Nú er árið 2011 runnið upp og átturgasta afmælisári Kvenfélagasambands Íslands er formlega lokið.

Stærsta verkefni afmælisársins var Húfuverkefni KÍ en það snérist um það að kvenfélagskonur prjónuðu húfur á alla nýbura sem fæddust á landinu.
Alls voru þetta um 5000 húfur sem ljósmæður afhentu til barnanna ásamt miða með upplýsingum um hver prjónaði húfuna og um Kvenfélagasambandið.

Verkefnið var jákvætt og hitti marga. Umræður hafa verið um kvenfélögin í landinu og hvort þau hafa áhrif á íbúa landsins.
Í gegnum tíðina hefur starf kvenfélaganna verið unnið án þes að kvenfélögin hafi hampað sér sérstaklega fyrir það. Oft á tíðum veit fólk ekki að það er kvenfélagið í heimabyggð sem sér um árvissar skemmtanir og gefur áhöld og tæki til hjúkrunar og lækninga. Það virðist einnig vera að þegar félögin reyna að vekja athygli fjölmiðla á því góða sem þau gera að það rati síður á prent eða í útsendingu en hið neikvæða sem fólki verður á í lífinu.

Með jákvæðnina að leiðarljósi halda kvenfélögin áfram að sinna sínum góðu verkefnum og efla samfélagið eins og þau hafa gert sl. 142 ár.

Nú á árinu 2011 halda mörg kvenfélög uppá merkisafmæli sín, Þau sem fylla tug eru:

Kvenfélag Svalbarðsstrandar verður 110 ára,
Kvenfélagið Brautin í Bolungarvík verður 100 ára,
Kvenfélagið Lindin, Vopnafirði og Kvenfélag Hellissands verða 90 ára,
Kvenfélag Skaftártungu verður 80 ára,
Kvenfélagið Björk í Kolbeinsstaðahreppi verður 70 ára,
Kvenfélagið Grein í Leirársveit og Kvenfélag Hveragerðis verða 60 ára,
Kvenfélagið Hlíf í Breiðdal, Kvenfélagið Askja á Jökuldal og Kvenfélagið Björk í Öræfum verða 50 ára
Kvenfélagið Sunna Reykjafjarðarhreppi verður 40 ára.
Yngsta kvenfélagið innan Kvenfélagasambandsins er Kvenfélagið Silfur sem starfar í Reykjavík en það er á sínu öðru starfsári.

Konur um land allt eru hvattar til að kynna sér starfssemi kvenfélaganna og leggja þeim lið.

Kvenfélagskonur munið eftir að gera ykkur dagamun á Degi kvenfélagskonunnar þann 1. febrúar sem þetta ár ber uppá þriðjudag.

41. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands var haldinn í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum laugardaginn 20. nóvember sl.

Yfirskrift fundarins var, Hvernig getum við eflt KÍ og kvenfélögin enn frekar.
Auk venjulegra fundastarfa va unnið  í hópum, haldið örnámseið og fluttir fyrirlestarar um sjálfboðaliðastörf og hlutverk og skyldur stjórnarmanna kvenfélaga- og héraðssambanda.

Þá samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktun:

”Kvenfélagasamband Íslands lýsir yfir áhyggjum vegna fyrirætlana um niðurskurð í heilbrigðis- og skólamálum þjóðarinnar. Minnt er á nauðsyn þess að standa vörð um þessa mikilvægu málaflokka og skorað er á Ríkisstjórn Íslands að birta heildarúttekt á þeim sparnaði sem boðaður er. Bent er á að ef niðurskurðurinn verður að veruleika er öryggi fjölda fólks stefnt í hættu og fjöldi kvenna missir atvinnu sína.”

Ögmundur Jónasson dóms- og mannréttindaráðherra var nýverið viðstaddur opnun Vímuvarnaviku 2010 (Viku 43) í Þjóðeikhúsinu.  Við þá opnun var undirrituð Áskorun Viku 43 af fulltrúum 22 frjálsra grasrótarsamtaka um mikilvægi samstarfs í vímuvörnum og fræðsluátaks um skaðsemi kannabis.  Þessi undirritaða áskorun var afhend stjórnvöldum í dag og tók dóms- og mannréttindaráðherra, Ögmundur Jónasson, við henni fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands.

Fulltrúar Viku 43 notuðu tækifærið og ítrekuðu við ráðherra nauðsyn þess að stjórnvöld standi vörð um vímuvarnir og það samstarf sem nauðsynlegt er í málaflokknum og endurspeglast vel í Viku 43 með þeim fjömörgu grasrótarsamtökum sem þar eru þátttakendur.  Einnig þyrftu ráðamenn að gæta þess að sá mikli félagsauður sem býr í tilvist og starfi þessara frjálsu samtaka fari ekki forgörðum þegar kemur að stefnummörkun í forvarnaverkefnum framtíðar. 

Í dag skrifuðu 22 félagasamtök undir áskorun undir yfirskriftinni
 Málið varðar okkur öll !

Áskoruninni sem er að finna hér að neðan er beint til þeirra sem koma að uppeldi barna og unglinga í víðasta skilningi
ásamt því að félagasamtökin sem að henni standa taka mið af henni.

Málið varðar okkur öll !

„Ungum kannabisneytendum sem leita sér meðferðar hefur fjölgað um helming
síðustu ár á Íslandi. Fíkniefnaneysla getur verið dýrkeypt. Það þekkja
þeir sem missa tökin af neyslu sinni, fjölskyldur þeirra, aðstandendur og
vinir.
Skaðleg líffræðileg áhrif kannabisneyslu eru þekkt, svo og tengsl við
neyslu annarra fíkniefna, s.s. amfetamíns. Á grundvelli þessarar vitneskju
er mikilvægt að börn og unglingar láti ekki blekkjast af rangfærslum um
kannabisefni; rangfærslum sem oft eru klædd í búning hlutlægra og
áreiðanlegra upplýsinga.
Í æsku og á unglingsárum er lagður grunnur að framtíð einstaklings. Þá
mótast mikilvægar forsendur lífssýnar, þroska og heilbrigði síðar á
ævinni. Foreldrar, kennarar og aðrir uppalendur eru í lykilhlutverki í
uppeldi og forvörnum, meðal annars með því að veita  börnum og ungmennum
leiðsögn við gagnrýnið mat á upplýsingum og veita þeim hlutlægar og
traustar upplýsingar. Börn og ungmenni þurfa skýr skilaboð frá fjölskyldum
sínum um að hafna neyslu fíkniefna, en jafnframt stuðning og hvatningu
gagnvart hverskyns áreiti og þrýstingi til neyslu fíkniefna.
Við hvetjum til opinnar og ábyrgrar umræðu um fíkniefnamál og köllum eftir
almennri þátttöku og samstöðu um velferð barna og ungmenna.
Málið varðar okkur öll.

Konur um allt land eru hvattar til að ganga út af vinnustöðum sínum kl. 14.25 í dag, 
 
- þá hafa konur unnið fyrir launum sínum, sem enn eru aðeins 66% af heildarlaunum karla.

ÚTIFUNDIR VERÐA AUGLÝSTIR Í SVÆÐISFJÖLMIÐLUM UM LAND ALLT

Í REYKJAVÍK VERÐUR SAFNAST SAMAN VIÐ HALLGRÍMSKIRKJU KL 15:00
Gengið verður að Arnarhóli verða uppákomur á hverju götuhorni.

Sjá dagskrá á Arnarhóli:

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands