Húsfreyjan 3. tbl. 2022 Forsíða smallvebÚt er komið 3ja tölublað Húsfreyjunnar sem er jafnframt fyrsta tölublað nýs ritstjóri Húsfreyjunnar Sigríðar Ingvarsdóttur.    

Í blaðinu að þessu sinni er að finna einlægt viðtal við Tinnu Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Skógarbaðanna í Eyjafirði en Tinna tók nýverið u-beygju í lífinu og flutti norður til að stýra uppbyggingu Skógarbaðanna sem voru formlega opnuð í maí síðastliðnum. 

Í þessu tölublaði er rætt við þær Þuríði Pétursdóttur og Þuríði Helgu Jónasdóttur um Verðandi, endurnýtingarmiðstöð á Hofsósi. Megintilgangur Verðandi er að stuðla að endurnýtingu hluta og fatnaðar. Hugmyndafræði sem byggð er á hringrásarhagkerfinu og sjálfbærni.Sagt er frá Norrænu sumarþingi kvenfélagskvenna sem haldið var í Reykjanesbæ í sumar í bæði máli og myndum.  Lesendur fá síðan að njóta smásögu Jónínu Leósdóttur “Löglega afsökuð”.

Við fáum síðan að kynnast WIFT sem er Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á Íslandi. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sem er einn færasti sveppafræðingur landsins fræðir lesendur um sveppatínslu og kynnir algengustu matsveppina.

Hannyrðahornið er á sínum stað og að þessu sinni er það Sjöfn Kristjánsdóttir sem gefur lesendum þrjár uppskriftir til þess að prjóna á börnin í haust, en það er Ynja barnapeysa, Vera húfa og Mugison vettlingar. Sjöfn gaf út prjónabókina UNA Prjónabók árið 2020 í samstarfi við Sölku sól Eyfeld.

Matarþátturinn hans Alberts Eiríkssonar er að þessu sinnu helgaður úkraínskri veislu hjá Alexöndru Chernyshova sem gefur lesendum uppskriftir að Borsh, Pampúshki, Veraniki og Hunangsköku sem eflaust verður fróðlegt að spreyta sig á.

Prjónagleðin á Blönduósi fær pláss í blaðinu og rætt um verkefnið Plastlaus September og Leiðbeiningastöð heimilanna gefur góð ráð um hvernig við getum minnkað að plastið í fötunum okkar losi milljónir af örplasti út í umhverfið.

Sagt er frá tónlistarkonunni Fanneyju Kristjánsdóttur sem núverið gaf út sína aðra sólóplötu, en Fanney syngur undir listamannsnafninu Kjass.

Allt þetta, að sjálfsögðu krossgátan og meira til í nýjasta tölublaði Húsfreyjunnar sem Sigríður Ingvarsdóttir ritstýrir nú í fyrsta sinn.    

Húsfreyjan fæst í lausasölu í verslunum viða um land

Smelltu hér til að skrá þig í áskrift.  Þú getur valið um að fá blaðið á prenti eða skráð þig fyrir rafrænni áskrift.  Allir áskrifendur hafa aðgang að áskriftarvef Húsfreyjunnar og hafa þar takmarkalausan aðgang að fjölda eldri tölublaða. 

Sigridur vefGengið hefur verið frá ráðningu nýs ritstjóra Húsfreyjunnar, tímariti Kvenfélagasambands Íslands.

Sigríður er Þingeyingur líkt og forveri hennar í starfi. Fædd og uppalin á Húsavík. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Sigríður er nýtekin við starfi bæjarstjóra Fjallabyggðar. Síðastliðið sumar lét hún af störfum sem forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eftir 18 ára störf hjá stofnuninni sem framkvæmdastjóri og síðast forstjóri. Sigríður hefur einnig átt sæti á alþingi fyrir Norðurland vestra, setið í sveitarstjórn á Siglufirði, unnið í markaðsdeild Olís, sinnt kennslu við grunnskóla og háskóla, verið fréttaritari Morgunblaðsins og unnið á sjó, en þess má geta að hún er með skipstjórnarréttindi. Auk þess er hún m.a. með mastersgráðu í stjórnun (MBA) frá Háskóla Íslands og diploma gráðu í opinberri stjórnsýslu.

Sigríður er spennt fyrir nýjum verkefnum í samvinnu við öfluga ritstjórn. Yfirskrift blaðsins ,,Jákvæð og hvetjandi“ er það sem hún vill að Húsfreyjan standi fyrir. Veiti lesendum innsýn í þau fjölbreyttu verkefni sem konur um land allt eru að sinna.

Fyrsta tölublað nýs ritstjóra kemur út um miðjan september nk.

Sigríður tekur við góðu búi af Kristínu Lindu Jónsdóttur, sem setið hefur í stól ritstjóra Húsfreyjunnar síðan árið 2003. 

Kvenfélagasamband Íslands var gestgjafi á síðasta Norræna Sumarþingi Nordens Kvinnoförbund (NKF) sem haldið var á Park Inn í Reykjanesbæ 10. og 11. júní sl. í blíðskaparveðri. Þingið átti upphaflega að fara fram í júní 2020, það voru því spenntar konur sem mættu til að njóta fræðslu og samveru.

Rúmlega 80 konur frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi tóku þátt í þinginu.

Í sumar bauð stjórn KÍ og útgáfustjórn Húsfreyjunnar til Kveðjuhófs í tilefni af starfslokum Kristínar Lindu Jónsdóttur sem verið hefur ritstjóri Húsfreyjunnar síðan 2004. Fyrrum forsetum KÍ sem Kristín Linda hefur starfað með í um 18 ár sem ritstjóri, útgáfustjórn og stjórn KÍ var boðið á skrifstofu Kvenfélagasambandsins á Hallveigarstöðum.  Stjórn KÍ og útgáfustjórn þökkuðu Kristínu Lindu fyrir sín störf og góð kynni og færðu Kristínu Lindu þakklætisvott fyrir sín góðu störf fyrir Húsfreyjuna í öll þessi ár. Megi gæfan fylgja henni í nýjum ævintýrum. 

Skrifstofa Kvenfélagasambands Íslands og Húsfreyjunnar verður lokuð til 2. ágúst nk vegna sumarleyfis starfsmanns. Hafið það sem allra best í sumar. 

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands