Sunnudaginn 11. mars verður þjóðbúningadagur í Þjóðminjasafni Íslands.

Gestir eru hvattir til að mæta á þjóðbúningi til að sýna sig og sjá aðra. Að þessu sinni býðst gestum að koma með búningasilfur í greiningu til Dóru Jónsdóttur gullsmiðs og Lilju Árnadóttur fagstjóra munasafns Þjóðminjasafns Íslands og fræðast þannig um gerð gripanna, uppruna þeirra og aldur. 

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður mun opna nýja heimasíðu Þjóðbúningaráðs www.buningurinn.is og munu börn frá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sýna þjóðdansa. Einnig leiðir Magnea Árnadóttir gesti um sýninguna Handaverk frú Magneu Þorkelsdóttur en þar má sjá úrval búninga úr smiðju Magneu Þorkelsdóttur biskupsfrúar. 
Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem eiga búning að nota hann og jafnframt fyrir alla sem eru áhugasamir um íslenska þjóðbúninga að koma og sjá fjölbreytni þeirra. Mögulegt verður að fá aðstoð við uppsetningu höfuðbúnaðar á safninu. Sérstaklega er hvatt til þess að fólk mæti á þjóðbúningi síns heimalands. 

Dagskrá: 
Kl. 14:00: Setning. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður setur hátíðina og kynnir nýja heimasíðu Þjóðbúningaráðs. 
Kl. 14:15: Börn úr Þjóðdansafélagi Reykjavíkur sýna nokkra dansa. 
Kl. 14:30-16:00: Greining á búningaskarti. 
Kl. 15:00: Magnea Árnadóttir leiðir gesti um sýninguna Handaverk frú Magneu Þorkelsdóttur. 
Að þjóðbúningadeginum standa Þjóðminjasafn Íslands, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, Þjóðbúningaráð og Þjóðdansafélag Reykjavíkur.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti 8. mars

Dagskrá í Iðnó kl. 17:00

Vorið kallar

Fundarstjóri:  Kolbrún Halldórsdóttir


Ávörp:

Claudia Ashonie: Menntun kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og atvinna að námi loknu
Védís Guðjónsdóttir: Saman eða sundur
Sigríður Rut Hilmarsdóttir: Vinna með barnalýðræði
Steinunn Þóra Árnadóttir: Kjósum burt NATÓ!
Soumia Islami: Barátta kvenna í „arabíska vorinu“
Guðrún Jónsdóttir: „Og þær lifðu hamingjusamar til æviloka.“ Umfjöllun um vændi og Kristínarhús
Guðrún Hannesdóttir: Mennska

Magga Stína syngur við undirleik Kristins Árnasonar

Verið velkomin

Til að fagna fallegum hlutum

Handverksýning stendur nú yfir á Hallveigastöðum við Túngötu,
Sýningin er opin dagana 15. – 17. febrúar, frá kl. 13-18.

Kaffi og glæsilegt meðlæti er selt á staðnum á kr.1000,-


Það eru heldri dömur sem notið hafa handleiðslu Halldóru Arnórsdóttur sem starfað hefur sem leiðbeinandi í félagsstarfi hjá Reykjavíkurborg, sem halda sýningu á snilldarverkum sínum.
Þær nota mismunandi útsaumstækni þar sem unnið er með silkiborðum, silkiþráðum, ullargarni, bómullargarn, perlum og gullþráðum.
Einnig er að finna verk Halldóru á sýningunni.

Einkunarorð sýningarinnar eru:
Gerum hvern dag meira skapandi og enn fallegri !

Allir eru velkomnir

Opið hús í Hallveigarstöðum, nýtt kvenfélag stofnað í Reykjavík
 

 
1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar. Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar á 80 ára afmæli KÍ  árið 2010 . 
Var það gert til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna um árabil og löngu tímabært að kvenfélagskonur fengju sinn eigin dag á dagatalinu.

Dags kvenfélagskonunnar er getið á fjölmörgum dagatölum og í dagbókum og Kvenfélagasamband Íslands vekur athygli á deginum í fjölmiðlum til að festa hann enn frekar í sessi.Kvenfélög og kvenfélagskonur eru hvattar til að muna eftir deginum og jafnvel gera sér dagamun hver og ein eða saman, en einnig að vera tilbúnar til að taka á móti hamingjuóskum og athygli þennan dag.

Kvenfélagasamband Íslands verður með opið hús í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Túngötu 14, kl. 16.30 - 18.30  þann 1. febrúar

 

Hópur kvenna hefur um nokkurt skeið unnið að stofnun nýs kvenfélags í Reykjavík sem stofnað verður á Hallveigarstöðum þennan dag.
Hefst stofnfundur þess kl. 17.15 og geta þær konur sem þess óska gerst stofnfélagar á fundinum.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir

 

Villa er í uppskrift að Strokk í 4. tbl. Húsfreyjunnar 2011, jólablaðinu s: 48

Í lok 1. umferðar stendur að það eigi að prjóna 2 sléttar en það rétta er að það á að prjóna 1 slétta þar (3 sléttar lykkjur á milli stiga):
Leiðrétting:
 1. umf.: Prjónið *2 sléttar lykkjur, takið 1 lykkju óprjónaða, 1 slétt, steypið óprjónuðu lykkjunni yfir, sláið bandinu tvisvar upp á prjóninn, takið 2 lykkjur óprjónaðar eins og prjóna eigi þær slétt saman, 1 slétt, steypið óprjónuðu lykkjunum saman yfir, sláið bandinu tvisvar upp á prjóninn, prjónið 2 lykkjur saman, 1 slétt*. Endurtakið frá * til * út umferðina.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 Kvenfélagasamband Íslands