Fyrsta tölublað Húsfreyjunnar 2021 er komin út.
 
Húsfreyjan 1. tbl. 2021minnstjpg
Að þessu sinni er það Kvenfélagskonan og sýkingavarnarhjúkrunarfræðingurinn Ása Steinunn Atladóttir sem er í aðalviðtalinu. Það hefur verið nóg um að vera hjá Ásu sl árið og hún deilir með lesendum lifshlaupi sínu og verkefnum.
Á haustdögum 2020 var síðasta sporið saumað í Njálurefilinn. Kristín Linda ritstjóri ræðir við aðalhvatakonur verkefnisins og segja okkur nánar frá því. Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur skrifar um baráttukonuna Rannveigu Þorsteinsdóttur sem var þriðji forseti Kvenfélagasambands Íslands. Í þessu fyrsta tölublaði er einsog venja birt Norræna bréfið sem Alma Möller landlæknir skrifaði. Norræna bréfið er birt af Norrænu kvennasamtökunum NKF ár hvert og skipta löndin með sér að fá aðila til að skrifa bréfin. Ný umsjónarkona hefur nú tekið við handavinnuþætti Húsfreyjunnar. Það er Ragnheiður Eiríksdóttir prjónahönnuður og hjúkrunarfræðingur sem að þessu sinni gefur meðal annars lesendum uppskrift að spennandi dömupeysu sem prjónuð er úr lopa og mohair sem Ragnheiður hefur gefið nafnið Húsfreyjan. Halla María Sveinsdóttir deilir með lesendum nokkrum af sínum bestu uppskriftum í matarþætti Húsfreyjunnar. Halla í Grindavík á og rekur veitingastaðinn Hjá Höllu. Anna F. Gunnarsdóttir sem hefur verið með fyrirtækið Anna og útlitið gefur lesendum góð ráð varðandi val á fatnaði í tengslum við verkefnið Vitundarvakning um fatasóun.
 
Í þessu fyrsta tölublaði er fjallað um nokkur þeirra verkefna sem kvenfélögin hafa verið svo hugmyndarík að vinna að í skugga Covid-19 sl. árið.  Krossgátan er að sjálfsögðu á sínum stað og fjölbreytt efni að vanda.
 
Útgáfustjórn vill vekja athygli á að frestur til að skila smásögum í smásögusamkeppni Húsfreyjunnar hefur verið framlengdur til 1. april nk.
 
Þeir sem þegar eru áskrifendur geta skráð sig á áskriftarvefinn til að fá rafrænan aðgang að Húsfreyjunni. Smellt er á flipann ég er áskrifandi en mig vantar aðgang. 
Njótið lestursins.

 
Á alþjóðlega hrósdeginum er tilvalið að hrósa öllum þeim sem hafa lagt söfnuninni Gjöf til allra kvenna lið. Hvort sem er með fjárframlögum eða vinnu. Stórt hrós og þakklæti til allra sem komið hafa að þessu stóra verkefni. ❤
Af söfnuninni er það að frétta að afmælisnefnd KÍ hitti þær Huldu Hjartardóttur yfirlæknir Kvennadeildar LSH og Önnu Sigríði Vernharðsdóttur yfirljósmóður hjá LSH 23. febrúar sl. Þar var farið yfir stöðu söfnunarinnar og næstu skref.
Til upprifjunar eru þetta þrír liðir sem verið er að vinna að:
 
• Kaupa ný tæki þar sem þau vantar
• Uppfærslur á tækjum þar sem þau eru þegar til staðar en þarf að uppfæra tengi o.fl.
• Kaupa hugbúnað/forrit til að tengja tækin saman og rafvæða landið

Dagur kvenfélagskonunnar er í dag.
1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar. Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, (1930) var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. Það var enda löngu tímabært að kvenfélagskonur fengju sinn eigin dag á dagatalinu.
Dagurinn hefur fest sig í sessi undanfarin ár og er hans nú getið á fjölmörgum dagatölum og í dagbókum. Kvenfélagasamband Íslands í samstarfi við RÚV og sveitarfélögin í landinu minnir á og vekur athygli á deginum í fjölmiðlum.
Kvenfélög og kvenfélagskonur eru hvattar til að muna eftir deginum og jafnvel gera sér dagamun hver og ein eða saman, en einnig að vera tilbúnar til að taka á móti hamingjuóskum og athygli þennan dag.
Þið eruð magnaðar
Í dag 1. febrúar 2021 er dagurinn líka sérstakur að því leyti að hann er formlegur lokadagur söfnunarinnar Gjöf til allra kvenna sem var hleypt af stokkum í tilefni 90 ára afmælis Kvenfélagasambands Íslands á síðasta ári.
Það er því tilvalið fyrir vini og samstarfsfélaga hverrar kvenfélagskonu að leggja málefninu lið og láta hana vita með hamingjuóskum með daginn. Á öðrum tímum hefðum við sagt ykkar að skella knúsi með
Söfnunarreikningurinn er 513-26-200000 kt. 710169-6759
Allt um landssöfnunina á gjoftilallrakvenna.is
Söfnunarreikningurinn verður opinn eitthvað áfram.
Yellow Paper Father Dad Appreciation Facebook Post
 

Nú þegar tveir dagar eru í formleg lok söfnunarinnar Gjöf til allra kvenna á Íslandi hefur safnast 63% af markmiðinu sem er 36 milljónir. Kvenfélög um land allt hafa tekið vel í söfnunina og lagt inn á söfnunarreikninginn hátt í 20 milljónir.  Einstaklingar og fyrirtæki hafa einnig lagt söfnuninni lið, ásamt því að Heimkaup hefur selt armbönd og súkkulaði endurgjaldslaust sem og Evita Gjafavörur í Mosfellsbæ sem hefur haft armbönd til sölu.  Safnað er fyrir tækjum og búnaði sem mun stuðla að bætti heilsuvernd kvenna um land allt. Árið 2021 geta heilsustofnanir landsins hvorki vistað né sent rafræn gögn á milli staða þegar kemur að heilsuöryggi kvenna. Þetta mun söfnunarféð bæta. 

Astria og Milou kerfi eru tæki og tækni, sem tengst geta fósturritum og ómskoðunartækjum sem notuð eru við mæðravernd, fæðingar og skoðanir á kvenlíffærum. Þetta snýst um rafræna vistun á gögnum og möguleika á rafrænni tengingu við sérfræðinga á Kvennadeild LSH þegar einhver vafaatriði koma upp.

Söfnunarreikningurinn verður opin til 15. febrúar og hægt að leggja inn framlög á 513-26-200000 kt. 710169-6759.  Landsmenn og fyrirtæki eru hvött til að leggja söfnuninni lið með framlögum. 

Söfnuninni var hleypt af stokkunum á Bessastöðum 1. febrúar 2020 á 90 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands, þegar Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson bauð Stjórn KÍ og afmælisnefnd í móttöku í tilefni afmælisins. 

 

Kvenfélagasamband Íslands sendir kvenfélagskonum, fjölskyldum þeirra, velunnurum, samstarfsaðilum og landsmönnum öllum hugheilar jólakveðjur, þakkar samstarfið, góðar kveðjur og stuðning vegna 90 ára afmælisins.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2021 Kvenfélagasamband Íslands