Minningarsjóðurinn var stofnaður samkvæmt ákvæði í erfðaskrá Helgu M Pálsdóttur
hattagerðarkonu, dags 25. ágúst 1987.  Stjórn sjóðsins auglýsir hér með eftir umsóknum
um styrki úr sjóðnum.

Styrkir þessir eru að þessu sinni einkum ætlaðir konum sem leggja stund á listnám,
Textíl eða annað nám í íslensku handverki og eru  kvenfélagskonur sérstaklega
hvattar til að sækja um styrk úr sjóðnum. 
Í umsóknunum skal koma fram nafn, kennitala og heimili umsækjanda, auk staðfests afrits af
síðasta skattframtali og annarra upplýsinga um persónulega hagi, fyrri menntun og störf og eðli námsins.
Nauðsynlegt er að staðfesting þeirrar skólastofnunar sem umsækjandi hyggst stunda
nám við, fylgi umsókn.  Einnig er æskilegt að mynd af umsækjanda fylgi.

Umsóknum skal skilað til Kvenfélagasambands Íslands, Hallveigarstöðum, Túngötu
14, 101 Reykjavík fyrir 15. október 2011, merkt “Minningarsjóður”

   Stjórn Minningarsjóðs Helgu M. Pálsdóttur
    

Stjórn Kvenfélagasambands Íslands hefur haft þungar áhyggjur af framvindu mála er varða bann við heimabakstri og sölu kvenfélaganna í landinu. Stjórnin sendi af því tilefni eftirfarandi áskorun til ráðherra málaflokksins:

Stjórnarfundur Kvenfélagasambands Íslands, haldinn 8. september  2011 á Hallveigarstöðum beinir eftirfarandi tilmælum til ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála:
Kvenfélagasamband Íslands hvetur ráðherra til að leggja fram breytingar á matvælalögum, nr. 93/1995 sem koma í veg fyrir að kvenfélögin í landinu geti elft starf sitt með bakstri og sölu til fjáraflana.
Kvenfélagasambandið hvetur  ráðherra til að breyta lögunum þannig að félagasamtök geti áfram boðið matvöru til neytenda í þágu góðgerðarmála.
Í eitthundrað og fjörutíu ára sögu kvenfélaganna hefur það sýnt sig að framlög þeirra skipta sköpum.“

Ráðherra, Jón Bjarnason, þakkar KÍ fyrir hvatninguna og segir málið þegar vera í undirbúningi í ráðuneyti sínu og að það verði að öllu forfallalausu lagt fram í byrjun næsta þings nú í haust. -  Nýtt þing verður sett þann 1. október nk. og bindur Kvenfélagasambandið  miklar vonir við að þetta mál fái brautargengi á þinginu.

 

Fulltrúar Kvenfélagasambands Íslands fóru á fund Auðar Hallgrímsdóttur formanns Sameinaða lífeyrissjóðsins í júní sl. og færðu henni blómvönd í tilefni þess að hún er fyrsta konan sem gegnir formennsku í lífeyrissjóði þar sem meginþorri sjóðfélaga kemur úr stétt iðnaðarmanna, en þess má geta að karlar eru 92% virkra félaga í Sameinaða lífeyrissjóðnum.

Markmið Kvenfélagasambandsins með blómaafhendingunni er að vekja athygli á því að konur hasla sér völl á æ fleiri sviðum samfélagsins.
Auður útskrifast sem hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1978 og vann sem hjúkrunarfræðingur til ársins 1991 en þá hóf hún störf við atvinnurekstur ásamt eiginmanni sínum  Óðni Gunnarssyni en saman eiga þau og  reka fyrirtækið Járnsmiðju Óðins.  Auður tók sæti í stjórn Málms árið 2007, Málmur er félag málms- og skipasmiða og er hún fyrsta konan sem situr í stjórn þess félags.  Árið  2008 var Auður skipuð í stjórn Sameinaða Lífeyrissjóðsins fyrir hönd Samtaka Iðnaðarins  og kosin formaður stjórnar vorið 2011.
Umhverfis  og jafnréttismál  eru Auði mjög hugleikinn og hóf hún snemma afskipti af pólitík til að hafa áhrif og móta betra samfélag,  enda er hún kvenfélagskona og starfar í í Kvenfélagi Garðabæjar eins og móðir hennar.

Sumarblað Húsfreyjunnar, tímarits Kvenfélagasambands Íslands, er komið út.

Í blaðinu eru áhugaverð viðtöl, fræðsla, ráðgjöf um matargerð og heilsu, uppskriftir og handavinna, krossgáta og fréttir.

Að þessu sinni kynnast lesendur Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur þriggja barna móður sem býr í Eyjafjarðarsveit og er framkvæmdastjóri Hofs menningarhúss á Akureyri.
Einnig er í tímaritinu spjallað við Birgittu H. Halldórsdóttur rithöfund, reikimeistara, bónda og Töfrakonu í Húnavatnssýslu.
Handavinnuþátturinn er sumarlegur, þar eru bæði sumarbústaða- eða útilegusokkar, sumarbústaðateppi og sokkaskór fyrir smáa fætur.
Margrét S. Sigbjörnsdóttir sér um matreiðsluþáttinn Hollari matur með Margréti. Í honum er fjöldi hollra og girnilegra uppskrifta.
Kristín Sigfúsdóttir skrifar um jafnrétti á heimilunum og kynjaða hússtjórn.
Eygló Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Leiðbeiningastöðvar heimilanna býður lesendum upp á vandaða fræðslu um sítrónur og hvítlauk og uppskrift að grasöli og rabarbaragraut. Í tölublaðinu eru fréttir frá starfi Kvenfélagasambands Íslands og krossgáta Dollýar er á sínum stað.

Blaðið er hægt að kaupa í áskrift hjá Kvenfélagasambandi Íslands sjá www.kvenfelag.is
og í lausasölu um land allt sjá sölustaði hér: Sölustaðir Húsfreyjunnar 
Kvenfélagasambandið hefur gefið Húsfreyjuna út í 62 ár.
Ritstjóri er Kristín Linda Jónsdóttir.

Konur úr stjórn Kvenfélagasambands Íslands komu á fund Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur og færðu henni blómvönd í tilefni þess að hún er fyrsta konan sem verður formaður Landssambands eldri borgara. Þær vildu með því vekja athygli á því að konur hasla sér völl á æ fleiri sviðum samfélagsins.
Hildur Helga, Jóna Valgerður, Sigurlaug Viborg og Margrét
Konur úr stjórn Kvenfélagasambands Íslands  komu á fund Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur og færðu henni blómvönd í tilefni þess að hún er
fyrsta konan sem verður formaður Landssambands eldri borgara.  Þær vildu með því vekja athygli á því að konur hasla sér völl á æ fleiri sviðum samfélagsins.

Jóna Valgerður er kvenfélagskona, var formaður Kvenfélagsins Hvatar í Hnífsdal í  mörg ár, einnig formaður Sambands vestfirskra kvenna í 6 ár og er núna formaður Sambands breiðfirskra kvenna og hefur verið s.l. 10 ár.  Hún segir að sína fyrstu reynslu af félagsmálum hafi hún fengið í kvenfélögunum og þau séu mjög góður skóli fyrir konur til að þjálfa sig í  félagsstörfum.   Jóna Valgerður hefur  setið í fjölmörgum  nefndum  og félagastjórnum í gegnum ævina, og gegnt þar formennsku. Hún  sat á Alþingi  fyrir Vestfirði 1991-1995. Hún hefur  setið í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og sveitarstjórn Reykhólahrepps þar sem hún gegndi starfi oddvita og síðar sveitarstjóra þar til hún hætti sökum aldurs. Eftir það  hefur hún verið virk í starfi  ýmissa félagasamtaka  í Reykhólahreppi þar sem hún býr nú í Mýrartungu 2. Þangað flutti hún ásamt manni sínum Guðmundi H. Ingólfssyni árið 1996, sen hann lést árið 2000.  Í sveitinni unir hún sér vel, þar sinnir hún skógrækt og ræktun íslenskra hænsna og tekur á móti börnum og barnabörnum, en hún á 5 börn, 16 barnabörn og 7 langömmubörn. Hún hefur starfað í Félagi eldri borgara í Dölum og Reykhólahreppi í  8 ár, verið í stjórn þar og einnig síðustu  tvö árin í stjórn Landssambands eldri borgara(LEB) þar sem hún var kosin formaður á landsfundi samtakanna  nú í vor.  Forseti Íslands veitti Jónu Valgerði fálkaorðuna  1.jan.s.l. fyrir félagsmálastörf á landsbyggðinni.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands