Sumarblað Húsfreyjunnar er komið út

Sumarblað Húsfreyjunnar, tímarits Kvenfélagasambands Íslands, er komið út.

Í blaðinu eru áhugaverð viðtöl, fræðsla, ráðgjöf um matargerð og heilsu, uppskriftir og handavinna, krossgáta og fréttir.

Að þessu sinni kynnast lesendur Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur þriggja barna móður sem býr í Eyjafjarðarsveit og er framkvæmdastjóri Hofs menningarhúss á Akureyri.
Einnig er í tímaritinu spjallað við Birgittu H. Halldórsdóttur rithöfund, reikimeistara, bónda og Töfrakonu í Húnavatnssýslu.
Handavinnuþátturinn er sumarlegur, þar eru bæði sumarbústaða- eða útilegusokkar, sumarbústaðateppi og sokkaskór fyrir smáa fætur.
Margrét S. Sigbjörnsdóttir sér um matreiðsluþáttinn Hollari matur með Margréti. Í honum er fjöldi hollra og girnilegra uppskrifta.
Kristín Sigfúsdóttir skrifar um jafnrétti á heimilunum og kynjaða hússtjórn.
Eygló Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Leiðbeiningastöðvar heimilanna býður lesendum upp á vandaða fræðslu um sítrónur og hvítlauk og uppskrift að grasöli og rabarbaragraut. Í tölublaðinu eru fréttir frá starfi Kvenfélagasambands Íslands og krossgáta Dollýar er á sínum stað.

Blaðið er hægt að kaupa í áskrift hjá Kvenfélagasambandi Íslands sjá www.kvenfelag.is
og í lausasölu um land allt sjá sölustaði hér: Sölustaðir Húsfreyjunnar 
Kvenfélagasambandið hefur gefið Húsfreyjuna út í 62 ár.
Ritstjóri er Kristín Linda Jónsdóttir.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands