Laugardaginn 1. febrúar sl. á Degi Kvenfélagskonunnar var 71. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) haldinn á Hallveigarstöðum.  Fundurinn var að þessu sinni með  sérstaklega hátíðlegum brag enda dagsetning fundarins valin til að fagna 95 ára afmæli sambandsins.  Formannaráð skipa stjórn KÍ og formenn þeirra héraðssambanda um allt land sem eiga aðild að KÍ.

Aðild að Kvenfélagasambandinu eiga  17 héraðssambönd um land allt, 143 kvenfélög og um 4.300 kvenfélagskonur.  Formenn héraðssambandanna mynda formannaráð sem ásamt stjórn sambandsins fer með æðsta vald milli landsþinga sem haldin eru á 3ja ára fresti.  Nú síðast var Landsþing haldið á Ísafirði í október 2024 þar sem um 220 konur alls staðar af landinu mættu.  Þetta er eitt af fjölmennustu þingum sem haldið hefur verið.  Gildin sem konur innan  Kvenfélagasambandsins hafa valið sér og endurspeglar starfið er: Kærleikur-Samvinna-Virðing.

Í gegnum tíðina hafa kvenfélög verið vettvangur fræðslu, félagslegrar samveru og baráttu fyrir bættum hag kvenna. Kvenfélögin hafa gegnt lykilhlutverki í að efla menntun kvenna, berjast fyrir jafnrétti og skapa betri framtíð fyrir komandi kynslóðir. Frá stofnun leikskóla til baráttunnar fyrir kosningarétti hafa kvenfélög staðið í fararbroddi jákvæðra samfélagsbreytinga.

Kvenfélagskonur hafa frá fyrstu tíð, ásamt öðru starfi safnað fyrir gjöfum til samfélagsins og eru þessar gjafir taldar í hundruðum milljóna króna undanfarinna  ára.

Kvenfélögin eru sterkt hreyfiafl sem starfa um land allt og hafa þannig skapað sér sterka stöðu, jákvæða ímynd og velvilja í sinni heimabyggð.

Á fundinum þann 1. febrúar voru ýmis mál rædd og verkefni ársins kynnt.  Auk þess sem skipað var í 100 ára afmælisnefnd KÍ en sambandið mun fagna 100 árum 2030.

Vika einmanaleikans

Stærsta verkefni ársins er án efa Vika einmanaleikans en sambandið hefur fengið tvo styrki frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti til verkefnisins. Fundurinn sendir frá sér eftirfarandi ályktun vegna þessa verkefnis:

Aðalformannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands, sem haldinn var 1. febrúar 2025 á degi kvenfélagskonunnar og á 95 ára afmæli sambandsins, lýsir yfir áhyggjum sínum af vaxandi einmanaleika og félagslegri einangrun í íslensku samfélagi. Fjölmargar rannsóknir sýna fram á alvarlegar afleiðingar einmanaleika fyrir andlega og líkamlega heilsu einstaklinga. Hefur þessi vandi aukist verulega á undanförnum árum og snertir fólk á öllum aldri.

Kvenfélagasambandið hefur frá stofnun þess unnið að því að efla samfélagslega samheldni og skapa vettvang fyrir konur til að tengjast og styðja hver aðra. Í ljósi aukningar einmanaleika er brýnt að efla þessi störf enn frekar og grípa til markvissra aðgerða.

Formannaráðsfundurinn hefur skipað nefnd sem mun vinna að eftirfarandi verkefnum:

  1. Vika einmanaleikans: Nefndin mun skipuleggja árlega "Viku einmanaleikans" til að vekja athygli á vanda einmana fólks, upplýsa almenning um orsakir og afleiðingar einmanaleika og hvetja til aðgerða.
  2. Samfélagsleg ábyrgð: Nefndin mun vinna með kvenfélögum um land allt að því að efla félagsstarf og skapa vettvang fyrir samveru og tengslamyndun. Hvert kvenfélag er hvatt til að finna leiðir til að bjóða upp á viðburði og athafnir sem draga úr félagslegri einangrun í nærumhverfi sínu.

Kvenfélagasambandið skorar á stjórnvöld, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga að taka höndum saman í baráttunni gegn einmanaleika. Með samstöðu og sameiginlegu átaki getum við skapað samfélag þar sem allir eiga sinn stað.

 

 

formannaradsfundur hallveigarstöðum 95 araweb

Á degi kvenfélagskonunnar þakkar Kvenfélagasamband Íslands velvilja og stuðning þjóðarinnar í 95 ár. Við þökkum öllum kvenfélagskonum fyrir þeirra óþrjótandi elju, hugmyndaauðgi og fórnfýsi.

Sérstakar þakkir fá þær kvenfélagskonur sem ruddu brautina og stuðluðu að framförum í íslensku samfélagi, okkur öllum til heilla.

Nýárspartý og fyrsti viðburður Kvennaárs 2025 verður þann 30. janúar í Iðnó frá 17-21.

Stundin er runnin upp! Við ætlum að fagna upphafi Kvennaárs 2025 með RISA partýi í Iðnó þann 30. janúar frá 17 - 21. Við ætlum að dansa, syngja og finna ofurkraftinn í samstöðu kvenna og kvára.
Hin eina sanna Margrét Maack stýrir gleðinni og þeytir skífum! Léttar veigar og veitingar í boði fyrir þyrst og svöng. Öll velkomin sem vilja leggja baráttunni fyrir raunverulegu jafnrétti á Íslandi lið! Gott aðgengi er á staðnum.

Kvenfélagasamband Íslands sendir kvenfélagskonum, fjölskyldum þeirra, velunnurum, samstarfsaðilum og landsmönnum öllum hugheilar jóla og nýárskveðjur.

Sérstakar þakkir fyrir frábæra samveru á landsþinginu á Ísafirði

 

 Jólakort KÍ 2024 web1

 

 

Jólafundur Kvenfélagasambands Íslands var haldinn á Hallveigarstöðum fimmtudaginn 28. nóvember síðastliðinn. Eins og ávallt var vel mætt og konu nutu samvista og góðra veitinga frá Ásdísi Hjálmtýsdóttur húsmóður Hallveigarstaða á milli dagskrárliða. Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir flutti hugvekju og Kristín Svava Tómasdóttir las upp úr bókinni Duna, um Guðnýju Halldórsdóttur kvikmyndagerðarkonu sem hún gefur út ásamt Guðrúnu Elsu Bragadóttur.  Þær Ásdís Björg Gestsdóttir, Sigurbjörg Skúladóttir
Kaldal og Vigdís Sigurðardóttir sungu nokkur jólalög fyrir gesti til að koma öllum í jólaskapið. Happdrættið var að sjálfsögðu á sínum stað einsog alltaf.   Jólafundur Kvenfélagasambandsins er alltaf góð byrjun á aðventunni. Þökkum kærlega öllum þeim sem mættu, þeim sem skemmtu okkur og þeim sem gáfu vinninga í happadrættið. Vonum að þið eigið öll ánægjulega aðventu og jólahátíð. 

 

 

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands