisdóttur frá Kvenfélagi Borgarness stjórnaði dagskránni.   Erindin voru eftirtalin:

Býrð þú hér? -  Arnheiður Hjörleifsdóttir, sagði frá reynslu sinni og fjölskyldunnar við að taka á mót gestum nær og fjær á Bjarteyjarsand. Hún sagði frá því meðal annars hversu misjafnar upplifanir gesta hennar eru. Sumir fagna kyrrðinni á meðan aðrir sem ekki eru vanir íslensku dreifbýli nánast þola ekki við.  Hespuhúsið Áhugamál sem fór úr böndunum" – Guðrún Bjarnadóttir, hún sagði frá áhugamáli sínu sem hófst með jurtalitun í nokkrum pottum í eldhúsinu í Borgarfirðinum, en er nú orðið að stórri jurtalitunarvinnustofu þar sem hún tekur á móti gestum og framleiðir vörur í Ölfusinu. Við, landið og skógurinn - Laufey Bryndís Hannesdóttir. Laufey sagði frá Skógrækt í Borgarfirðinum og hvernig skógur á undir högg að sækja víða um land. Hún kynnti einnig Birkiskógaverkefni Landgræðslunnar. En þinggestir fengu meðal annars í þingtöskur sínar umslag með birkifræjum sem þær eru hvattar til að gróðursetja í sinni heimabyggð. KÍ er núna í samstarfi við Landgræðsluna í Birkiskógaverkefninu og eru kvenfélagskonur hvattar til að þátt í því og setja birkisöfnun inn í dagskrá sína. 

Að loknum erindum var svo frumsýning á kjólum fyrir konur sem vilja fallega, íslenska kjóla sem eru framleiddir með hag umhverfisins í huga..  Það eru feðginin Áskell Þórisson og Laufey Dóra Áskelsdóttir sem vinna nú að því að koma kjólunum á markað, náttúruljósmyndir sem teknar eru af Áskeli eru prentaðar á kjólana.  Kjólarnir eru saumaðir á Akranesi og lokavinnsla mynda fer fram á Hvanneyri. Tengdist vel við þema þingsins og eitt verkefna KÍ Vitundarvakning um fatasóun.

Hátíðarkvöldverður var svo í umsjón SBK og fór fram í sal Hótel Borgarness. Ása Erlingsdóttir frá Kvenfélagi Stafholtstungna var veislustjóri. Meðal skemmtiatriða voru:  Leikþáttur frá Kvenfélag Hvítársíðu með Heidi Laubert Anderssen og Valdísi Rán Samúelsdóttir,  Þórdís á Hrísum var með skemmtilegan kveðskap. Steinunn Pálsdóttir og Konur úr kvenfélagi Álftárhrepps sungu nokkur lög. Orri trúbador mætti svo með gítarinn og hleypti miklu fjöri í kvennahópinn.  Var svo dregið í happadrættinu á milli dagskráratriða.

Sunnudagsmorguninn hófst svo með Vinnustofu sem bar heitið Framtíðin og við og var í umsjón Ragnheiðar Aradóttur, stjórnenda- og umbreytingamarkþjálfa. Niðurstöður vinnustofunnar verða kynntar á næsta formannaráðsfundi og nýttar við vinnslu stefnu KÍ næstu árin.

Á Sunnudeginum 17. október fóru svo fram kosningar og nýjar konur komu inn í stjórn Kvenfélagasambands Íslands.

Dagmar Elín Sigurðardóttir var kosin forseti KÍ og Magðalena Karlotta Jónsdóttir til gjaldkera. Þuríður Guðmundsdóttir var endurkjörin sem meðstjórnandi. 

Tímasetning og staðsetning næsta landsþings var ákveðin og verður 40. landsþing KÍ haldið helgina 11.- 13. október 2024, gestgjafar verða konur í Sambandi vestfirskra kvenna.  

Landsþingið sendi  frá sér eftirfarandi ályktun:

Landsþing Kvenfélagasambands Íslands, haldið í Borgarnesi 15.-17. október 2021, skorar á heilbrigðisráðherra og viðeigandi stjórnvöld að auka upplýsingar og fræðslu um krabbameinsskimanir. Breytingar á fyrirkomulagi skimana valda óöryggi og geta dregið úr þátttöku í þessu mikilvæga verkefni. Þá hefur skoðunarstöðum fækkað. Nauðsynlegt er að skimun og greining sýna gangi greiðlega fyrir sig þannig að óþarfa bið verði ekki á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Tryggja þarf að þjónusta svo sem brjóstamyndataka, sé veitt sem víðast á landinu. Landsþingið skorar á kvenfélagskonur að taka höndum saman og hvetja konur, sérstaklega ungar konur, til að mæta í skimun og huga að heilsu sinni.

Landsþing KÍ er æðsta vald sambandsins og er haldið á 3ja ára fresti. Á landsþingum KÍ sem haldin eru þriðja hvert ár koma kvenfélagskonur saman til skrafs og ráðagerða um störf sín í kvenfélögunum.

Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) var stofnað árið 1930 sem sameiningar og samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu.  Innan KÍ starfa 142 kvenfélög í 17 héraðs- og svæðasamböndum með um 4500 félaga.

 

móttakan á Hvanneyri gestir á vef

Guðrún Þórðardóttir fráfarandi forseti KÍ afhenti gestum í Móttökunni á Hvanneyri þakklætisvott.

fv. Sveitarstjóri Hvalfjarðarsveit; Linda Björk Pálsdóttir, Sveitarstjóri Borgarbyggð; Þórdís Sif Sigurðardóttir

Elíza Reid forsetafrú, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Rektor LHÍ; Ragnheiður I. Þórarinsdóttir og 

Guðrún Þórðardóttir. 

 

Skálað á hátíðarkvöldverði á vef

Skálað á hátíðarkvöldverði 

kjólasyning á vef

Kvenfélagskonur sýna kjólana sem mæðginin Áskell Þórisson og Laufey Dóra frumsýndu á þinginu. 

 

Bleikar konur í kirkju við þingsetningu

Það var bleikt yfir að líta þegar þingið var sett formlega í Borgarneskirkju á Bleika daginn 15. október. 

landsþingsnefnd SBK á vef

Landsþingsnefnd SBK; fv. Hildur Traustadóttir, Þuríður Guðmundsdóttir, Sólrún Tryggvadóttir, Ágústa Björg Kristjánsdóttir og Linda B. Sverrisdóttir

nýr forseti og gjaldkeri á vef

Nýr gjaldkeri og forseti ásamt mæðrum sínum. fv. Magðalena Karlotta Jónsdóttir nýr gjaldkeri, móðir hennar Björg Bjarnadóttir,

Valdís Ólafsdóttir og svo dóttir hennar nýr forseti KÍ; Dagmar Elín Sigurðardóttir

 

Fleiri myndir frá þinginu er að finna inn á fésbókarsíðu KÍ. 

 

Dagmar mynd vef

Dagmar Elín Sigurðardóttir var kjörin forseti Kvenfélagasambands Íslands til næstu þriggja ára á 39. landsþingi sem haldið var í Borgarnesi helgina 15. – 17. október 2021.

Dagmar er fædd árið 1958 og uppalin í Reykjavík en fluttist seinna í Garðabæinn með manni sínum. Undanfarin ár hefur hún starfað sem aðalbókari, gjaldkeri, séð um innheimtu og útreikning félagsgjalda, starfsmannamál, launaútreikning ofl. Dagmar vann í mörg ár hjá Samtökum iðnaðarins en síðustu ár sem aðalbókari hjá Fastus ehf. Hún er stúdent frá Hagfræðideild Verslunarskóla Íslands og Viðurkenndur bókari frá Háskólanum í Reykjavík.

Frá því Dagmar gekk í Kvenfélag Garðabæjar haustið 1999 hefur hún tekið þátt í mörgum verkefnum og trúnaðarstörfum bæði á vegum Kvenfélags Garðabæjar, Hvítabandsins líknarfélags, sem hún gekk síðar í. Hún hefur sinnt ýmsum störfum og verkefnum fyrir Kvenfélagasamband Gullbringu- og Kjósarsýslu (KSGK) og Kvennasamband Reykjavíkur (KSR) og setið í ýmsum nefndum á vegum Kvenfélagasambands Íslands (KÍ).

Dagmar segir að störf hennar fyrir samböndin hafi sýnt henni mikilvægi þess að vel sé haldið utan um kvenfélög hvar sem þau eru á landinu. „Nú eins og áður er það samtakamáttur kvenna sem gerir okkur kvenfélagskonur að sterku afli til að styðja við bakið á verðugum verkefnum. Þar gegnir KÍ lykilhlutverki enda markmiðið með stofnun þess að kvenfélög landsins ættu sér samstarfsvettvang og málsvara. Í gildum félaga er mikið rætt um kærleik, samvinnu og virðingu og mætti bæta gleðinni þar við því hún er mikilvæg. Þegar við leggjum fram krafta okkur og tíma til verkefna þá uppskerum við gleðina við að geta veitt aðstoð.“

„Það hefur verið ákaflega ánægjulegt að hitta og kynnast konum alls staðar að af landinu og jafnvel út fyrir landssteinana enda má segja að KÍ sé með stærsta og öflugusta tengslanet kvenna á Íslandi. Allt félagsstarf eflir og styrkir og er ég þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt.“

Dagmar hefur tekið að sér fjölmörg trúnaðarstörf í þágu félaganna sem hún á aðild að.

Þau eru eftirfarandi:

Hússtjórn Hallveigarstaða, formaður 2021 -

Hússtjórn Hallveigarstaða, ritari 2018 - 2021

Hvítabandið líknarfélag, formaður 2012 – 2018

Kvennasamband Reykjavíkur, formaður 2016 – 2020

Hússtjórnarskóli Reykjavíkur, stjórnarmaður 2016 –

Kvenfélag Garðabæjar, formaður 2005 – 2009

Kvenfélag Garðabæjar, varastjórn 2003 – 2005

Kvenfélagasambands Íslands, skoðunarmaður reikninga 2006 – 2012

Nefnd um málefni Kvenfélagasambands Íslands, formaður 2005 – 2006

Félag viðurkenndra bókara, Laga- samskipta- og aganefnd 2012 – 2016

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands