Í tilefni af 75 ára lýðveldisafmæli Íslands bauð forsætisráðuneytið í samvinnu við Landssamband bakarameistara upp á Lýðveldisköku og var hún 75 metra löng þriggja botna mjúk súkkulaðikaka með karamellu- rjómaostakremi og marsípani. Sáu Kvenfélagskonur um að skera kökuna í hátíðargesti. Kvenfélagskonur tóku vel í að vera með í þessu skemmtilega verkefni. Hátt í 50 konur mættu, margar þeirra voru í íslenskum þjóðbúning í tilefni dagsins. Konurnar byrjuðu daginn á að hittast og hita upp í húsnæði Kvenfélagasambandsins á Hallveigarstöðum að morgni 17. júní. Til að lágmarka allt einnota plastdót, voru konurnar beðnar að mæta með sína eigin tertuspaða. Það var því flottur hópur kvenna vopnaður tertuspöðum sem gekk fylktu liði frá Hallveigarstöðum að Sóleyjargötu þar sem tertan góða beið tilbúin. Jói Fel, formaður landssambands bakarameistara byrjaði á að skera fyrstu sneiðarnar fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Tertan rann svo ljúft niður í hátíðargesti sem nutu veðurblíðunnar þennan dag. Mikil stemming var í hópnum og varð þetta skemmtilega verkefni að yndislegri samveru þeirra kvenna sem tóku þátt.

Til hamingju með daginn!
Aðalfundur SAHK – Sambands austur-húnvetnskra kvenna var haldinn á Blönduósi, fimmtudaginn 2. maí. Árið 2018 átti Sambandið 90 ára afmæli og var ákveðið að halda fjáröflunarsamkomu í tilefni afmælisins og að allur ágóði skyldi renna til Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, til kaupa á baðlyftu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er í einlægu forsíðuviðtali og deilir með lesendum sögum af uppvexti sínum, upplifunum í einkalífi og stjórnmálastarfinu. Matarþátturinn er að sjálfsögðu á sínum stað þar sem Albert Eiríksson deilir með okkur sumarlegum réttum sem gott er að bjóða góðum gestum. Nýr þáttastjórnandi Handavinnuþáttarins er kynnt til leiks, en það er hún Steinunn Þorleifsdóttir textílkennari, hún býður okkur upp á hekluppskrift af borðkörfu sem má t.d. hekla úr gömlum bómullarbolum, prjónauppskriftir af fallegum barna- og fullorðinshúfum og saumaverkefni sem tilvalið er vinna úr gömlum gallabuxum eða öðru sem ekki er lengur not af. Þeba Björt Karlsdóttir stjórnarkona í Félagi fagkvenna segir lesendum frá sjálfri sér og félaginu í viðtali við ritstjóra. Elín Aradóttir sem býr að Hólabaki í Húnavatnshreppi og rekur þar eigið fyrirtæki á sviði vefnaðar- og gjafavöruframleiðslu undir vörumerkjunum Lagður og Tundra svarar spurningum Húsfreyjunnar. Auk þess eru meðal annars í blaðinu frásögn frá Kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna, ferðaráð ritstjórans og nánari upplýsingar um Ljóðasamkeppni Húsfreyjunnar.
Á meðfylgjandi mynd eru ljósmæðurnar með stjórn Nönnu - Ljósm: ÞÁ